Forréttindi á lánamörkuðum

VB_logoEftirfarandi grein um einkarétt til peningasköpunar og áhrif á peningamagn, verðbólgu og gengi krónunnar, birtist í Viðskiptablaðinu í dag, 7. ágúst 2014.

Forréttindi á lánamörkuðum

Nýlega jukum ég og viðskiptabankinn minn peningamagn í umferð um 17 milljónir króna. Þessi aðgerð mun fyrirsjáanlega hafa áhrif á peningamagn, verðbólgu og gengi krónunnar, þó lítil séu. Hún kristallar einnig lögbundið samkeppnisforskot innlánsstofnana á lífeyrissjóði og önnur fjármálafyrirtæki á fjármálamörkuðum.

Ég vildi endurfjármagna verðtryggt lán hjá lífeyrissjóði með óverðtryggðu láni. Þar sem aðeins viðskiptabankarnir veita óverðtryggð lán leitaði ég til þeirra. Þegar endurfjármögnun sem þessi fer fram gefur bankinn út nýja peninga í formi innlána til uppgreiðslu lífeyrissjóðslánsins og því eykst peningamagn í umferð. Þetta orsakast af því að bankinn er innlánsstofnun, en einungis innlánsstofnanir hafa þennan rétt til þess að búa til innlán samhliða lánveitingum á meðan aðrir aðilar á lánamörkuðum fjármagna sín útlán fyrirfram.

Við lánveitinguna stækkar efnahagsreikningur bankans sem nemur höfuðstól lánsins. Bankinn fær vaxtamun af láninu og hagnaðurinn eykst til framtíðar. Lífeyrissjóðurinn þarf hins vegar að finna fjárfestingarkosti fyrir nýju peningana eftir endurfjármögnunina og það verður erfiðara fyrir hann að ná settu ávöxtunarviðmiði.

Nýju peningarnir leita því inn á verðbréfamarkaðina og auðvelda fyrirtækjum og opinberum aðilum fjármögnun sína. Í kjölfarið eru þeir svo m.a. nýttir í fjárfestingar eða útgjöld viðkomandi aðila. Nýju peningarnir leita ávallt á endanum út í raunhagkerfið eins og vatnið til sjávar. Áhrifin eru því fyrst í formi hækkandi eignaverð á verðbréfamörkuðum og þegar peningarnir ná inn í raunhagkerfið fylgir verðbólga. Vegna lögmálsins um kaupmáttarjafnvægi (Purchase Power Parity – PPP) myndast í kjölfarið þrýstingur til veikingar krónunnar, þó áhrifin séu hverfandi til skemmri tíma í núverandi haftaumhverfi.

Lítil ástæða er til að hafa áhyggjur af gengisfalli vegna lántöku minnar, enda er hún mjög lítil í hlutfalli við peningamagnið. Líkt og að hella sentilíter af vatni í baðkar. En eins og við Íslendingar þekkjum vel hafa lánveitingar bankanna tilhneigingu til að ganga í sveiflum. Það er því eðlilegt að velta fyrir sér hversu mikinn þátt peningasköpun hefur átt í falli krónunnar í gegnum tíðina? Ef sveiflur í peningamagni og gengi krónunnar eru skoðaðar yfir áratugina þá hefur fylgnin verið mjög sterk:

Peningamagn_verdbolga_gengi kronuAð ofangreindu hljótum við því að spyrja:

  • Hvers vegna ættu lánveitingar einkaaðila að hafa áhrif á peningamagn?
  • Hvers vegna ættu lánveitingar eins aðila að hafa áhrif á peningamagn en ekki annars?
  • Af hverju skyldu bankarnir hafa samkeppnisforskot á önnur fjármálafyrirtæki í formi peningasköpunar sem fjármögnunarform?
  • Hvernig er unnt að stýra peningamagninu betur og minnka þannig hættuna á falli krónunnar í framtíðinni?

Hér hefur verið tæpt á einum galla peningakerfisins, en því miður eru þeir mun fleiri, eins og fjallað er um á heimasíðu átaksins Betra peningakerfi, https://betrapeningakerfi.is/.

Sigurvin Bárður Sigurjónsson

Formaður átaksins Betra peningakerfi og sérfræðingur á ráðgjafarsviði KPMG. Skoðanir í greininni eru settar fram á ábyrgð höfundar.