Hagsmunir hins vinnandi manns

krofuganga-klipptÍ tilefni dagsins er ekki úr vegi að fara yfir hagsmunina felast í peningakerfinu fyrir hinn vinnandi mann.

Miðað við núverandi vaxtamun bankanna (3,5%) og lausar innstæður upp á 900 ma.kr. eru hreinar vaxtatekjur bankanna vegna útgáfu lausra innstæðna (peninga) um 31,5 ma.kr. Þetta er varfærið mat, enda bera innstæður umtalsvert lægri vexti en aðrar skuldir bankanna og vaxtamunur af peningaútgáfunni er því meiri.

Greiðendur þessara umframvaxtatekna eru heimili, fyrirtæki og opinberir aðilar. Við nánari skoðum kemur hins vegar í ljós að fyrirtæki og opinberir aðilar velta vaxtagjöldum sínum út í verð vöru og þjónustu, útsvarshlutföll, gjaldskrár, o.s.frv. Á endanum er það því hinn vinnandi maður sem greiðir vaxtatekjur bankanna vegna peningamagnsins að fullu, annað hvort í gegnum vaxtagreiðslur af eigin lánum eða hærra verðlag og aukna skattbyrði.

Í landinu eru 176.200 manns starfandi, skv. Hagstofu Íslands. Að ofangreindu ber hver starfandi einstaklingur því aukna byrði vegna peningaútgáfu bankanna upp á 179 þ.kr. árlega (15 þ.kr. mánaðarlega), m.v. núverandi aðstæður. Á hverja 4 manna fjölskyldu, þar sem báðir eru vinnandi eru þetta 358 þ.kr. árlega (30 þ.kr. mánaðarlega). Af hverju skyldum við greiða bönkunum slíka fjárhæð árlega fyrir það eitt að gefa út gjaldmiðilinn okkar?

En það kemur fleira til. Peningakerfið breikkar bilið milli ríkra og fátækra á hverjum degi í gegnum vaxtagreiðslur frá skuldurum til bankanna, eins og Positive Money hefur tekið svo vel saman (sjá einnig íslenskan texta).

Af hverju skyldum við sætta okkur við þetta fyrirkomulag? Af hverju látum við ekki hið opinbera sjá um útgáfu gjaldmiðilsins í þágu okkar allra með gegnsæjum hætti? Sem betur fer er brotaforðakerfið ekki meitlað í stein eða stjórnarskrá. Við búum í lýðræðisríki og getum breytt þessu með lagasetningu.

Um leið og ég óska launafólki um land allt til hamingju með daginn vona ég að okkur beri gæfa til að breyta rétt í framtíðinni.

f.h. Betra peningakerfis,

Sigurvin B. Sigurjónsson