Spurt og svarað

Núverandi brotaforðakerfi (e. fractional reserve banking) (3)

Ef bankar geta búið til peninga, hvernig geta þeir þá farið á hausinn?

Bankar geta aðeins búið til peninga á meðan þeir njóta trausts. Um leið og traustið hverfur vilja viðskiptavinir taka út peningana sína og færa þá í traustari banka. Bankar eiga yfirleitt ekki laust fé til að greiða út nema lítinn hluta af innlánum. Þeir geta því lent í greiðsluvanda sem getur leitt til gjaldþrots.

Hvernig búa bankar til peninga?

Bankar geta búið til nýja peninga með því að veita lán. Peningar sem bankar búa til með þeim hætti verða til í formi inneignar á hlaupareikningum. Inneignar sem hægt er að greiða með vörur, skuldir og skatta eins og um lögeyri sé að ræða.

Það er útbreiddur misskilningur að Seðlabankinn búi til alla peninga í landinu og bankar séu einfaldlega milliliðir sem taki við sparifé og veiti því til lántakenda. Hið rétta er að Seðlabankinn býr aðeins til 5% af þeim peningum sem notaðir eru í landinu (seðla og mynt), það eru bankarnir sem búa til 95% af peningum (innstæður).

Banki þarf lántakanda til að búa til innstæðu. Þegar lántakandinn skrifar upp á skuldabréf myndar það eign hjá bankanum og samtímis býr bankinn til jafn háa innstæðu á hlaupareikningi lántakans, sem er þá skuld bankans við lántakandann. Efnahagur bankans er því í jafnvægi.

Þessi innstæða á hlaupareikningi lántakans er viðbót við peningamagnið í landinu. Lántakandinn getur notað innstæðuna til að greiða fyrir kaup af seljanda. Ef seljandinn er hjá sama banka gerist millifærslan innan bankans. Ef seljandinn er hjá öðrum banka verður banki kaupandans að millifæra hluta af lausafé sínu til banka seljandans. Yfirleitt eru viðskipti í báðar áttir milli banka svipuð og lausafjárþörf banka því aðeins lítið brot af heildarmagni millifærslna.

Ef til þess kemur að banka skorti lausafé getur hann leitað til Seðlabanka sem nær undantekningalaust veitir fyrirgreiðslu.

Það er rétt að geta þess að þegar lántaki hefur safnað nægu fé inn á hlaupareikning sinn og greiðir upp lánið, þá gengur ferlið til baka og peningamagnið í landinu dregst aftur saman. Þegar bankar auka útlán sín, þá eykst peningamagn í landinu, en þegar þeir draga úr útlánum þá dregst peningamagn saman.

Af hverju hentar núverandi peningakerfi ekki vel við stýringu peningamagns?

Í núverandi brotaforðakerfi er stýring peningamagns (lausar innstæður – m2) aukaafurð útlánastarfsemi viðskiptabanka. Þ.e. þegar banki veitir útlán myndast jafn hátt innlán á viðskiptareikningi skuldarans eða hjá þeim sem skuldarinn kaupir vöruna af (t.a.m. í tilfelli fasteignaviðskipta). Það er ekki meðvituð ákvörðun viðskiptabankans með veitingu útlánsins að auka peningamagn í umferð, heldur er hann aðeins að leita leiða til að afla vaxtatekna til handa lánadrottnum og hluthöfum bankans. Í þessu ljósi er ekki til staðar virk stýring á peningamagni, heldur sveiflast það með vilja bankakerfisins til útlána og raunhagkerfisins til að skuldsetja sig. Þetta sést glögglega þegar við skoðum þróun peningamagnsins undanfarin 10 ár (m2). Frá árinu 2002 til 2008 var um hraða aukningu peningamagns að ræða (sjá: http://hagtolur.sedlabanki.is/data/set/238s/#!display=line&ds=238s!2jz1=4&s=9gp). Eftirfarandi keðjuverkun var stór orsakaþáttur þróunarinnar:

 • Hækkandi fasteignaverð ýtir undir aukna útlánastarfsemi, þar sem veðhlutföll batna.
 • Auðveldara aðgengi að útlánum ýtir undir eftirspurn eftir fasteignum, sem veldur verðhækkunum. Hringurinn endurtekur sig svo.

Frá október 2008 hefur peningamagn hins vegar dregist saman. Orsakast það af öfugri keðjuverkun gagnvart því sem að ofan er líst. Þ.e. lækkandi fasteignaverð heldur aftur af útlánastarfsemi, eftirspurn og verðhækkunum fasteigna. Jafnframt er vert að benda á að almenn áhættufælni hefur þau áhrif að peningamagn dregst saman, á meðan áhættusækni þrýstir á aukið peningamagn. Þ.e. þegar ótti er við fjárfestingar og skuldsetningu en fólk og fyrirtæki vinnur almennt að því að greiða niður skuldir, dregst peningamagnið saman. Seðlabankinn gefur bankakerfinu ákveðinn ramma til peningasköpunar með bindiskyldunni, sem var lækkuð nokkuð á fyrsta áratug 20. aldarinnar. Þetta breytir hins vegar ekki ofangreindri atburðarás innan bankakerfisins.

Í ljósi ofangreinds er ljóst að innan núverandi kerfis:

 1. Getur enginn stýrt peningamagninu miðlægt, og
 2. Brotaforðakerfið er til þess fallið að magna sveiflur í peningamagni, sem er þvert á það sem æskilegt er fyrir hagkerfið.

Þjóðpeningakerfi (14)

Hvað ef peningaígildi í umferð aukast?

Hugsanlegt er að hvatar myndist fyrir fjármálastofnanir til að skapa svonefnd peningaígildi (e. near money) til þess að halda sem stærstum hluta peningamagnsins á efnahagsreikningi sínum. Þetta yrði t.d. gert með útgáfu ávísana á fjárfestingarreikninga (Investment accounts). Ávísanirnar gætu síðan gengið kaupum og sölum í viðskiptum með vöru og þjónustu og þannig orðið ígildi peninga. Tvennt myndi virka letjandi til slíkrar starfsemi í þjóðpeningakerfi:

 • Hvorki verður til staðar innstæðutryggingakerfi eða ríkisábyrgð á slíkum peningaígildum. Fólk með slíkar eignir eiga því á hættu að tapa þeim á meðan inneignir á færslureikningum verða ávallt öruggar.
 • Ríkið viðurkennir aðeins innstæður á færslureikningum sem fullnaðagreiðslur skatta. Þannig þyrftu eigendur peningaígilda að skipta þeim reglulega í færslureikninga. Í þessu samhengi má nefna að eitt form peningaígilda, svonefndir hliðargjaldmiðlar (complementary currencies), hafa þrátt fyrir töluverðar vinsældir á mörgum stöðum aðeins náð útbreiðslu sem nemur örfáum prósentum af peningamagni viðkomandi þjóðar af þessari ástæðu.

Hugsanlegt er að ofangreindir hvatar reynist ekki nægjanlegir í umhverfi hárra vaxta. Þá væri unnt að gera færslureikningana vaxtaberandi til þess að draga úr þeim freistnivanda. Peningamagnsnefndin myndi ákvarða vextina og nýir peningar yrðu gefnir út til greiðslu þeirra. Vextirnir yrðu hóflegir og ávallt lægri en vextir sem bjóðast á fjárfestingarreikningum.

Verður ekki hætta á sveiflukenndu vaxtastigi?

Sveiflur í vöxtum velta á peningastefnunni sem rekin yrði undir þjóðpeningakerfi. Peningamagnsnefndin gæti veitt peningalegt aðhald í gegnum vexti með því að halda peningamagni stöðugu og leyfa vöxtum að sveiflast í takt við eftirspurn eftir fjármagni. Peningamagnsnefndin gæti einnig farið þá leið að sveifla peningamagni hraðar í samræmi við breytingar í eftirspurn eftir peningum með það að markmiði að halda vaxtastigi stöðugu. Þá getur seðlabankinn beitt inngripum í formi endurkaupa á ríkisskuldabréfum og haft þannig dempandi áhrif á vaxtamarkaði.

Í lánveitingum bankanna og á skuldabréfamörkuðum munu menn bæta við vaxtaálagi í takt við lánshæfi lántakandans og skuldarans, líkt og í núverandi kerfi. Þegar skuldsetning er há sveiflast þetta vaxtaálag mikið, eins og þau ríki sem lent hafa í skuldavanda hafa fengið að reyna. Lægri skuldir undir þjóðpeningakerfi benda til þess að þetta vaxtaálag yrði lægra en í núverandi kerfi.

Hvaða áhrif hefur umbreytingin á tímaumbreytingu fjármagns?

Bankar munu stunda tímaumbreytingu (e. maturity transformation) undir þjóðpeningakerfi með sama hætti og í dag, utan þess að þeir hafa ekki aðgang að óbundnum innlánum sem fjármögnun.

Við umbreytingu í þjóðpeningakerfi, þegar stutt innlán eru notuð til að greiða upp baka útlán af mismunandi tímalengdum og efnahagsreikningar bankanna minnka um 400 milljarða (gróflega áætlað) vegna þessa, sem er 13% samdráttur eigna. Við þetta styrkjast lausafjárhlutföll þeirra, þeir verða lengra innan viðmiða evrópska regluverksins (Basel III) og þannig eykst geta þeirra til tímaumbreytingar (e. maturity transformation) við breytinguna.

Verður erfiðara að fá lán ef bankar geta ekki búið til peninga?

Nei, það verður ekki erfiðara að fá lán því peningamagn í umferð minnkar ekki við breytinguna. Bankar munu áfram taka við sparnaði til ávöxtunar og munu eins og áður þurfa að finna góða lántakendur til að ávaxta sparifé landsmanna.

Er ríkinu treystandi fyrir peningavaldinu?

Nei, ríkisstjórn má ekki að hafa peningavaldið frekar en eigendur banka. Enda er lagt til að stjórn peningamagns verði á hendi óháðrar nefndar sem tekur ákvarðanir um peningamagn út frá þjóðhagslegum markmiðum. Ríkisstjórnir munu ekki geta knúið nefndina til að samþykkja aukið peningamagn til einstakra gæluverkefna.

Hvað ef peningamagnsnefnd gerir mistök?

Það má gera ráð fyrir því að peningamagnsnefnd sem hefur hagsmuni þjóðarbúsins í fyrirrúmi geti tekið rangar ákvarðanir endrum og sinnum.

En þrátt fyrir það er ólíklegt að tjónið af þeim mistökum yrði jafn mikið og hlýst af því að leyfa innlánsstofnunum að stýra peningamagni þjóðarinnar í þágu sérhagsmuna eigenda sinna.

Er ekki verið að ríkisvæða bankastarfsemi?

Nei. Bankar munu áfram vera einkareknir og veita þá þjónustu sem við eigum að venjast. Þeir munu taka við innlánum og veita lán, en þeir munu ekki geta búið til nýja peninga, það verkefni færist til Seðlabanka.

Hamlar EES samningurinn upptöku þjóðpeningakerfis?

Nei, það er ekkert í EES samningnum sem hindrar það. EES samningurinn gefur einstökum ríkjum sjálfdæmi um beitingu ýmissra peningastjórntækja og einnig hve mikil bindiskylda er sett á innlánsstofnanir. Hún getur t.d. verið 100%

Verður ekki hætta á aukinni spillingu í nýju kerfi?

Hér ber að hafa í huga að samkvæmt þeim tillögum sem hér eru til umfjöllunar munu ákvarðanir um prentun nýrra peninga vera á höndum seðlabanka á meðan vald til útdeilingar nýrra peninga verður á höndum framkvæmdavaldsins á hverjum tíma. Vissulega væri hætta á misnotkun af hendi peningamagnsnefnd, þar sem fólk hefur alltaf ákveðna hagsmuni af þróuninni á fjármálamörkuðum, með beinum eða óbeinum hætti. Lágmarka má þessa hagsmunaárekstra með kröfum til viðkomandi aðila í lögum og reglum. Þá er vandséð að þessi hætta væri meiri heldur en í núverandi kerfi, þar sem seðlabankinn hefur afgerandi áhrif á vaxtamarkaði í gegnum stýrivaxtaákvarðanir.

Hvað varðar spillingu vegna valds til útdeilingar nýrra peninga verður þeim útdeilt í gegnum ríkisútgjöld með fjárlögum. Það er því jafn mikil hætta á spillingu af þessum þætti og í núverandi kerfi.

Eru einhver fordæmi um önnur peningakerfi?

Það má segja að fram til ársins 1600 hafi peningaútgáfa verið skuldlaus.

Það var í raun ólöglegt fyrir banka að lána út innstæður sem áttu að vera aðgengilegar eigendum. Bankar máttu aðeins lána út bundin innlán. Þetta breyttist í Englandi árið 1666 og bönkum var leyft að lána út lausar innstæður. Það gaf þeim möguleika á meiri gróða en skapaði hættu á greiðsluþroti ef of margir vildu taka út peninga samtímis.

Rómverskir keisarar gáfu sjálfir út mynt, sem var úr verðlitlum málmi, en fengu hana ekki að láni frá bönkum eins og nú tíðkast. Þetta gekk vel í mörg hundruð ár en Rómarveldi hnignaði ört þegar einkaaðilar fóru að gefa út silfur og gullpeninga.

Á Guernsey, hafa stjórnvöld gefið út eigin mynt síðan 1820 til að fjármagna framkvæmdir án skuldar á tímum mikilla erfiðleika og atvinnuleysis. Þessi myntslátta er til viðbótar við þau bresku pund sem annars eru í notkun. Árangurinn hefur verið frábær. Íbúar Guernsey hafa þrátt fyrir fremur litlar auðlindir búið við góð lífskjör, lága skatta og litla verðbólgu.

Þarf sparnaður ekki að vera meiri í nýju kerfi, þar sem útlán eru ekki búin til úr engu?

Hvað varðar langtímalán, sem eru að stærstum hluta fasteignaveðlán, þá má reikna með að þau verði áfram fjármögnuð með skuldabréfaútgáfum, eins og gert er í dag með útgáfu Íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs og sértryggðra skuldabréfa skuldabréfa bankanna. Lífeyrisjóðirnir yrðu væntanlega áfram stærstu kaupendurnir af þessum bréfum og myndu þannig sjá um lengri fjármögnun einstaklinga og fyrirtækja (t.d. 25 ár+). Þannig verður ekki þörf á að almenningur eða fyrirtæki bindi fjármagn til lengri tíma til að skapa aðgengi að langtíma lánsfé, lífeyrissjóðirnir ættu að geta séð fyrir þessari fjárþörf að mestu leyti.

Það er ljóst að til þess að aðgengi að lánsfé sé sambærilegt við það sem gerist í dag þyrfti stærri hluti fjármagnseigenda að binda fé sitt í bönkunum en gengur og gerist í dag. Gera má ráð fyrir að það að óbundnir reikningar seðlabankans verði vaxtalausir myndi töluverðan hvata í þá áttina. Það er svo ekki ólíklegt að bankar myndu bjóða sparifjáreigendum hækkandi vexti með lengri binditíma. Þrátt fyrir það er ólíklegt að fólk vilji binda sparnað sinn mikið lengur en til 3 – 5 ára. En leiða má líkum að því að þótt fólk vilji hafa sparnað sinn lausan innan t.d. 3 ára þá taki ekki allir peninginn út að 3 árum liðnum. Stór hluti bindur peningana aftur í 3 ár til að fá betri ávöxtun. Svo kemur maður í manns stað. Þegar einn tekur út sparnað sinn og eyðir þá myndar það tekjur hjá öðrum sem getur þá lagt fyrir.

Ef lítið aðgengi er að stuttu lánsfé munu vextirnir hækka og fleiri verða þá tilbúnir til að lána lausafé sitt, sem heldur aftur af hækkun vaxta. Svipuð hugsun og í brotaforðakerfi nútímans, en þar sem heildarforðakerfið er byggt á mun stöðugri grunni ætti virknin í markaðslögmálum sem þessum að vera betri.

Af hverju hefur þjóðpeningakerfi ekki verið tekið upp?

Með hliðsjón af yfirburðum þjóðpeningakerfis umfram brotaforðakerfið er eðlilegt að spurt sé hvers vegna þjóðpeningakerfi hafi ekki enn breiðst út.

Í fyrsta lagi hafa eigendur banka ríka hagsmuni af því að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi. Leyfið til að búa til peninga úr engu er rót mikils ágóða. Bankar vinna mjög skipulega að því að gæta þessara hagsmuna og hafa til þess mikið fjármagn.

Í öðru lagi hafa þeir sem vilja taka upp þjóðpeningakerfi enga fjárhagslega hagsmuni af því, enda rennur ágóði af peningaprentun til ríkisins. Fáir eru til í að leggja á sig erfiðið.

Í þriðja lagi, hafa fáir stjórnmálamenn nógu góðan skilning á peningamálum. Stjórnmálamenn fá ekki mörg atkvæði fyrir að hefja baráttu fyrir upptöku þjóðpeninakerfis en gætu mætt verulegu andstreymi frá fjármálakerfinu. Kjósendur hafa  ekki verið nægilega vel upplýstir um skaðsemi brotaforðakerfisins. Stjórnmálamenn munu ekki taka við sér fyrr en kjósendur byrja að gera kröfur um betra peningakerfi.

Að auki má nefna að það er almennt mikil tregða og ótti við breytingar. Hvaða þjóð vill vera fyrst til að afleggja brotaforðakerfið? Allir bíða eftir því að einhver annar ríði á vaðið.

Bandaríkin hafa verið uppspretta nýjunga á fjármálamarkaði en það er mjög ólíklegt að hagsmunaöfl þar í landi leyfi breytinguna baráttulaust.

Aðildarríki myntbandalags evrunnar verða að taka sameiginlega ákvörðun um að breyta yfir í þjóðpeningakerfi. Það verður að teljast ólíklegt af svipuðum ástæðum og í Bandaríkjunum.

Líklegast er að smáþjóðir með sjálfstæðan gjaldmiðil eins og Ísland verði fyrstar til að taka upp þjóðpeningakerfi, en önnur lönd fylgi svo í kjölfarið þegar reynsla er komin á kerfið.

Yrði ekki hætta á meiri verðbólgu?

Margir hafa áhyggjur af því að peningamagnsnefndin hefði tilhneygingu til of mikillar peningaprentunar og valdi þannig mikilli verðbólgu. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að:

 • Peningamagnsnefndin mun ekki hafa hagsmuni af prentun nýrra peninga.
 • Peningamagnsnefndin hefur ekki úthlutunarvald yfir nýjum peningum og er því ekki í aðstöðu til þess að hygla tengdum aðilum.
 • Fulltrúar í Peningamagnsnefndinni verða lýðræðislega kjörnir og fullt gagnsæi í ákvörðunartöku hennar. Nái Peningamagnsnefndin ekki stöðugleikamarkmiðum sínum er eðlilegt að fulltrúum nefndarinnar verði skipt út.

Ávallt er hætta á að verðlag sveiflist samhliða breytingum í framboði og eftirspurn. Það er hins vegar ástæðulaust að óttast að heildarforðakerfið leiði af sér verðbólgu.

Þá er gott í þessu samhengi að hafa í huga að undir brotaforðakerfinu er hætta á of miklum peningamagnsvexti, þar sem bankarnir hafa hagsmuni af því að veita ný lán og auka þannig vaxtamun sinn. Afleiðing þessa er vöxtur í peningamagni með tilheyrandi verðbólgu.

Yrði ekki hætta á verðhjöðnun undir þjóðpeningakerfi?

Verðhjöðnun hefur verið erfitt vandamál þar sem hún hefur stungið sér niður. Hættan felst í að menn haldi að sér höndum, og bíði með neyslu og fjárfestingar í von um að vörur og þjónusta verði ódýrari í framtíðinni. Þetta minnkar veltuhraða peninga og getur skapað svonefnda lausafjárgildru (e. liquidity trap).

Til þess að bregðast við hættunni er unnt að auka peningamagnið eða lækka vexti. Undir þjóðpeningakerfi verða menn í betri aðstöðu til þess að stýra breiðu peningamagni í víðum skilningi (seðlar og mynt auk innstæðna) þar sem því verður stýrt með beinum hætti af Peningamagnsnefndinni. Undir brotaforðakerfinu er aðeins grunnfé stýrt af seðlabönkum en innlánsstofnunum látið eftir að auka/margfalda peningamagn í víðari skilningi. Til marks um þetta má nefna að með magnbundinni íhlutun (Quantitative Easing 1, 2 og 3) hefur FED-ið í BNA aukið grunnfé gríðarlega. Þetta hefur hins vegar skilað sér seint og illa í breiðara peningamagni, sem skiptir höfuðmáli upp á raunhagkerfið og hættuna á verðhjöðnun.

Verðhjöðnun er afleiðing af (hjarð)hegðun fólks innan hagkerfisins sem ávallt verður hætta á. Ekkert kerfi getur komið í veg fyrir afleiðingar mannlegs eðlis. Hins vegar er unnt að stýra peningamagni með beinni hætti undir þjóðpeningakerfi en brotaforðakerfinu og er þjóðpeningakerfi því betur til þess fallið að lágmarka hættuna á verðhjöðnun.

Aðrar tillögur til úrbóta (4)

Væri endurupptaka gullfótarins ekki góð lausn á þeim vanda sem hér er fjallað um?

Gull og aðrir málmar hafa þjónað manninum vel sem gjaldmiðill í fortíðinni, þar sem gjaldmiðillinn var studdur með verðgildi málmsins. Gullfóturinn nefndist það úrræði að verð á gulli væri fast í viðkomandi gjaldmiðli. Þannig var ekki unnt að prenta of mikið af peningum, þar sem það hefði ollið verðhækkun á gulli. Gullfóturinn er því brotaforðakerfinu óviðkomandi, sem hér er til umfjöllunar.

Væri ekki einfaldara og betra að nota gull sem gjaldmiðil?

Viðleitnin í þróun gjaldmiðla hefur sögulega miðast við að auðvelda viðskipti. Að fara úr rafrænni greiðslumynt yfir í gull yrði skref aftur á bak hvað þetta varðar.

Einnig er mikilvægt að átta sig á afleiðingunum fyrir verðlag í kerfi þar sem gull er gjaldmiðill. Ekki er mögulegt að stýra framboði á gulli, en það er m.a. háð aðgengi að málminum úr jörðu. Eftirspurnin eftir gulli er sveiflukennd sem hefur í för með sér verulegar verðsveiflur á gulli. Í kerfi þar sem gull er gjaldmiðill hefur verðhækkun á gulli áhrif til verðhjöðnunar, þar sem hver únsa af gulli myndi kaupa meira mikið af vöru og þjónustu eftir verðhækkanirnar. Verðlækkun hefði hins vegar áhrif til verðbólgu. Því myndi verðlag sveiflast með verðgildi gulls, án þess að unnt væri að hafa neina stjórn á þeirri þróun með stýringu á peningamagni eða vöxtum. En verðstöðugleiki er eitt af meginviðfangsefnum peningamálafræða og því teljum við afturhvarf til gulls ekki æskilega þróun.

Þá má einnig leiða líkum að því að verð á gulli hækki nokkuð ef gull yrði nýtt sem gjaldmiðill í heiminum. Þetta gæti ollið því að öfugt við kreppuárin eftir stríð þar sem fólk þurfti hjólbörur undir peningana til að kaupa mjólk þá gæti afgreiðslulmaðurinn þurft smásjá til að taka við mjólkurgreiðslunni í framtíðinni.

Getur lausnin ekki verið fólgin í mótvægisgjaldmiðlum (e. alternative currencies)?

Víðsvegar um heim hafa verið sett á fót viðskiptakerfi þar sem aðrar einingar en gjaldmiðill viðkomandi lands er notaður í viðskiptunum. Viðkomandi einingar eru ekki skapaðar gegn skuldbindingu, líkt og gert er með vestræna gjaldmiðla. Dæmi um þetta á Íslandi er Viðskiptanetið, þar sem ekki er notast við krónuna í viðskiptum.

Enginn mótvægisgjaldmiðill hefur hins vegar náð verulegri stærð í samhengi við peningamagn viðkomandi þjóðar. WIR gjaldmiðillinn í Swiss, sem er einna vinsælastur er t.a.m. undir 1% af peninamagni. Þetta er þrátt fyrir að mótvægisgjaldmiðlar eru almennt gefnir út skuldlaust. Ástæða þess að mótvægisgjaldmiðlar ná ekki meiri útbreiðslu en raun ber vitni er að miklu leyti að ríkið samþykkir þá ekki við greiðslu skatta. Í því ljósi er nokkurt óhagræði af því að nota viðbótargjaldmiðlana í viðskiptum. Þá flækir það viðskipti að vera með marga gjaldmiðla og því heldur flest fólk sig við þann gjaldmiðil sem er almennt samþykktur og erfitt er um vik að ná mikilli útbreiðslu annarra gjaldmiðla.

Væri ekki betra að fylgja fordæmi annarra þjóða, ráðist þær í breytingarnar?

Sögulega hafa íslendingar að mestu tekið upp löggjöf annarra ríkja þegar kemur að skipan peninga- og fjármálakerfisins. Eftirfarandi eru nokkrar ástæður fyrir því að íslendingar ættu að taka frumkvæðið í upptöku þjóðpeningakerfisins:

 1. Málið gerir kröfu til opinnar lýðræðislegrar umræðu innan og utan þings, sem er á háu stigi á Íslandi, samanborið við stór, vestræn lýðræðisríki.
 2. Hagsmunir bankakerfisins standa ekki með tilgreindum breytingum. Lobbíismi af þeirra hálfu er mun öflugri í öðrum vestrænum ríkjum en á Íslandi, sem torveldar breytingar þar.
 3. Auðveldara er að koma jafn stórri breytingu í gegnum fámennara löggjafaþing.
 4. Umbreytingaferlið er tæknilega erfiðara í tilfellum stærri hagkerfa.
 5. Mjög erfitt væri að koma þessum breytingum í gegn fyrir evruna, þar sem samþykki fulltrúa margra ríkja þarf til, þar sem fleiri mismunandi sjónarmið ráða ríkjum. Þá eru tæknileg vandamál einnig fyrirsjáanleg hvað fjölþjóðamyntir varðar.
 6. Verði gjaldeyrishöftin við lýði þegar haldið er út í breytingarnar koma þau til með að veita nauðsynlegan stöðugleika á meðan á breytingarferlinu stendur.

Ljóst er að aðrar þjóðir myndu fylgjast náið með framvindu mála í breytingarferlinu og í íslensku efnahagslífi eftir breytingarnar. Reynist þær framfaraskref má fastlega búast við að aðrar þjóðir fylgi í kjölfarið.

 

Ert þú með spurningu? Sendu okkur póst á postur@betrapeningakerfi.is