Umsagnir um þingsályktunartillögu

Althingi_logoNíu áhugaverðar umsagnir bárust um þingsályktunartillögu um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar. Skemmst er frá að segja að átta voru jákvæðar í garð tillögunnar og mæltu með samþykki hennar. Sérstaklega var gaman að sjá umsögn Seðlabanka Íslands sem finnst umræðan vera gagnleg og gerði ekki athugasemdir.

Eini aðilinn sem setti sig upp á móti tillögunni var Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF). Eftirfarandi eru viðbrögð okkar við umsögninni. Er hún um margt athyglisverð, eins og hér verður rakið.

Verulegum hluta umsagnar sinnar verja samtökin í að reifa innstæðutryggingakerfi Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Virðast samtökin hafa dálæti á þessum plástri á brotaforðakerfið frá 4. áratugs síðustu aldar, sem settur var á í kjölfar mikillar umræðu þar sem fræðimenn voru frekar á því að fylgja Chicago áætlun Irving Fisher og félaga. Chicago áætlunin laut hinsvegar í lægra haldi og lappað var upp á gamla brotaforðakerfið með innstæðutryggingum. Ronnie J. Phillips gerði ýtarlega skoðun á málinu og setti fram í bók sinni, The Chicago Plan & New Deal Banking Reform, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að Chicago-áætluninni hafi ekki verið hafnað á grundvelli hugmyndafræði, heldur vegna pólitískrar tækifærismennsku (e. political expiency).

SFF viðurkenna vankunnáttu sína á málinu þegar þau segja: “Samtökum fjármálafyrirtækja sýnist að hér séu á ferð hugmyndir sem fyrst voru settar fram árið 1933 af hópi hagfræðinga við Háskólann í Chicago í Bandaríkjunum með Henry Simons í broddi fylkingar.” Opinbera í kjölfarið myrkraskotið með setningunni: “Þess er reyndar ekki getið í þingályktuninni.”

Umsögn sína ljúka samtökin á þeirri fullyrðingu að “skipan fjármálakerfisins hér á landi hljóti að taka mið af því sem gerist á Evrópska efnahagssvæðinu (EES).” Samtökin vísa hins vegar ekki í neina Evróputilskipun eða reglur sem gerir Íslandi skylt að búa við sama form peningaútgáfu. Enda hefur eftirgrennslan forsvarsmanna Betra peningakerfis ekki leitt í ljós að slíkar kröfur séu til staðar.

Þessi eina gagnrýni á þingsályktunartilllöguna ber því með sér að andstaðan við að kanna tækifæri til umbóta á peningakerfinu er verulega veik. Það er því ástæða til bjartsýni á framgöngu málsins hjá Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og Alþingi í kjölfarið.