Ókostur brotaforðakerfisins: Háir skattar

Þegar bankar gefa út peninga í stað ríkisins eru hærri skattar eðlileg afleiðing þess fyrirkomulags. Við núverandi fyrirkomulag rennur hagnaðurinn af peningaútgáfunni til bankanna, í stað ríkisins. Ríkið nýtur ekki þessa tekna og þarf þ.a.l. að viðhafa hærri skatta eða að skuldsetja sig meira og borga þannig hærri vexti. Gert er ráð fyrir að vaxtagreiðslur Íslenska ríkisins nemi rúmum 88 mö.kr. á árinu 2013. Fyrir þetta fé mætti t.a.m. reka fimm háskóla á borð við Háskóla Íslands eða tvo Landspítala til viðbótar. Þessum vaxtagreiðslum standa skattgreiðendur undir og aukin skattbyrði er því óhjákvæmileg. Þá er sársaukafyllra að ná niður skuldsetningu ríkisins við þessar aðstæður en nauðsynlegt er.

Heildarforðakerfið gerir ríkinu auðveldara fyrir að greiða niður skuldir sínar og lækka þannig vaxtabyrðina. Þegar ríkið greiðir niður skuldir undir nýja kerfinu mun það jafnframt auka framboð fjármagns sem leitar í aðrar lánveitingar og þar með lækka vexti í hagkerfinu. Því væri samhliða stuðlað að lækkun skuldsetningar ríkisins og vaxtastigs með einni og sömu aðgerðinni. Hér er því eftir miklu að sækjast hvað varðar ríkisfjármálin og þ.a.l. fjármál okkar allra.