Er þjóðpeningakerfið af sovéskum uppruna?

USSR_FlagGagnrýnendum hefur tíðrætt um að þjóðpeningakerfið sé ígildi upptöku bankakerfis að fyrirmynd Sovétríkjanna. Við skulum því skoða hvernig Sovétríkin háttuðu sínu bankakerfi og bera saman við þjóðpeningakerfið.

Í áætlanabúskap Sovétríkjanna voru gerðar fimm ára áætlanir, þar sem ríkisvaldið stýrði framboði á vöru og þjónustu til þess að mæta eftirspurn. Sovéska bankakerfið var hluti af áætlanabúskapinum, þar sem því var ætlað að framfylgja fimm ára áætlunum ríkisstjórnarinnar. Alla greiðslur á milli lögaðila þurftu að vera samþykktar af ríkisbankanum, Gosbank. En hann var eini banki Sovétríkjanna frá 1930 til 1987. Lánveitingar bankans ultu fremur á hversu hliðhollir lántakendurnir voru stjórnvöldum fremur en greiðsluhæfi þeirra. Því var um mjög miðstýrt kerfi að ræða, þar sem lánveitingar réðust ekki af markaðssjónarmiðum.

Upptaka þjóðpeningakerfisins mun ekki færa efnahags- eða bankakerfið nær ofangreindum eiginleikum sovéska kerfisins eða áætlunarbúskap. Frelsi til að stofna og reka banka og fjármálastofnana verður óbreytt við upptöku þjóðpeningakerfisins. Bankar verða starfræktir með sama hætti, utan þess að þeir munu ekki geta búið til nýja peninga með lánveitingum sínum. Þeir munu áfram sinna sínu mikilvæga hlutverki sem milliliðir á milli sparifjáreigenda og lántakenda.

Vissulega má færa rök fyrir því að færsla ákvörðunarvaldsins til útgáfu nýrra peninga frá viðskiptabönkum til peningamagnsnefndarinnar sé skref í átt til miðstýringar. En hér ber að hafa í huga að peningamagnsnefndin hefur ekki vald til úthlutunar nýrra peninga og er þetta vald því verðlítið m.v. tillögur Betra peningakerfis. Í brotaforðakerfinu í dag er ákvörðunarvaldið og úthlutunarvaldið á sömu hendi bankanna. Því er í raun verið að skipta upp peningavaldinu með upptöku þjóðpeningakerfisins og í raun verður erfiðara að misbeita því en við núverandi brotaforðakerfi.

Þá er mikilvægt að hafa í huga að á bak við öll innlán til íslenskra banka stendur trygging ríkissjóðs. Það mun seint teljast kapítalískt fyrirkomulag að einkafyrirtæki njóti slíkra forréttinda að meirihluti fjármögnunar sé ríkistryggð. Undir þjóðpeningakerfinu verður þessi trygging óþörf og verulegir fjármunir sparast samhliða aflögn innstæðutryggingakerfisins.

Að ofangreindu er vandséð hvað átt er við með samlíkingu þjóðpeningakerfisins við sovéskt fyrirkomulag.