Opið bréf til samráðsvettvangs um aukna hagsæld á Íslandi

Samráðsvettvangur

Kæri þátttakandi í samráðsvettvangi um aukna hagsæld á Íslandi,

Eins og fram kemur í kynningu samráðsvettvangsins þann 8. maí voru lögð fram eftirfarandi efnahagsleg markmið sem vettvangurinn taldi vera metnaðarfull en möguleg:

  1. Meðalhagvöxtur nemi 3,5% á ári fram til ársins 2030 sem samsvarar 2,6% vexti á hvern íbúa
  2. Skuldahlutfall hins opinbera verði komið niður fyrir 60% af VLF fyrir 2030
  3. Stöðugleiki náist í verðlagi og meðalverðbólga verði 2,5% til 2030

Átakið Betra peningakerfi telur breytingu á grunnatriðum peningamála geta auðveldað Íslandi umtalsvert að ná markmiðum 2 og 3. Rannsóknir á breytingunum benda raunar til að breytingarnar hafi einnig jákvæð áhrif á hagvöxt.

Hugmyndin snýr að breyttu verklagi við útgáfu nýrra peninga. Undir núverandi kerfi eru nýjar krónur að nánast öllu leyti búnar til af viðskiptabönkunum með nýjum útlánum, í gegnum svonefnt brotaforðakerfi. Þetta hefur eftirfarandi vandamál í för með sér:

  1. Skuldsetning raunhagkerfisins er hærri en ástæða er til og
  2. Hvatarnir í kerfinu valda auknum sveiflum í peningamagni og þar af leiðandi dýpri hagsveiflum og meiri óstöðugleika í efnahagslífinu

Átakið Betra peningakerfi talar fyrir breytingum er varðar þessa tilhögun á útgáfu peninga. Hópar sem tala fyrir sambærilegum hugmyndum eru starfræktir í fjölmörgum löndum, og er sá stærsti Positive Money í Bretlandi. Breytingarnar snúa að því að færa valdið til útgáfu nýrra peninga frá viðskiptabönkum til Seðlabankans, og að nýjir peningar séu ekki lánaðir í umferð, heldur settir í umferð í gegnum útgjöld ríkissjóðs. Það yrði gert með lýðræðislegum hætti, svo sem fjárlagagerð.

Hugmyndin var fyrst kynnt af Irving Fisher og fleiri hagfræðingum á 4. áratug síðustu aldar og náði meirihlutafylgi meðal hagfræðinga þess tíma. Hún nýtur nú sívaxandi fylgis, ekki síst í kjölfar rannsóknar tveggja hagfræðinga í haglíkanadeild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þeir rannsökuðu áhrif þess að peningakerfi Bandaríkjanna yrði breytt til samræmis við tillögur Irving Fisher. Niðurstöður rannsóknarinnar styðja allar fullyrðingar Irving Fisher um afleiðingar áætlunarinnar.

  1. Mun betri stjórn verður á grunnorsökum hagsveiflna, þ.e. sveiflum í framboði lánsfjármagns af hálfu bankanna og peningamagni.
  2. Engin hætta verður lengur á bankaáhlaupum.
  3. Mikill lækkun á hreinum skuldum ríkisins og annarra opinberra aðila.
  4. Veruleg lækkun skulda einkaaðila (heimila og fyrirtækja), samhliða því að aukning skulda er ekki lengur forsenda peningasköpunar.

Til viðbótar við fullyrðingar Fisher telja sérfræðingar AGS að kerfisbreytingin myndi leiða af sér 10% einskiptis hagvöxt og að unnt yrði að viðhalda verðbólgustigi nálægt 0%, án vandkvæða fyrir peningamálastefnu gjaldmiðilsins.

Séu minnstu líkur til þess að ofangreindar niðurstöður eigi við rök að styðjast þá er ljóst að eftirsóknarvert er að kanna hugmyndirnar nánar. Því miður er lítið um fræðilegar rannsóknir á hugmyndunum utan ofangreinda rannsókn. Því er rík ástæða til að hrinda af stað vinnu við að skoða þessar hugmyndir gaumgæfilega og leita við það til þeirra sem besta þekkingu hafa á málinu á alþjóðavísu. Við hvetjum samráðsvettvanginn því eindregið til þess að kynna sér málið og taka afstöðu til þess hvort kanna beri þessa leið.

Reykjavík, 16. maí 2013,
f.h. Betra peningakerfis,
Sigurvin B. Sigurjónsson,
formaður stjórnar