Þarf sparnaður ekki að vera meiri í nýju kerfi, þar sem útlán eru ekki búin til úr engu?

Hvað varðar langtímalán, sem eru að stærstum hluta fasteignaveðlán, þá má reikna með að þau verði áfram fjármögnuð með skuldabréfaútgáfum, eins og gert er í dag með útgáfu Íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs og sértryggðra skuldabréfa skuldabréfa bankanna. Lífeyrisjóðirnir yrðu væntanlega áfram stærstu kaupendurnir af þessum bréfum og myndu þannig sjá um lengri fjármögnun einstaklinga og fyrirtækja (t.d. 25 ár+). Þannig verður ekki þörf á að almenningur eða fyrirtæki bindi fjármagn til lengri tíma til að skapa aðgengi að langtíma lánsfé, lífeyrissjóðirnir ættu að geta séð fyrir þessari fjárþörf að mestu leyti.

Það er ljóst að til þess að aðgengi að lánsfé sé sambærilegt við það sem gerist í dag þyrfti stærri hluti fjármagnseigenda að binda fé sitt í bönkunum en gengur og gerist í dag. Gera má ráð fyrir að það að óbundnir reikningar seðlabankans verði vaxtalausir myndi töluverðan hvata í þá áttina. Það er svo ekki ólíklegt að bankar myndu bjóða sparifjáreigendum hækkandi vexti með lengri binditíma. Þrátt fyrir það er ólíklegt að fólk vilji binda sparnað sinn mikið lengur en til 3 – 5 ára. En leiða má líkum að því að þótt fólk vilji hafa sparnað sinn lausan innan t.d. 3 ára þá taki ekki allir peninginn út að 3 árum liðnum. Stór hluti bindur peningana aftur í 3 ár til að fá betri ávöxtun. Svo kemur maður í manns stað. Þegar einn tekur út sparnað sinn og eyðir þá myndar það tekjur hjá öðrum sem getur þá lagt fyrir.

Ef lítið aðgengi er að stuttu lánsfé munu vextirnir hækka og fleiri verða þá tilbúnir til að lána lausafé sitt, sem heldur aftur af hækkun vaxta. Svipuð hugsun og í brotaforðakerfi nútímans, en þar sem heildarforðakerfið er byggt á mun stöðugri grunni ætti virknin í markaðslögmálum sem þessum að vera betri.

Posted in: Þjóðpeningakerfi