Vandinn

Innlánsstofnanir hafa leyfi til að búa til peninga og hafa af því miklar tekjur

Í núverandi peningakerfi er innlánsstofnunum heimilt að búa til ígildi peninga með útlánum. Í raun er megnið af þeim peningum sem notaðir eru í almennum viðskiptum rafræn innlán sem einkabankar hafa búið til með útlánum.

Seðlabankinn býr til seðla og mynt, sem eru um 40 milljarðar. Bankarnir búa hins vegar til rafrænar óbundnar innstæður sem eru um 1.000 milljarðar. Það sem við köllum í daglegu tali íslenskar krónur eru að langmestu leyti krónur sem búnar eru til af bönkum sem vaxtaberandi skuld.

Bankarnir hafa þannig árlega tugi milljarða í hreinar vaxtatekjur (vaxtatekjur af útlánum umfram vaxtagjöld af innlánum) af þeim óbundnu innlánum (rafkrónum) og útlánum sem þeir hafa sjálfir búið til úr engu.

Bankar magna sveiflur í peningamagni og efnahag landsins

Það er forsenda fyrir stöðugu verðlagi að magn peninga í umferð sé stöðugt og í góðu samræmi við framleiðni hagkerfisins.

Reynslan hefur hins vegar sýnt að innlánsstofnanir magna sveiflur í peningamagni með útlánum sínum og auka þar með á efnahagsveiflur. Þegar efnahagshorfur eru góðar keppast bankar við að lána út peninga, oft með þeim afleiðingum að eignabólur myndast. Á samdráttarskeiðum verða bankar svo áhættufælnir og vinna að því að draga saman útlán sín, en afleiðingin af því er aukinn samdráttur og jafnvel kreppa.

Þessi þróun hefur verið skýr undanfarin áratug, en t.a.m. tvöfaldaðist peningamagn í umferð (M2) frá upphafi árs 2006 til loka árs 2007. Þróunin hefur hins vegar snúist við frá falli bankakerfisins, þar sem peningamagn hefur dregist verulega saman frá nóvember 2008.

Bankar mega ekki fara á hausinn

Önnur óæskileg afleiðing kerfisins er að þar sem nær allir peningar í landinu eru í formi innlána á hlaupareikningum innlánsstofnana myndu nær öll viðskipti stöðvast ef þær færu í þrot. Fólk hefði ekki peninga til að kaupa brýnustu nauðsynjar og afleiðingin gæti orðið upplausnarástand.

Stjórnvöld sem standa frammi fyrir slíkri ógn munu ávallt velja fremur að bjarga bönkunum með skattfé almennings. Stórar innlánsstofnanir eru þannig í þeirri sérstöku aðstöðu að geta velt taprekstri yfir á samfélagið en haldið hagnaðinum þegar vel gengur.

Sífellt meiri skuldasöfnun

Nær allir peningar í landinu eru búnir til sem vaxtaberandi skuld og vextirnir af þeim hlaupa á tugum milljarða árlega. Ekkert hagkerfi getur staðið undir því að greiða 3-5% vexti af öllum peningum í umferð án þess að sökkva dýpra og dýpra í skuldafenið. Hér á Íslandi má áætla að vextirnir séu á bilinu 30-40 milljarðar árlega.

Skuldirnar leggjast bæði á hið opinbera og einkaaðila. Jafnvel þeir sem skulda ekkert þurfa samt að greiða vexti óbeint, með sköttum sínum sem renna til að greiða vexti af ríkisskuldum og einnig í hærra verði fyrir vörur og þjónustu, þar sem fyrirtæki þurfa að greiða vexti af sínum lánum.

Alþjóðlegt vandamál

Í meira en 400 ár hafa þjóðir heims búið við það fyrirkomulag að leigja eigin gjaldmiðla af innlánsstofnunum. Afleiðingin er sú að jafnvel ríki sem hafa náð stórkostlegum árangri í framleiðslu verðmæta, eins og Bandaríkin, eru sokkin í skuldafen sem vart sér út úr.

Sem betur fer er til þekkt lausn á þessum vandamálum.