Af hverju hefur þjóðpeningakerfi ekki verið tekið upp?

Með hliðsjón af yfirburðum þjóðpeningakerfis umfram brotaforðakerfið er eðlilegt að spurt sé hvers vegna þjóðpeningakerfi hafi ekki enn breiðst út.

Í fyrsta lagi hafa eigendur banka ríka hagsmuni af því að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi. Leyfið til að búa til peninga úr engu er rót mikils ágóða. Bankar vinna mjög skipulega að því að gæta þessara hagsmuna og hafa til þess mikið fjármagn.

Í öðru lagi hafa þeir sem vilja taka upp þjóðpeningakerfi enga fjárhagslega hagsmuni af því, enda rennur ágóði af peningaprentun til ríkisins. Fáir eru til í að leggja á sig erfiðið.

Í þriðja lagi, hafa fáir stjórnmálamenn nógu góðan skilning á peningamálum. Stjórnmálamenn fá ekki mörg atkvæði fyrir að hefja baráttu fyrir upptöku þjóðpeninakerfis en gætu mætt verulegu andstreymi frá fjármálakerfinu. Kjósendur hafa  ekki verið nægilega vel upplýstir um skaðsemi brotaforðakerfisins. Stjórnmálamenn munu ekki taka við sér fyrr en kjósendur byrja að gera kröfur um betra peningakerfi.

Að auki má nefna að það er almennt mikil tregða og ótti við breytingar. Hvaða þjóð vill vera fyrst til að afleggja brotaforðakerfið? Allir bíða eftir því að einhver annar ríði á vaðið.

Bandaríkin hafa verið uppspretta nýjunga á fjármálamarkaði en það er mjög ólíklegt að hagsmunaöfl þar í landi leyfi breytinguna baráttulaust.

Aðildarríki myntbandalags evrunnar verða að taka sameiginlega ákvörðun um að breyta yfir í þjóðpeningakerfi. Það verður að teljast ólíklegt af svipuðum ástæðum og í Bandaríkjunum.

Líklegast er að smáþjóðir með sjálfstæðan gjaldmiðil eins og Ísland verði fyrstar til að taka upp þjóðpeningakerfi, en önnur lönd fylgi svo í kjölfarið þegar reynsla er komin á kerfið.

Posted in: Þjóðpeningakerfi