Væri ekki betra að fylgja fordæmi annarra þjóða, ráðist þær í breytingarnar?

Sögulega hafa íslendingar að mestu tekið upp löggjöf annarra ríkja þegar kemur að skipan peninga- og fjármálakerfisins. Eftirfarandi eru nokkrar ástæður fyrir því að íslendingar ættu að taka frumkvæðið í upptöku þjóðpeningakerfisins:

  1. Málið gerir kröfu til opinnar lýðræðislegrar umræðu innan og utan þings, sem er á háu stigi á Íslandi, samanborið við stór, vestræn lýðræðisríki.
  2. Hagsmunir bankakerfisins standa ekki með tilgreindum breytingum. Lobbíismi af þeirra hálfu er mun öflugri í öðrum vestrænum ríkjum en á Íslandi, sem torveldar breytingar þar.
  3. Auðveldara er að koma jafn stórri breytingu í gegnum fámennara löggjafaþing.
  4. Umbreytingaferlið er tæknilega erfiðara í tilfellum stærri hagkerfa.
  5. Mjög erfitt væri að koma þessum breytingum í gegn fyrir evruna, þar sem samþykki fulltrúa margra ríkja þarf til, þar sem fleiri mismunandi sjónarmið ráða ríkjum. Þá eru tæknileg vandamál einnig fyrirsjáanleg hvað fjölþjóðamyntir varðar.
  6. Verði gjaldeyrishöftin við lýði þegar haldið er út í breytingarnar koma þau til með að veita nauðsynlegan stöðugleika á meðan á breytingarferlinu stendur.

Ljóst er að aðrar þjóðir myndu fylgjast náið með framvindu mála í breytingarferlinu og í íslensku efnahagslífi eftir breytingarnar. Reynist þær framfaraskref má fastlega búast við að aðrar þjóðir fylgi í kjölfarið.

Posted in: Aðrar tillögur til úrbóta