Í tilefni af gagnrýni

LjósaperaÍ kjölfar skýrslu Frosta Sigurjónssonar um peningakerfið hefur myndast nokkur umræða um hana og efni hennar. Ánægjulegt er að sjá hversu margir hafa tekið skýrslunni opnum örmum og hvetja til frekari umræðu. Má þar t.a.m. nefna Magnús Halldórsson, Hannes Hólmstein Gissurarson, Max Ehrenfreund hjá Washington Post og Zerohedge. Nauðsynlegt er þó að umræðan byggist á réttum upplýsingum og að gagnrýni á hugmyndirnar sé svarað. Í því ljósi er eftirfarandi athugasemdum komið á framfæri varðandi gagnrýni á efnisatriði skýrslunnar. Með þessu viljum við hvetja alla til þess að kynna sér efni hugmyndanna og að halda uppi upplýstri umræðu byggt á staðreyndum.

Ásgeir Jónsson

Tilvitnun:
Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 lét Ásgeir Jónsson, lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands, hafa eftir sér að við upptöku þjóðpeningakerfis „fer greiðsluþjónustan í rauninni frá bönkunum.

Athugasemd:
Hið rétta er að undir þjóðpeningakerfinu verða peningar aðgengilegir heimilum og fyrirtækjum í gegnum viðskiptabanka með sama hætti og í dag. Fjallað er um málið í kafla 7.2.1. um færslureikninga og hvernig þeir eru notaðir í viðskiptum í kafla 7.3.1. Meira gegnsæi felst í þjóðpeningakerfi þar sem bankarnir myndu innheimta þóknun fyrir greiðsluþjónustuna, en sá kostnaður er falinn í vaxtamun bankanna í brotaforðakerfinu.

Tilvitnun:
Í sama viðtali svaraði Ásgeir jákvætt spurningu fréttamanns þess efnis að „…þannig að öll viðskiptabankastarfsemi, veiting yfirdráttar, útlána og svo framvegis fer frá viðskiptabönkunum til seðlabankans?

Athugasemd:
Þetta er í mótsögn við kafla 7.3 skýrslunnar, þar sem lýst er hvernig lánastarfsemi bankanna fer fram undir þjóðpeningakerfi. En hún mun fara fram með sambærilegum hætti og fjölmörg lánafyrirtæki stunda í dag, þar sem gengið er frá fjármögnun áður en lánveiting er veitt.

Tilvitnun:
Í rammagrein í Viðskiptablaðinu þann 1. apríl kemur fram í viðtali við Ásgeir að „Í stuttu máli sagt yrði bönkum bannað að stunda tímaumbreytingu með upptöku þjóðpeningakerfis.

Athugasemd:
Þjóðpeningakerfið mun ekki fela í sér bann við tímaumbreytingu, eins og fjallað er um í köflum 7.3.4 og 9.5.1.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, setti fram gagnrýni í grein sinni á Pressunni.

Tilvitnun:
„Hugmyndir hans eru að verulegu leyti kenning sem hafnað var fyrir um átta áratugum.“

Athugasemd:
Fyrst ber að benda á að ekki er um hugmyndir Frosta að ræða, heldur tekur hann upp hugmyndir sem hafa verið útfærðar af Positive Money. Hér er Jón eflaust að vísa til Chicago-áætlunarinnar sem Irving Fisher var ötull talsmaður fyrir á fjórða áratugnum. Þar ber tvennt að hafa í huga:

  • Þó þjóðpeningakerfi snúist um að færa vald til peningaútgáfu frá bönkunum til ríkisins er það í grundvallaratriðum frábrugðið Chicago-áætluninni eins og Andrew Jackson hefur t.a.m. tekið saman. Chicago-áætlunin gengur út á að bankar eigi innstæður í seðlabanka að fullu á móti innlánum en í þjóðpeningakerfi eru peningarnir á efnahagsreikningi seðlabanka, sem færslureikningar, sbr. kafla 7.2.1 en ekki skuld á efnahagsreikningum bankanna, líkt og í núverandi kerfi.
  • Chicago áætluninni var ekki hafnað með skýrum málefnalegum rökum eins og prófessor Ronnie J. Philips fer ítarlega yfir í ritgerð sinni, „The ‘Chicago Plan’ and New Deal Banking Reform“. Niðurstaða hans er að Chicago-áætluninni hafi ekki verið hafnað á grundvelli hugmyndafræði, heldur vegna pólitískrar tækifærismennsku. Mikilvægt er að tryggja að það endurtaki sig ekki nú:
    • „The Chicago plan for radical banking was well known at the highest levels of government during the period 1933-35 and, though the plan called for radical changes’, the early New Deal probably offered the best chance for radical reforms to be undertaken. The question is thus why did the Chicago plan lose out?
      The answer, on one level, should be of no surprise: it lost as a matter of pure political expediency. It is important to note that it did not lose because the principles of the plan were rejected. In fact, the banking legislation passed during the period moved in part toward the Chicago plan reforms. Tugwell though that radical reform seemed like such a remote possibility, that Roosevelt abandoned any such attempts and opted for “simple restoration of a system people understood under conditions which would assure them of future safety” [Tugwell 1957: 2641.“

Tilvitnun:
„Af skýrslunni má álykta að ekki verði ráðist í slíka umbreytingu [innsk: upptöku þjóðpeningakerfis] í einu landi út af fyrir sig,…“

Athugasemd:
Jón rökstyður ekki þessa fullyrðingu, en kerfisbreytingin mun ekki hafa áhrif á milliríkjaviðskipti og ekki verður séð að hún feli í sér brot á ákvæðum EES samningsins, breytingarnar fela í sér þrengri skorður á bankana en í evrópska regluverkinu. Fjallað er um kerfisbreytingarnar í alþjóðlegu samhengi í kafla 9.5.8.

Tilvitnun:
„Í fyrsta lagi er þetta nýja kerfi miklu þyngra og flóknara en aðgerðir sem þegar eru hluti af núverandi tilhögun. Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands hafa tæki og umboð til að :
– ákveða hærri eiginfjárhlutföll banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða hærri lausafjárhlutföll banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða breytingar á reglum um gjaldeyrisjöfnuð banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða reglusetningu um tímafylgni innstæðna og útlána banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða reglusetningu um sérhæfingu banka og aðgreiningu í verkssviðum.
Ekki verður séð annað en slíkar aðgerðir muni ná sama árangri og Frosti vill stefna að – en með miklu minni tilkostnaði, fyrirhöfn og töf.“

Athugasemd:
Ekkert þeirra tækja og umboða sem Jón tilgreinir tekur á þeim atriðum sem breytingarnar snúa að, þ.e. að bankarnir hafi umboð til að skapa peninga með því að lána þá í umferð. Heldur taka þessir liðir á getu þeirra til peningasköpunar, sem hefur verið með takmörkuðum árangri eins og rakið er ítarlega í bók New Economics Foundation, Where Does Money Come From? og í umfjöllun Bank of England um peningasköpun frá 2014.

Tilvitnun:
„Í öðru lagi er óljóst hvernig nýtt þjóðpeningakerfi fellur að viðskiptalífi sem einkennist mest af kortagreiðslum og rafeyri.“

Athugasemd:
Eina breytingin sem breytingarnar fela í sér fyrir viðskiptalífið felst í að rafrænir peningar, sem í dag eru í formi innlána bankanna, verða í formi rafrænna peninga í útgáfu seðlabankans. Sjá nánar kafla 7.3.
Tilvitnun:
„Erfitt er að hugsa sér hvernig viðbrögð kerfisins eiga að geta mætt daglegum öldugangi í viðskiptum nú orðið, einkum ef allar ákvarðanir verða miðlægar í Seðlabankanum og tengdar pólitískum stjórnvöldum, eins og Frosti virðist gera ráð fyrir.“

Athugasemd:
Einu ákvarðanirnar sem fara fram innan seðlabankans, samkvæmt skýrslunni, snúa að aukningu peningamagns. Öll viðskipti á mörkuðum með vörur og þjónustu verða með sama hætti og nú er.

Tilvitnun:
“Í þriðja lagi verður að telja þetta miðlæga þjóðpeningakerfi þungt í vöfum og ósveigjanlegt. Erfitt er að geta sér til um lipurð þess til að bregðast við nýsköpun í atvinnulífi, tilraunastarfsemi sem felur áhættu í sér, eða hvernig það bregst við eftirspurn atvinnulífsins eftir auknu vinnumagni og þar af leiðandi hækkandi tilkostnaði. Í frjálsu athafnalífi eru slíkar ákvarðanir ófyrirsjáanlegar og algerlega ófært að setja þær undir skriffinnsku.”

Athugasemd:
Hér virðist Jón vera að hugsa til fjármögnunar tiltekinna aðila viðskiptalífsins. Fjölmargir sjóðir og stofnanir eru starfræktar í dag sem styðja við nýsköpun í atvinnulífi og áhættutöku. Kerfisbreytingarnar fela ekki í sér breytingar varðandi þjónustu við þá aðila sem Jón nefnir. Hvað kostnað varðar þá, þvert á það sem Jón segir, sparast vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja í landinu sem við teljum vera að lágmarki 80 þ.kr. á hvern vinnandi einstakling. Þá verður ekki séð hvernig skriffinnska ætti að aukast við breytingarnar, fyrir utan fundargerðir peningamagnsnefndarinnar til að tryggja gegnsæi.

Tilvitnun:
“Í fjórða lagi virðist slíkt miðlægt kerfi fela í sér ýmsa nýja kostnaðarþætti, þó ekki væri nema miðlæg gagnaöflun og úrvinnsla. Flest bendir því til að það valdi vaxtahækkun frekar en vaxtalækkun. Þetta verður þá ekki heldur til að styrkja gengi gjaldmiðilsins, jafnvel þótt stöðugleiki náist.
Í fimmta lagi felst það í hugmyndunum að allar ákvarðanir – dag frá degi og yfir daginn – verði teknar miðlægt í Seðlabankanum og pólitísk stjórnvöld eigi þar hlut að máli. – Trúir því nokkur maður að þá aukist viðbragðshraði, viðnám, festa og stöðugleiki? Trúa menn því að þá verði teknar ákvarðanir sem aðeins miðast við hagræn sjónarmið? Trúa menn því virkilega að þá verði hugsað til langs tíma í ráðstöfunum og staðið gegn skyndikröfum hagsmunaaðila?”

Athugasemd:
Ákvarðanir við lánveitingar verða áfram alfarið á höndum bankanna og annarra fjármálafyrirtækja. Því eru ofangreindar áhyggjur Jóns ástæðulausar.

Max Ehrenfreund hjá Washington Post

Þó Max taki undir mörg sjónarmið hugmyndanna er að finna nokkra gagnrýni í grein hans

Tilvitnun: 
“Central bankers can make mistakes just as easily as private bankers can. They might be reluctant to deflate bubbles if things seem to be going well outwardly, and they might respond too slowly in a crisis. Of course, these are problems with the existing banking system as well, but they’d be exaggerated under sovereign money.”

Athugasemd:
Ávallt verður hætta á mistökum þegar maðurinn kemur að ákvörðunum sem þessum. Hér er hins vegar mikilvægt að horfa á hvata þeirra sem taka ákvarðanirnar. Hvort er líklegra að stöðugleika verði viðhaldið þegar peningamagni er stýrt af:

  • Hópi manna með stöðugleika að markmiði, sem hafa aðeins hagsmuni af stöðugleika, eða
  • Hópi manna innan bankanna með hámörkun hagnaðar umbjóðenda sinna að markmiði, líkt og í núverandi kerfi?

Tilvitnun:
Eftirfarandi er haft eftir Ted Truman, fyrrverandi hagfræðingi Bandaríska seðlabankans:

“You essentially don’t have a banking system. You would have, actually, an almost Soviet-style banking system,” og “It’s a monobank, in the terms of Russia, the former Soviet Union.”

Athugasemd:
Vinsælt er að líkja hugmyndunum um þjóðpeningakerfi við gamla Sovétkerfið. Hins vegar stenst samanburðurinn ekki skoðun, eins og við höfum áður rakið.

Tilvitnun:
Í sömu grein er haft eftir Truman: “It’s not that the central bank couldn’t control the expansion of credit. It’s that they didn’t control the expansion of credit.”

Athugasemd:
Virkni stýritækja seðlabankans er mjög umdeild og færir Frosti rök fyrir því að viðskiptabankarnir stýri í reynd peningamagninu í kafla 5.3. Í þessu samhengi má einnig benda á umfjöllun Ólafs Margeirssonar um áhrifaleysi bindiskyldunnar. Þá ber þróun útlána innlánsstofnana í aðdraganda hrunsins á sama tíma og seðlabankinn varaði ítrekað við henni er ljóst að áhrif bankans eru minni en margir telja.

f.h. Betra peningakerfis,
Sigurvin Bárður Sigurjónsson