Yrði ekki hætta á verðhjöðnun undir þjóðpeningakerfi?

Verðhjöðnun hefur verið erfitt vandamál þar sem hún hefur stungið sér niður. Hættan felst í að menn haldi að sér höndum, og bíði með neyslu og fjárfestingar í von um að vörur og þjónusta verði ódýrari í framtíðinni. Þetta minnkar veltuhraða peninga og getur skapað svonefnda lausafjárgildru (e. liquidity trap).

Til þess að bregðast við hættunni er unnt að auka peningamagnið eða lækka vexti. Undir þjóðpeningakerfi verða menn í betri aðstöðu til þess að stýra breiðu peningamagni í víðum skilningi (seðlar og mynt auk innstæðna) þar sem því verður stýrt með beinum hætti af Peningamagnsnefndinni. Undir brotaforðakerfinu er aðeins grunnfé stýrt af seðlabönkum en innlánsstofnunum látið eftir að auka/margfalda peningamagn í víðari skilningi. Til marks um þetta má nefna að með magnbundinni íhlutun (Quantitative Easing 1, 2 og 3) hefur FED-ið í BNA aukið grunnfé gríðarlega. Þetta hefur hins vegar skilað sér seint og illa í breiðara peningamagni, sem skiptir höfuðmáli upp á raunhagkerfið og hættuna á verðhjöðnun.

Verðhjöðnun er afleiðing af (hjarð)hegðun fólks innan hagkerfisins sem ávallt verður hætta á. Ekkert kerfi getur komið í veg fyrir afleiðingar mannlegs eðlis. Hins vegar er unnt að stýra peningamagni með beinni hætti undir þjóðpeningakerfi en brotaforðakerfinu og er þjóðpeningakerfi því betur til þess fallið að lágmarka hættuna á verðhjöðnun.

Posted in: Þjóðpeningakerfi