Verður Riksbank fyrstur?

cecilia-skingsley

Cecilia Skingsley

Í sumar urðu vatnaskil í baráttunni um bætt peningakerfi þegar rannsókn Englandsbanka sýndi fram á jákvæðar afleiðingar útgáfu rafrænna seðlabankapeninga á hagkerfið. Nýverið steig Cecilia Skingsley, varabankastjóri seðlabanka Svíþjóðar (Riksbank) svo fram og tjáði sig með afgerandi hætti um málið.

Eftir því sem færri okkar svíþjóðarbúa nota seðla og mynt, því skýrar verður það að Riksbank verður að kanna hvort hann ætti að gefa út rafræna peninga til að styðja við þá peninga sem við höfum í dag.

Cecilia bendir á að það er lögbundið hlutverk Riksbank að viðhalda öruggu og skilvirku greiðslukerfi og að það skuli vera opið öllum. Vert er að benda á að Seðlabanki Íslands hefur samskonar hlutverki að gegna, samanber 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands:

Seðlabanki Íslands skal sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd.

Tvíhliða kerfi rafrænna peninga í formi áhættusamra innlána einkaaðila annars vegar og áhættulausra rafpeninga útgefinna af seðlabanka hins vegar myndi væntanlega vekja enn frekari spurningar um rétt einkaaðila til útgáfu gjaldmiðilsins. Því má gera ráð fyrir að útgáfa seðlabanka á rafrænni mynt gæti því orðið fyrsta skrefið að fullbúnu þjóðpeningakerfi.

Nálgast má nánari upplýsingar um málið á heimasíðu Riksbank.