Hvernig búa bankar til peninga?

Bankar geta búið til nýja peninga með því að veita lán. Peningar sem bankar búa til með þeim hætti verða til í formi inneignar á hlaupareikningum. Inneignar sem hægt er að greiða með vörur, skuldir og skatta eins og um lögeyri sé að ræða.

Það er útbreiddur misskilningur að Seðlabankinn búi til alla peninga í landinu og bankar séu einfaldlega milliliðir sem taki við sparifé og veiti því til lántakenda. Hið rétta er að Seðlabankinn býr aðeins til 5% af þeim peningum sem notaðir eru í landinu (seðla og mynt), það eru bankarnir sem búa til 95% af peningum (innstæður).

Banki þarf lántakanda til að búa til innstæðu. Þegar lántakandinn skrifar upp á skuldabréf myndar það eign hjá bankanum og samtímis býr bankinn til jafn háa innstæðu á hlaupareikningi lántakans, sem er þá skuld bankans við lántakandann. Efnahagur bankans er því í jafnvægi.

Þessi innstæða á hlaupareikningi lántakans er viðbót við peningamagnið í landinu. Lántakandinn getur notað innstæðuna til að greiða fyrir kaup af seljanda. Ef seljandinn er hjá sama banka gerist millifærslan innan bankans. Ef seljandinn er hjá öðrum banka verður banki kaupandans að millifæra hluta af lausafé sínu til banka seljandans. Yfirleitt eru viðskipti í báðar áttir milli banka svipuð og lausafjárþörf banka því aðeins lítið brot af heildarmagni millifærslna.

Ef til þess kemur að banka skorti lausafé getur hann leitað til Seðlabanka sem nær undantekningalaust veitir fyrirgreiðslu.

Það er rétt að geta þess að þegar lántaki hefur safnað nægu fé inn á hlaupareikning sinn og greiðir upp lánið, þá gengur ferlið til baka og peningamagnið í landinu dregst aftur saman. Þegar bankar auka útlán sín, þá eykst peningamagn í landinu, en þegar þeir draga úr útlánum þá dregst peningamagn saman.

Posted in: Núverandi brotaforðakerfi (e. fractional reserve banking)