Lausnin

Afnema þarf heimild innlánstofnana til að búa til peninga

Lausnin á vanda núverandi peningakerfis felst í því að afnema heimild innlánsstofnana (bankar og sparisjóðir) til að búa til peninga með útlánum. Breyta þarf lögum þannig að Seðlabankinn einn hafi heimild til að búa til peninga, hvort sem peningarnir eru úr pappír, málmi eða á rafrænu formi.

Lausar innstæður verði geymdar í Seðlabanka

Lausar innstæður eða hlaupareikningar eru notaðir sem rafrænir peningar og ættu því ávallt að vera aðgengilegir innstæðuhöfum, jafnvel þótt banki fari í þrot. Lausar innstæður verði því geymdar á reikningi hjá Seðlabanka en ekki hjá einkareknum innlánsstofnunum.

Seðlabankinn mun ekki greiða vexti af lausum innstæðum. Þær eru einfaldlega rafkrónur í geymslu hjá Seðlabanka og bera því ekki vexti frekar en seðlar og mynt í bankahólfi.

Innlánsstofnanir ávaxta áfram innlán

Bankar og sparisjóðir munu sinna sama hlutverki í greiðslumiðlun peninga og þeir gera varðandi óbundin innlán í dag. Til þess að fá ávöxtun á peninga sína eiga fjármagnseigendur þann kost að veita innlánsstofnunum peningana að láni. Innlánin geta verið óbundin eða bundin og endurlánuð sem útlán. Innlánsreikningarnir geta verið uppsegjanlegir með ákveðnum fyrirvara eða lausir eftir fyrirfram ákveðinn tíma. Boðnir yrðu hærri vextir eftir því sem innlán eru bundin til lengri tíma.

Innlánsstofnanir munu áfram geta stundað svonefnda tímaumbreytingu (e. Maturity transformation) á fjármagni með því að fá lánað stutt eða óbundin innlán og lána út til lengri tíma. Til þess að lágmarka hættuna á lausafjárskorti munu þeir fylgja lögbundnum skilyrðum um laust fé auk þess að stunda ábyrga fjárstýringu sem virkt eftirlit yrði með.

Bankar munu því áfram gegna því mikilvæga hlutverki að taka við sparnaði og veita útlán. En þeir munu ekki hafa heimild til að búa til nýja peninga með lánastarfsemi líkt og nú.

Umskipti í nýtt peningakerfi

Þeir peningar (óbundin innlán) sem innlánsstofnanir hafa þegar búið til yrðu áfram í umferð, en færðir á reikning Seðlabankans við umskiptin.

Öll laus innlán verða þannig færð af skuldahlið innlánstofnana yfir á skuldahlið Seðlabankans. Samhliða mun Seðlabankinn eignast jafn háa kröfu á innlánsstofnanirnar. Þannig eru efnahagsreikningar banka og Seðlabanka áfram í jafnvægi.

Seðlabankinn fær kröfur sína á innlánsstofnanir greiddar jafn óðum og þær ná að innheimta þau útlánasöfn sem stóðu á móti innstæðunum. Tíminn sem þetta tekur veltur á innlánamagni og hvernig endurgreiðslum útlána bankanna er háttað, en þetta gæti tekið um 5-7 ár.

Innlánsstofnanir munu því hafa nokkur ár til að aðlaga rekstur sinn að hinu nýju fyrirkomulagi og lækkandi tekjum af útgáfu rafpeninga.

Seðlabankinn mun ákveða peningamagn í umferð

Sett yrði á fót peningamagnsnefnd sem myndi starfa óháð framkvæmdavaldinu. Hlutverk nefndarinnar væri að meta reglulega hvort þörf væri á að auka peningamagn í samræmi við hagvöxt eða önnur þjóðhagsleg viðmið. Markmið peningamagnsnefndar yrði að stuðla að stöðugleika út frá þjóðhagslegum markmiðum.

Ríkisstjórnir ákveða í hvað nýir peningar fara

Hafi peningamagnsnefnd ákveðið að auka peningamagn, er nýju peningunum komið í umferð með því að leggja þá inn á reikning ríkissjóðs hjá Seðlabanka.

Það færi svo eftir stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma hvort nýjum peningum yrði varið til að greiða niður ríkisskuldir, til lækkunar á sköttum eða til að auka ríkisútgjöld. Nýju fé er því komið í umferð með lýðræðislegum hætti og yrði aðeins varið í samræmi við gildandi fjárlög.

Kynntu þér ávinninginn af þessum breytingum og svör við algengum spurningum.