Af hverju hentar núverandi peningakerfi ekki vel við stýringu peningamagns?

Í núverandi brotaforðakerfi er stýring peningamagns (lausar innstæður – m2) aukaafurð útlánastarfsemi viðskiptabanka. Þ.e. þegar banki veitir útlán myndast jafn hátt innlán á viðskiptareikningi skuldarans eða hjá þeim sem skuldarinn kaupir vöruna af (t.a.m. í tilfelli fasteignaviðskipta). Það er ekki meðvituð ákvörðun viðskiptabankans með veitingu útlánsins að auka peningamagn í umferð, heldur er hann aðeins að leita leiða til að afla vaxtatekna til handa lánadrottnum og hluthöfum bankans. Í þessu ljósi er ekki til staðar virk stýring á peningamagni, heldur sveiflast það með vilja bankakerfisins til útlána og raunhagkerfisins til að skuldsetja sig. Þetta sést glögglega þegar við skoðum þróun peningamagnsins undanfarin 10 ár (m2). Frá árinu 2002 til 2008 var um hraða aukningu peningamagns að ræða (sjá: http://hagtolur.sedlabanki.is/data/set/238s/#!display=line&ds=238s!2jz1=4&s=9gp). Eftirfarandi keðjuverkun var stór orsakaþáttur þróunarinnar:

  • Hækkandi fasteignaverð ýtir undir aukna útlánastarfsemi, þar sem veðhlutföll batna.
  • Auðveldara aðgengi að útlánum ýtir undir eftirspurn eftir fasteignum, sem veldur verðhækkunum. Hringurinn endurtekur sig svo.

Frá október 2008 hefur peningamagn hins vegar dregist saman. Orsakast það af öfugri keðjuverkun gagnvart því sem að ofan er líst. Þ.e. lækkandi fasteignaverð heldur aftur af útlánastarfsemi, eftirspurn og verðhækkunum fasteigna. Jafnframt er vert að benda á að almenn áhættufælni hefur þau áhrif að peningamagn dregst saman, á meðan áhættusækni þrýstir á aukið peningamagn. Þ.e. þegar ótti er við fjárfestingar og skuldsetningu en fólk og fyrirtæki vinnur almennt að því að greiða niður skuldir, dregst peningamagnið saman. Seðlabankinn gefur bankakerfinu ákveðinn ramma til peningasköpunar með bindiskyldunni, sem var lækkuð nokkuð á fyrsta áratug 20. aldarinnar. Þetta breytir hins vegar ekki ofangreindri atburðarás innan bankakerfisins.

Í ljósi ofangreinds er ljóst að innan núverandi kerfis:

  1. Getur enginn stýrt peningamagninu miðlægt, og
  2. Brotaforðakerfið er til þess fallið að magna sveiflur í peningamagni, sem er þvert á það sem æskilegt er fyrir hagkerfið.

Posted in: Núverandi brotaforðakerfi (e. fractional reserve banking)