Hvað ef peningaígildi í umferð aukast?

Hugsanlegt er að hvatar myndist fyrir fjármálastofnanir til að skapa svonefnd peningaígildi (e. near money) til þess að halda sem stærstum hluta peningamagnsins á efnahagsreikningi sínum. Þetta yrði t.d. gert með útgáfu ávísana á fjárfestingarreikninga (Investment accounts). Ávísanirnar gætu síðan gengið kaupum og sölum í viðskiptum með vöru og þjónustu og þannig orðið ígildi peninga. Tvennt myndi virka letjandi til slíkrar starfsemi í þjóðpeningakerfi:

  • Hvorki verður til staðar innstæðutryggingakerfi eða ríkisábyrgð á slíkum peningaígildum. Fólk með slíkar eignir eiga því á hættu að tapa þeim á meðan inneignir á færslureikningum verða ávallt öruggar.
  • Ríkið viðurkennir aðeins innstæður á færslureikningum sem fullnaðagreiðslur skatta. Þannig þyrftu eigendur peningaígilda að skipta þeim reglulega í færslureikninga. Í þessu samhengi má nefna að eitt form peningaígilda, svonefndir hliðargjaldmiðlar (complementary currencies), hafa þrátt fyrir töluverðar vinsældir á mörgum stöðum aðeins náð útbreiðslu sem nemur örfáum prósentum af peningamagni viðkomandi þjóðar af þessari ástæðu.

Hugsanlegt er að ofangreindir hvatar reynist ekki nægjanlegir í umhverfi hárra vaxta. Þá væri unnt að gera færslureikningana vaxtaberandi til þess að draga úr þeim freistnivanda. Peningamagnsnefndin myndi ákvarða vextina og nýir peningar yrðu gefnir út til greiðslu þeirra. Vextirnir yrðu hóflegir og ávallt lægri en vextir sem bjóðast á fjárfestingarreikningum.

Posted in: Þjóðpeningakerfi