Peningakerfi Bitcoin

BitcoinÁ liðnu ári komst hinn nýji gjaldmiðill, Bitcoin, töluvert í umræðuna og skutu m.a. hugmyndir upp kollinum þess efnis að Ísland skyldi taka upp Bitcoin í stað krónu. Eins og aðrir gjaldmiðlar hefur Bitcoin eigið peningakerfi. Þ.e. hvernig gjaldmiðillinn er gefinn út, settur í umferð og tekinn úr umferð. Hér verður farið yfir nokkra af helstu kostum og göllum peningakerfis Bitcoin, samanborið við núverandi brotaforðakerfi (e. fractional reserve banking).

Kostir:

 • Á tíu mínútna fresti er fyrirfram ákveðinn fjöldi nýrra bitcoina afhentir svonefndum námamönnum (e. miner) fyrir það að leysa ákveðna dulmálsþraut. Bitcoin er því ekki gefin út sem skuldbinding gegn vöxtum og þar af leiðandi greiða notendur gjaldmiðilsins ekki leigu af peningamagninu til framtíðar. Af þessum sökum veldur Bitcoin peningakerfið ekki ójöfnuði, yfirskuldsetningu, óstöðugleika fjármálakerfisins auk þess sem ekki verður þörf á innstæðutryggingum eða ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum, líkt og í brotaforðakerfinu.
 • Peningamagni Bitcoin er ekki stýrt af aðilum með aðra hagsmuni að markmiði en stöðugleika, líkt og í brotaforðakerfinu, þar sem peningamagn stýrist af lánveitingum bankanna. Þetta felur í sér meiri stöðugleika undir peningakerfi Bitcoin en undir brotaforðakerfinu. Hins vegar er spákaupmennska með Bitcoin mikil, sem veldur meiri sveiflum á gengi gjaldmiðilsins en öðrum gjaldmiðlum.
 • Bitcoin hefur nokkra áhugaverða tæknilega kosti/eiginleika og má þar helst nefna:
  • Mjög einfalt er að millifæra Bitcoin og þarf ekki banka til þess að vera milliliður.
  • Bitcoin gengur út frá nafnleynd, þar sem hvorki er unnt að rekja millifærslur eða eignir til einstaklinga eða lögaðila. Þetta getur verið bæði kostur og galli og hefur valdið því að svarti markaðurinn og ólöglegur iðnaður hefur leitað mjög í Bitcoin, eins og kom í ljós þegar vefsíðunni Silk Road var lokað. Hvað þetta varðar skal hafa í huga að nafnleyndin hefur nýlega verið dregin í efa.
  • Millifærslur taka nánast engan tíma, sama hvar sendandi og viðtakandi eru staddir í heiminum.
  • Utanumhald á Bitcoin kerfinu er ekki miðlægt heldur dreift á höndum svonefndra námamanna. Með þessu móti er stoðum kerfisins fjölgað og hættan á kerfishruni lágmörkuð.
  • Unnt er að brjóta Bitcoin niður í eins smáar einingar og þörf er á.
Tapað/fundið: 4m GBP

Tapað/fundið: 4m GBP

Gallar:

 • Vöxtur peningamagns Bitcoin er fyrirfram ákveðinn og nær hámarki í tæplega 21 milljón bitcoins. Fastur vöxtur peningamagns var viðhafður af seðlabanka BNA í kringum 1980, undir stjórn Paul Volcker, í samræmi við kenningar Miltons Friedman. Með þessu tókst að koma stöðugleika á verðlag, en hins vegar hækkaði vaxtastig verulega. Seðlabankar hafa síðan horfið frá hugmyndum um fastan vöxt peningamagns og því er þetta einkenni skilgreint sem galli hér.
 • Það að setja ný bitcoin í umferð til þeirra sem ná að leysa ákveðna dulmálsþraut á tíu mínútna fresti felur ekki í sér verðmætasköpun fyrir hagkerfið. Þetta leiðir af sér að kerfið laðar þekkingu og mannauð frá verðmætasköpun í samkeppni um ný bitcoins. Undir brotaforðakerfinu fer nýtt fjármagn hins vegar í framkvæmdir og neyslu og styður þannig við hagkerfið.
 • Ekki er unnt að greiða skatta með Bitcoin þar sem hann er hliðargjaldmiðill (e. complementary currency). Hliðargjaldmiðlar hafa margir náð umtalsverðri útbreiðslu, en sú kvöð að nauðsynlegt er að skipta þeim í lögeyri til þess að standa skil á sköttum er hindrandi fyrir útbreyðslu þeirra. Sá hliðargjaldmiðill sem hefur notið einna mestra vinsælda í einstöku landi er WIR í Sviss og er andvirði allra WIR-eininga 3 milljarðar svissneskra franka, samanborið við peningamagn upp á 874 milljarða franka (M2). Hliðargjaldmiðlar sem notaðir eru á Íslandi eru t.d. flugpunktar sem oft má nýta í annað en greiðslu flugfargjalda og inneignir hjá Viðskiptanetinu, þar sem viðskipti eru stunduð án þess að íslenska krónan komi við sögu.
 • Umtalsverð hætta er á að peningar glatist í peningakerfi Bitcoin. Eigendur Bitcoin geyma peningana í Veskjum (e. Wallet) á netinu eða á hörðum disk á eigin tölvu. Þá er unnt að kaupa vörsluþjónustu af sérhæfðum aðilum á netinu. Báðir kostirnir fela hins vegar í sér umtalsverða hættu fyrir eigandann. Dæmi eru um að fólk hafi tapað jafnvirði hundruð milljóna með því að týna hörðum diskum þar sem Bitcoin er vistað. Þannig eru jafnvirði 800 milljóna króna að finna á hörðum diski í landfyllingu í Docksway í Wales. Þá eru dæmi þess að þjónustuaðilar Bitcoin á netinu hafi tapað sambærilegum fjárhæðum fyrir viðskiptavini sína og borið við öryggisbrotum á vefsíðum sínum. Í báðum tilfellum eru eigendurnir varnarlitlir, þar sem öryggisþáttum og eftirliti er ábótavant.

Af ofangreindu er ljóst að peningakerfi Bitcoin hefur áhugaverða kosti umfram brotaforðakerfið og möguleika á að ná mikilli útbreiðslu. Gallarnir eru hins vegar einnig umtalsverðir og munu vinna á móti útbreiðslunni. Það að Bitcoin er ekki lögeyrir í neinu þjóðríki er þröskuldur sem allir hliðargjaldmiðlar hafa glímt við og líklegt er að svo verði áfram. Mikil gerjun er hins vegar í heimi rafrænna hliðargjaldmiðla þar sem unnið er að því að lagfæra galla Bitcoin. Verður því fróðlegt að fylgjast með framvindunni næstu misserin.

Tekjur bankanna 1H 2013 af peningaútgáfu

Bankarnir og Landspitali

Það er ólíku saman að jafna fjárhagslegri aðstöðu íslensku bankanna og ríkisstofnana.

Bankarnir og aðrar innlánsstofnanir hafa á hverju ári tekjur af óbundnum innlánum, sem við notum dags daglega sem peninga. Tekjurnar eru í formi vaxtamunar á milli út- og innlána, en þau verða til við margföldun peningamagnsins, samhliða veitingu nýrra útlána undir svonefndu brotaforðakerfi (e. fractional reserve banking). En hversu miklar eru þessar tekjur? Til þess að svara þessari spurningu gerðum við eftirfarandi greiningu á árshlutareikningum Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka á fyrri árshelmingi 2013.

Óbundin innlán voru 37% af vaxtaberandi eignum bankanna þann 30. júní 2013. Til þess að áætla tekjur bankanna af óbundnum innlánum voru hreinar vaxtatekjur hvers banka hlutfallaðar niður með hlutfalli óbundinna innlána af vaxtaberandi eignum viðkomandi banka. Miðað við þessar forsendur voru hreinar vaxtatekjur bankanna af óbundnum innlánum 16,7 ma.kr. á fyrri helmingi ársins 2013, sbr. neðangreinda töflu.

Vaxtamunur 1H 2013

Smelltu á töfluna til að stækka.

Rétt er að geta þess að hér er um nálgun að ræða. Nákvæmari útleiðsla fæli í sér að horfa á vaxtakostnað innlána sérstaklega og einangra vaxtatekjur tilsvarandi útlána til þess að leiða út vaxtamun peningaútgáfunnar. Upplýsingar úr árshlutareikningum nægja aftur á móti ekki til þess að byggja upp svo djúpa greiningu. Byggt á ofangreindri greiningu getum við þó áætlað að hreinar vaxtatekjur innlána hafi legið á bilinu 15-20 ma.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2013. Vaxtatekjur bankanna þriggja af útgáfu íslensku krónunnar gætu því að óbreyttu numið á bilinu 30 til 40 ma.kr. á árinu 2013.

Ef við setjum þessar fjárhæðir í samhengi við fjárlög íslenska ríkisins kemur í ljós að búast má við að hreinar vaxtatekjur vegna óbundinna innlána verði 80 – 100% af rekstri Landspítala og mun hærri en málaflokkarnir samgöngumál og löggæsla og öryggismál.

 

Vaxtatekjur í samanburði við fjárlög

Smelltu á myndina til að stækka

Við erum í raun að leigja peningamagnið af bönkunum fyrir tugi milljarða króna á ári að óþörfu. En hvað fáum við í staðin? Vaxtatekjur bankanna fara vissulega að hluta aftur út í samfélagið í formi launa starfsmanna, annarra rekstrargjalda og skatta. En er réttlætanlegt að einkaaðilar séu í sterkari samkeppnisstöðu um hæft vinnuafl í krafti einkaréttar til peningaútgáfu? Væri ekki eðlilegra að fyrirtæki í samkeppni um vinnuafl stæðu jafnfætis hvað þetta varðar?

Það er kominn tími á að leita leiða til þess að hætta þeirri meðgjöf sem við veitum bönkunum með brotaforðakerfinu. Væri ekki eðlilegt að starfsemi þeirra snerist aðeins um fjármálaþjónustu og að vera tengiliður á milli fjármagnseigenda og lántakenda, í stað þess að sinna peningaprentun með tilheyrandi vandamálum?

Sigurvin B. Sigurjónsson, talsmaður Betra peningakerfis

Bréf til hagræðingarhóps

Guðmundur Ásgeirsson kerfisfræðingur hefur sent eftirfarandi bréf til Hagræðingarhóps um ríkisfjármál.
Góðan dag.Mig langar að koma eftirfarandi ábendingu á framfæri við hagræðingarhóp um ríkisfjármál.

Þar sem stærsti einstaki útgjaldaliðurinn á fjárlögum eru vaxtagreiðslur, til að mynda voru þær tæpir 78 milljarðar á fjárlögum 2012 eða 14,3% af útgjöldum ríkissjóðs, hlýtur að koma til athugunar hvort stærsta einstaka hugsanlega hagræðingaraðgerðin gæti ef til vill falist í því að lækka vaxtagjöld ríkisins. Helst ætti ríkið reyndar alfarið að hætta því að greiða vexti, enda er engin þörf á að það geri það. En hvernig væri hægt að ná því fram? Til þess að nálgast svar við þeirri spurningu verður fyrst að skoða hvað vextir eru, eðli þeirra, og ekki síst hvert allar þessar vaxtagreiðslur renna. Með því að skoða það nánar er svo hægt að gera grein fyrir því hvernig ná mætti fram lækkun á vaxtagjöldum ríkisins. Nánar

Grein: “Einkavæðing” bankanna

sedlabanki_islands_240810Einar Arnarson birti á fimmtudag áhugaverða grein, þar sem hann ber banka saman við einkaaðila annars vegar og ríki hins vegar. Horfir hann til hlutverks Seðlabanka Íslands gagnvart einkabönkunum, þjóðnýtingar taps einkabankanna og heimildar bankanna til þess að auka peningamagn í umferð.

Einar segir einkavæðingu bankanna í raun rangnefni. „Í raun getur hin svokallaða einkavæðing bankanna varla talist einkavæðing í neinum hefðbundnum skilningi. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að kalla hana frekar framlengingu á ríkisvaldi og flækingu á uppbyggingu þess frekar en nokkurn tíman einkavæðingu.”

Þá segir Einar jafnframt: „Að banki og ríki deili þessum eiginleikum sem eru ólöglegir öðrum einkaaðilum ætti að segja sitthvað um eðli banka. Í raun er hann töluvert nær því að vera ríkisstofnun heldur en nokkurn tíman einkastofnun. Að fela slóð þessara augljóslega neikvæðu eiginleika ríkis með þessum hætti er þó hentugara fyrir þann sem hyggst græða á kostnað annarra. Ef að konungur í ríki sínu myndi prenta pening og eyða honum strax fyrir eigin velmegun væri töluvert augljósara hvers hvonar fjársvik ættu sér stað.”

Hugleiðingar Ólafs Margeirssonar um peningakerfið

OMSíðastliðinn laugardag birti Ólafur Margeirsson eftirfarandi grein á Eyjunni, þar sem fjallað var um þær tillögur sem Betra peningakerfi talar fyrir og hugmyndir sínar varðandi úthlutun nýrra peninga, peninga sem skuldbindingar og tvíhliða bókhald í nýja kerfinu. Áhugaverður pistill sem óhætt er að mæla með.

Hugleiðingar um peningakerfið

Eitt af kosningamálunum er peningakerfið. Svei mér ef flestir ef ekki allir flokkarnir ætli sér að gera eitthvað með málefnið. Mest áberandi „kostirnir“ sem í boði eru fyrir kjósendur er evruupptaka (í kjölfarið á ESB inngöngu) eða það sem kallað hefur verið „Betra peningakerfi“ eða „heildarforðakerfi“. Þetta kerfi hefur einkum verið kynnt á vefnum Betra peningakerfi en systurfélög sem stefna að svipuðum markmiðum má finna í öðrum löndum t.d. Positive Money í Bretlandi.

Betra peningkerfi hugmyndin byggir, í grundvöllinn, á þeirri staðreynd að það eru bankar sem búa til mest alla þá peninga sem notaðir eru. Frá 1994 hefur, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands, hlutfallið verið á bilinu 96-99%, sé miðað við stærsta mælikvarða peningamagns í umferð sem gefinn er út hér á landi.

Undir nýja peningakerfinu yrði þetta hlutfall 0%; bankar byggju ekki til neina af þeim peningum sem eru viðurkenndir sem lögeyrir (sem við skulum hér miða við að sé sú greiðsla sem hægt sé að nota við að borga skatta). Hugmyndin er að seðlabankinn þenji út hlutverk sitt sem útgefandi peninga úr því að ná aðeins yfir seðla og mynt yfir í alla peninga, þar með talið það sem kallað hefur verið „rafpeningar“. Það hugtak er notað yfir annars konar peninga en seðla og mynt, þ.e. innistæður á bankareikningum – einkum og sér í lagi tékkareikningum.

Ég ætla ekki að fara í út í það hér hverju yrði náð fram, fólk getur m.a. kynnt sér síðuna Betra peningakerfi til þess. Ég vil heldur koma á fram eftirfarandi hugleiðingum. Og hér finnst mér rétt að geta þess að þótt ég sé einn þeirra sem nafn birtist á Betra peningakerfi sem „aðstandendur“ þá eru þetta eigin hugleiðingar.

Hvaða peninga á seðlabankinn að búa til?

Eitt sem skoða verður er hvaða peninga Seðlabankinn á að búa til.

„Gallinn“ við peninga er þeir eru flókið fyrirbæri. Þeir eru annað og meira en bara seðlar og mynt eða innistæða á tékkareikningi sem tengdur er við debetkort. Peningar eru hvert það fyrirbæri sem viðurkennt er sem fullnaðargreiðsla fyrir ákveðinni skuldbindingu. Þessi eiginleiki peninga byggist á því hvort viðtaki greiðslunnar sé tilbúinn til þess að horfa skuldbindinguna sem uppfyllta gegn afhendingu einhvers fyrirbæris sem þá myndi vera „peningur“ því skuldbindingin er, samkvæmt viðtaka greiðslunnar, uppfyllt.

Þannig getur kaffibollinn sem ég er að drekka úr – fyrirbærið – verið peningur fyrir einhverri þjónustu – skuldbindingu – ef sá sem mun framkvæma þjónustuna samþykkir kaffibollann sem fullnaðargreiðslu. Að sama skapi þarf fyrirbærið ekki að vera eitthvað sem hægt er að halda í hendi. Loforð getur nægt eða það sem kallað er á ensku „I.O.U.“ (sem stendur fyrir „I owe you“ eða „ég skulda þér“). Raunar er loforðið líklega elsta form peninga sem til er (sjá Graber – Debt: The First 5,000 Years) og kom það löngu á undan lánum eða peningum.

Að sama skapi getur bókhaldsfærsla í viðskiptabanka verið peningur ef almennt er viðurkennt að slíkt sé fullnaðargreiðsla fyrir skuldbindingu. Það er svo sannarlega í dag; m.a.s. hið opinbera viðurkennir bankainnistæðu sem greiðslu fyrir skattskuld sem líklega er harðasta skuldbinding sem hægt er að búa til því hið opinbera getur fangelsað þig (eða skikkað þig í þrældóm eins og tíðkaðist hér fyrr á öldum) ef þú uppfyllir ekki þá skuldbindingu.

Raunar er það svo að hver sem er getur búið til peninga, vandamálið er að fá þá viðurkennda (fræg orð frá Hyman Minsky). Ég hef t.d. heyrt af því að á meðan hruninu stóð voru sum fyrirtæki byrjuð að viðurkenna annars konar peninga en þau voru vön að gera. Þá viðurkenndu þau það sem „greiðslu“ að viðskiptavinurinn, köllum hann Jón, gæfi út skuldabréf til þeirra, þ.e. loforð um greiðslu, án þess að nokkur banki kæmi nálægt. Þar með var Jón að búa til peninga: skuldabréfið var viðurkennd greiðsla.

Þá kemur spurningin: ef hver sem er, Jón þar á meðal, getur búið til peninga, hvaða peninga á Seðlabankinn að búa til í nýja peningakerfinu? Einstök skuldabréf sem ganga kaupum og sölum einstaklinga á milli án aðkomu fjármálastofnana eru ólíkleg til þess að hafa meiriháttar áhrif svo það er óhætt að horfa framhjá þeim.

En hvað með banka sem eru langstærslu milligönguaðilar greiðslna og nota það hlutverk sitt í dag til þess að búa til peninga eins og þeim lystir? Já, undir nýja kerfinu væri þeim bannað að búa til bókhaldsfærslur sem hægt væri að nota sem „rafpeninga“, s.s. til greiðslu skatta. (Slíkir peningar yrðu geymdir á bókum Seðlabankans.) En hvað með aðrar bókhaldsfærslur banka, s.s. afleiðuviðskipti, kaup á hlutabréfi með framvirkum samningi eða kreditkortaviðskipti?

Allt, og miklu meira til, eru þetta bókhaldsfærslur hjá bönkum sem gætu virkað sem peningar (kredikort gera það þegar í dag). Alveg eins og í tilviki Jóns hér að ofan væri það ekkert sem stoppaði banka í því að búa til bókhaldsfærslurnar til hvers þess sem þeir vildu. Það eina sem myndi stoppa bankana væri vilji mótaðila þeirra í viðskiptum til þess viðurkenna bókhaldsfærslu bankans sem greiðslu, þ.e. peninga.

Það sem ég er að koma að er spurningin hvort skilgreina þurfi hlutverk banka enn betur en það eitt að þeir geti ekki búið til lengur þá peninga sem viðurkenndir eru sem fullnaðargreiðsla á almennum skuldbindingum, skattskuldbindingum einkum og sér í lagi. (Skattskuldbindingar eru mjög mikilvægar því næstum allir hafa þær og því er hvað það sem viðurkennt er sem greiðsla skatta verðmætt vegna þess eins og mun mjög líklega verða viðurkennt sem peningar í framhaldinu.) Þar með talið er t.d. að skoða hvort það sé sniðugt að bankar geti verið fjárfestingar- og viðskiptabankar á sama tíma en það myndi draga úr getu banka til þess að búa til „annars konar peninga” – „money substitutes“ eins og það er kallað á ensku – ef þeir væru aðskildir.

Skuldlausir peningar?

Eitt af því sem haldið er fram er að hægt sé að búa til peningana án þess að einhver skuld eða skuldbinding standi að baki þeirra.

Sjálfur hef ég vissar athugasemdir um hvort þetta sé hægt. Ég ritaði „skuldbinding“ margoft hér að ofan. Í raun er það grundvöllur peninga að það sé einhvers konar skuld eða skuldbinding sem greiðsla þeirra er að uppfylla: ef greiðsla þeirra uppfyllir ekki skuldbindinguna sem þeir eiga að uppfylla þá eru þeir ekki peningar.

Spurningin er hvort það sé hægt að bóka peningamyndunina í nýja peningakerfinu aðeins sem eignamyndun. Ég verð að viðurkenna að það þætti mér merkilegt því mér finnst að þá sé verið að brjóta grundvallarreglu tvíhliða bókhalds; credit færsla kallar á jafnháa debit færslu. Ef til vill er þetta hægt, ég er ekki meistari í bókhaldi og reglunum þar á bakvið.

Það hins vegar er í raun ekki vandamál hvort það sé hægt að bóka peningamynduna sem skuldlausa eða ekki. Það eina sem þarf að sjá til er að skuldin sem myndast við peningamyndunina verði aldrei greidd né heldur að það sé nokkurt greiðsluflæði (afborganir og vextir) sem þarf að standa skil á vegna hennar.

Peningamyndunina í nýja kerfinu má auðveldlega bóka til dæmis á eftirfarandi hátt. Seðlabankinn býr til 1.000.000 króna með því að bóka, samtals, 1.000.000kr. hækkun á tékkareikningum fólks sem geymdir eru á skuldahlið Seðlabankans. Í staðinn færir Seðlabankinn til bókar 1.000.000kr. eign sem skal vera skuld ríkissjóðs. Þar með er ríkissjóður í raun búinn að taka að láni 1.000.000kr. hjá Seðlabankanum og greiða inn á tékkareikninga fólks (sjá síðar hví ég set þetta svona upp). Efnahagsreikningur Seðlabankans hefur þanist út um 1.000.000kr.

Nú hugsar einhver hvort það sé ekki slæmt að ríkissjóður skuli skulda 1.000.000kr. vegna peningamyndunar Seðlabankans. Það er hins vegar svo að þessi skuld verður aldrei greidd til baka! Og það er raunar mjög mikilvægt eins og útskýrt verður rétt strax.

Þetta er skuldabréf er opið – nokkurs konar „lánalína“ eins og það heitir á máli fjármálamarkaða eða einfaldlega „yfirdráttarheimild“ í daglegu tali – og ber enga vexti og engar afborganir. Þetta skuldabréf skal alltaf vera á bókum seðlabankans og verður alltaf skuld ríkissjóðs til seðlabankans. En þar sem skuldabréfið hefur engar samningsgreiðslur er greiðslubyrði þess engin. Og þar sem greiðslubyrðin er engin er skuldabyrðin engin.

Það er mjög mikilvægt að þetta skuldabréf verði aldrei greitt til baka. Ástæðan er sú að peningamagnið í umferð í hagkerfinu er byggt upp af því að skuldabréfið sé til: peningarnir á tékkareikningum fólks eru búnir til með því að hækka höfuðstól skuldabréfsins. Ef ríkissjóður tæki sig til, heimtaði skatt af fólki og notaði þær skatttekjur til að greiða inn á skuldabréfið væri peningamagnið í umferð að minnka. Og það kallar á allan fjárann af efnahagsvandræðum: verðhjöðnun, skort á fjárfestingu, atvinnuleysi, o.s.frv.

Í raun er með þessu fyrirkomulagi verið að gera þá staðreynd að peningar séu skuld augljósa! Skuld ríkissjóðs til Seðlabankans eru peningarnir í hagkerfinu: „I.O.U“ nótan sem ríkissjóður gefur út til Seðlabankans verður að peningum í daglegu lífi fólks. Þessir peningar verða aðeins til staðar svo lengi sem „I.O.U“ nótan verður aldrei greidd til baka!

Það skemmtilega er að það er til að minnsta kosti eitt dæmi þess í sögunni að ekki ósvipuð atburðarás hafi átt sér stað (aftur, Graber segir söguna). Árið 1694 tók Englandskonungur lán hjá enskum bönkum. Lánið var upp á 1.200.000 punda og var m.a. ætlað til uppbyggingar á flota Englands (flota sem varð grundvöllurinn að breska heimsveldinu). Ofan á 8% vexti fengu bankarnir einokunarvald, í gegnum Bank of England (sem þá var í eigu bankanna sem veittu lánið), til þess að gefa út peningaseðla sem urðu að lögeyri. Þessir peningaseðlar voru í raun tryggðir af skuldabréfinu (svipað og gullfótur nema þarna var það “skuldabréfsfótur”).

Þetta er mjög mikilvægt í okkar samhengi. Staðreyndin er sú að þetta 1.200.000 punda lán hefur aldrei verið greitt til baka og það verður aldrei greitt til baka. Ef það gerist gæti grundvöllur peningakerfis Bretlands auðveldlega hrunið, svipað og ef allt gull heims hefði þurrkast út á einhvern hátt í tímum gullfótarins. Fótunum væri kippt undan peningakerfinu á svipstundu. Á sama hátt mætti skuld ríkissjóðs Íslands við Seðlabanka Íslands aldrei vera greidd upp í hinu nýja peningakerfi: skuldin væri peningarnir í umferð og án hennar væri ekkert peningakerfi!

Og vitanlega ætti skuldabréfið að vera vaxtalaust. Í fyrsta lagi yrði til staðar greiðslubyrði af láninu ef vextir yrðu til staðar og það væri beinlínis gegn tilgangi nýja peningakerfisins sem m.a. er að draga úr skuldabyrði hins opinbera. Í öðru lagi: hver væri tilgangurinn með því að hafa vexti á bréfinu? Svo Seðlabankinn fengi vexti af eign sem hann bjó til með því einu að skrifa tölur inn í tölvuna hjá sér?? Seðlabankinn er líka í eigu ríkisins. Það eru því engin rök fyrir því að hafa vexti á bréfinu.

Blessaðir pólitíkusarnir

Að koma peningunum í umferð er eitt málefni sem á eftir að ræða. Ein hugmyndin er að Seðlabankinn afhendi ríkissjóði peningana með innleggi á tékkareikning ríkissjóðs í Seðlabankanum. Með króníska tilhneigingu stjórnmálamanna til að skora eld að eigin köku líst mér persónulega mjög illa á það. Ég sé það í anda: ráðherrar myndu keppast við að lofa upp í ermina á sér ýmis konar verkefnum í eigin kjördæmi sem þeir ætluðu að fjármagna með peningunum frá Seðlabankanum. Það má ekki gerast!

Ég hygg að það sé betra að Seðlabankinn greiði ríkissjóði aldrei eina einustu krónu. Það er hugmyndin hér að ofan. Í stað þess að Seðlabankinn greiði ríkissjóði þá peninga sem búnir eru til þá skuli greiða Íslendingum þá.

Hver og einn Íslendingur með tékkareikning – eða þeir sem eru fjárráða ef fólk vill það frekar – fengi greiddan sinn jafna skerf af þeim peningum sem Seðlabankinn telur rétt að búa til. Tékkareikningar fólks yrðu hvort eð er geymdir á bókum Seðlabankans svo það væri auðvelt: bókhaldsfærslur beggja megin efnahagsreiknings Seðlabankans svipuðum þeim sem lýst er hér að ofan.

Það er margt sem næðist fram með þessu. Í fyrsta lagi gæti fólk eytt peningunum eins og því lysti, það hefði fullkomið frelsi til slíks (þetta myndi þá draga úr áhyggjum fólks um að þetta sé sovéskt kerfi).

Í öðru lagi yrði almenningur meira á verði varðandi framgang peningastefnunnar. Það sæi innleggið (það mætti vera mánaðarlegt) frá Seðlabankanum og skildi betur hvað væri í gangi, allt eftir því hvernig innleggið breyttist. Ég efast stórlega um að fólk myndi nenna að fletta því upp jafnoft og það flettir upp stöðunni á tékkareikningum hvað ríkissjóður væri að fá mikið frá seðlabankanum ef hann fengi peningana beint. Skortur á gegnsæi yrði samstundis til staðar. Og það kallar á pólitíska spillingu.

Í þriðja lagi mætti ríkissjóður enn fá sinn skert af þessum peningum en það ætti að gerast á sama hátt og í dag: með skattlagningu. Það yrði þá hluti af lýðræðislegum kosningum hvort og þá hversu mikið ríkissjóður ætti að taka af þessum peningum (sem einnig ætti að draga úr áhyggjum fólks um sovétið).

Og í fjórða lagi yrði þetta sanngjarnasta leiðin: allir fengju sinn jafna skerf, enginn væri uppáhalds og enginn gæti notað sér pólitísk vinasambönd til þess að fá meira af þessum peningum en aðrir (að minnsta kosti yrði vandamálið ekki meira áberandi en það er þegar í dag hvað varðar pólitíska spillingu).

Breyting til batnaðar ef rétt er haldið á spilunum

Þetta eru svona mínar helstu hugleiðingar um kerfið en þær eru margar aðrar. Þær bíða þó betri tíma.

Í grundvallaratriðum er hugmyndin að baki nýju peningakerfi mjög góð. Það skiptir hins vegar máli hvernig hún er framkvæmd, sérstaklega þegar kemur að því að skoða hlutverk banka í hagkerfinu önnur en að búa til peninga eins og þeir gera í dag. Þá finnst mér ekkert að því að horfast í augu við þá staðreynd að ólíklega sé hægt að bóka peningana sem skuldlausa (það er mitt álit). En þótt það væri ekki hægt að bóka peningamyndunina sem skuldlausa þá þarf það ekki að vera vandamál.

Að minnsta kosti finnst mér ljóst að þetta kerfi yrði skárra en það sem við höfum í dag, svo lengi sem það yrði framkvæmt á réttan máta.

 

 

Stöðugra og skuldléttara peningakerfi

Sigurvin B. SigurjónssonEftirfarandi er grein Sigurvins B. Sigurjónssonar, sem birt var í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 11. apríl undir yfirskriftinni “Stöðugra og skuldléttara peningakerfi”.

Staðan

Þjóðin hefur gengið í gegnum mikla efnahagslegar þolraunir frá falli bankakerfisins. Há verðbólga, lækkun fasteignaverðs og mikill fjárlagahalli með tilheyrandi skattahækkunum og niðurskurði bera vott um það. Eftir standa háar skuldir heimila og hins opinbera sem erfitt verður að standa undir, enda hafa laun almennings og landsframleiðsla dregist saman að raunvirði. Bent hefur verið á að auka þurfi afgang af viðskiptum við útlönd og fá inn erlenda fjárfestingu til þess að glíma við vandann. En nú eru flestar aðrar þjóðir í svipaðri stöðu og beita sér fyrir sömu úrlausnaraðferðum. Ekki verður öllum þjóðum að ósk sinni um viðskiptaafgang og aukna erlenda fjárfestingu fyrr en opnast fyrir viðskipti við fjarlægar reikistjörnur. Svo hvað er til ráða?

Hugmyndin

Á fjórða áratug síðustu aldar setti hagfræðingurinn Irving Fisher við sjötta mann fram hugmyndir um umbætur á peningakerfi Bandaríkjanna. Hugmyndirnar urðu þekktar undir nafninu „Chicago-áætlunin“ (e. Chicago plan). Áætlunin naut mikils fylgis hagfræðinga þess tíma, en hlaut á endanum ekki hljómgrunn í bandaríska þinginu. Þess í stað var innstæðutryggingakerfið sem við þekkjum í dag fest í lög til þess að taka á efnahagsvandanum í kjölfar kreppunnar miklu.

Chicago áætlunin gekk út á það að afnema svokallað brotaforðakerfi (e. Fractional reserve banking) og taka upp það sem nefnt er heildarforðakerfi (e. Full reserve banking). Breytingarnar fela í sér að nýjir peningar:

          Verði gefnir út af seðlabanka í stað bankakerfisins

          Verði settir í umferð í gegnum ríkisútgjöld í stað þess að vera lánaðir í umferð og endurgreiddir með vöxtum samkvæmt lánssamningi.

Rannsóknin

Hugmyndin hlýtur nú aukna athygli og fylgismönnum hennar fjölgar hratt. Fjölmargir fræðimenn eru þar á meðal og síðastliðið haust birtu yfirmaður líkana og rannsókna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum og einn hagfræðinga sjóðsins niðurstöður rannsóknar sinnar á áætluninni undir yfirskriftinni „The Chicago Plan Revisited“. Niðurstöður rannsóknarinnar styðja allar fullyrðingar Irving Fisher um afleiðingar áætlunarinnar:

 1. Mun betri stjórn verður á grunnorsökum hagsveiflna, þ.e. sveiflum í framboði lánsfjármagns af hálfu bankanna og peningamagni.
 2. Engin hætta verður lengur á bankaáhlaupum.
 3. Mikill lækkun á hreinum skuldum ríkisins og annarra opinberra aðila.
 4. Veruleg lækkun skulda einkaaðila (heimila og fyrirtækja), samhliða því að aukning skulda er ekki lengur forsenda peningasköpunar.

Til viðbótar ofangreindum atriðum telja sérfræðingar AGS að kerfisbreytingin myndi leiða af sér 10% einskiptis hagvöxt og að unnt sé að viðhalda verðbólgustigi nálægt 0%, án vandkvæða fyrir peningamálastefnu gjaldmiðilsins.

Þó upptalningin að ofan kunni að hljóma ótrúlega, eru þetta niðurstöður ýtarlegustu rannsóknar sem gerð hefur verið á áætluninni. Auk þess naut áætlunin meirihlutafylgis hagfræðinga sem tóku afstöðu til málsins á 4. áratugnum, en þá voru þær mun meira til umræðu en í dag. Fleiri rannsóknir styðja Chicago áætlunina á meðan haldbær rök á móti áætluninni virðast fá og veik.

Hver borgar?

Hér virðist því um mikinn ábata að ræða fyrir þjóðfélagið. En hver ber kostnaðinn? Í núverandi kerfi hafa bankarnir hreinar vaxtatekjur á hverju ári af þeim peningum sem þeir skapa með lánveitingum. Við breytingarnar lækka skuldir hagkerfisins við bankakerfið og þar með minnka efnahagsreikningar bankanna og vaxtamunur þeirra. Óhætt er að fullyrða að lækkun skulda heimila, fyrirtækja og hins opinbera myndu hlaupa á hundruðum milljarða og lækkun hreinna vaxtatekna bankakerfisins á tugum milljarða. Vaxtatekjur bankanna eru vaxtagjöld heimila, fyrirtækja og hins opinbera og mynda því sparnað þessara aðila sem unnt er að nýta í fjárfestingar og aðra verðmætaskapandi starfsemi. Bankarnir munu því bera kostnaðinn af breytingunum án þess þó að stefna þeim í hættu, enda hafa breytingarnar ekki áhrif á stöðu eigin fjár bankanna.

Verðmæti hlutafjár bankanna lækkar vegna lægri vaxtatekna. Þar sem erlendir kröfuhafar eru stærstu eigendur bankanna þá myndu þessar breytingar lækka krónueignir erlendra aðila hérlendis þ.e. létta verulega á snjóhengjunni. Verðmæti hlutafjáreignar ríkisins í Landsbankanum myndi vissulega lækka einnig, en þau áhrif yrðu óveruleg í samhengi við ábatann.

Ákall til aðgerða

Það er því margt sem bendir til þess að hér sé um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir þjóðina. Séu minnstu líkur til þess að ofangreindar niðurstöður eigi við rök að styðjast þá er ljóst að mjög eftirsóknarvert verður fyrir nýja ríkisstjórn að kanna málið gaumgæfilega. Við skulum sannarlega vona að það verði raunin.

Átakið Betra peningakerfi er einn þeirra hópa sem hafa sprottið upp á heimsvísu og halda uppi umræðu og tala fyrir ofangreindum breytingum. Fólk getur kynnt sér málið á heimasíðu þess, https://betrapeningakerfi.is/.

 

Sigurvin B. Sigurjónsson

Höfundur er með M.Sc. í fjármálum, starfar sem fjármálaráðgjafi og er stjórnarmaður átaksins Betra peningakerfi

 

Svar við bloggi Vilhjálms Þorsteinssonar þann 8.4.2013

MerkidVilhjálmur Þorsteinsson, birti í gær 10 efasemdir um þær hugmyndir sem átakið Betra peningakerfi talar fyrir. Átakið Betra peningakerfi tekur allri málefnalegri umræðu fagnandi og eftirfarandi er svar átaksins við færslu Vilhjálms:

“1.  Kerfið sem nú er við lýði, brotaforðakerfi (fractional reserve banking), hefur verið í notkun í bönkum  og seðlabönkum Vesturlanda og síðan alls heimsins í yfir 300 ár. Þetta fyrirkomulag hefur stutt við gríðarlegar framfarir, nýsköpun, sérhæfingu, framleiðniaukningu og hagvöxt á þeim tíma. Vissulega hafa orðið áföll á leiðinni og margt hefur lærst um það hvernig stýra þurfi kerfinu og hafa eftirlit með því. En grundvallarbreytingar á slíku undirstöðuatriði hagkerfisins á ekki að gera í bráðræði, heldur aðeins að mjög vel rannsökuðu og athuguðu máli og helst í samstarfi þjóða.”

Vilhjálmur fullyrðir hér að brotaforðakerfið hafi “stutt við gríðarlegar framfarir, nýsköpun, sérhæfingu, framleiðniaukningu og hagvöxt“. En þessa fullyrðingu er ekki hægt að sannreyna, þar sem við höfum engan samanburð. Vandséð er að þessar framfarir hefðu orðið minni ef peningar hefðu verið búnir til án skuldar og í hæfilegu magni fyrir hagkerfið, skuldsetning minni, bólur og kreppur færri.

“2.  Heildarforðakerfi hefur hvergi verið reynt og afleiðingar þess eru óþekktar fyrir jafnvægið í hagkerfinu. Að taka það upp á Íslandi, fyrstu allra landa, er því afar áhættusamt.”

Vilhjálmur vill ekki að Ísland verði fyrst til að taka upp nýtt fyrirkomulag peningamyndunar. Hvernig geta framfarir orðið ef enginn ríður á vaðið? Ekki getur núverandi peningakerfi talist áhættulaust. Það hefur hrunið í flestum öðrum löndum og líka hér á landi. Heildarforðakerfinu er einmitt ætlað að draga úr þeirri miklu áhættu sem fylgir núverandi kerfi.

Innleiðing heildarforðakerfis er afturkræf án verulegs tilkostnaðar. Sama verður ekki sagt um þá aðgerð að taka upp evru. Sú leið er hvorki án áhættu né afturkræf nema með verulegum tilkostnaði.

Ræða þarf hvort sú hóflega áhætta sem fylgir upptöku heildarforðakerfis sé ekki einmitt réttlætanleg í ljósi þess mikla ávinnings sem gæti náðst: Stórfelld lækkun ríkisskulda, lægri vaxtabyrði, stöðugra hagkerfi, lægri skuldsetning, lægri verðbólga, meiri hagvöxtur og öruggara bankakerfi.

“3.       Heildarforðakerfi er óhóflega róttæk aðferð til að taka á þeim meinta vanda brotaforðakerfisins sem leysa á. Hún jafngildir því að festa bindiskyldu banka í eitt skipti fyrir öll í 100% af innlánum. Bindiskylda er í dag 2% og henni má breyta með reglugerð. Ekkert er því til fyrirstöðu í núverandi kerfi að hækka bindiskyldu í einhverja tölu milli 2% og 100% ef talið er að það sé skynsamlegt. Óljóst er hvað ætti að vera unnið með því að tapa þeim sveigjanleika.”

Heildarforðakerfi eins og það er kynnt af Positive Money og Betra peningakerfi talar fyrir felur ekki í sér 100% bindiskyldu, eins og fjallað er um á heimasíðu samtakanna og í bókinni Modernising Money. Mun fleira þarf að koma til, því 100% bindiskylda myndi ein og sér ekki leiða til þess að peningar yrðu búnir til án skuldsetningar. Í heildarforðakerfi er gert ráð fyrir að peningamagnsnefnd taki ákvarðanir um aukningu peningamagns til að mæta þörfum hagkerfisins og nýtt peningamagn verði sett í umferð án aukinnar skuldsetningar. Sveigjanleiki verður því til staðar til að mæta vexti hagkerfisins, en væri ekki fyrir hendi við 100% bindiskyldu eins og Vilhjálmur bendir réttilega á.

“4.       Að sama skapi er ekkert því til fyrirstöðu í núverandi kerfi að stofna banka eða sparisjóð sem fer eftir reglum heildarforðakerfisins, þ.e. leggur innlán beint inn í Seðlabankann en láni þau að öðrum kosti út án gírunar. Ef raunveruleg eftirspurn er eftir slíkri bankaþjónustu stendur ekkert í vegi fyrir því að henni sé mætt.”

Það hefði enga þýðingu ef reglur heildarforðakerfisins giltu um aðeins eina fjármálastofnun. Aðrar innlánsstofnanir hefðu þá eftir sem áður vald til þess að skapa peninga úr engu með lánveitingum með þeim göllum sem því fyrirkomulagi fylgir.

“5.    Gengið er út frá því í þessum hugmyndum að hið miðlæga ráð sem ákveður peningamagn í umferð sé “óháð” og “faglegt”. Það er erfitt að að tryggja í framkvæmd til lengdar enda væri ráðið afar valdamikið – gæti búið til peninga úr engu! – og því útsett fyrir alls kyns þrýstingi stjórnvalda og hagsmunaaðila.”

Vissulega yrði erfitt að tryggja að peningamagnsnefndin verði óháð og fagleg, en hún yrði þó mun skárri kostur en núverandi fyrirkomulag. Hér skal bent á að peningamagnsnefndin mun aðeins hafa útgáfuvaldið og getur því ekki aukið peningamagn í sína þágu. Við núverandi kerfi hafa bankarnir hins vegar bæði útgáfuvaldið og úthlutunarvaldið sem býður heim hættu á spillingu. Með upptöku heildarforðakerfisins væri því dregið úr freistnivanda, útgáfuvaldið væri hjá seðlabanka en úthlutunarvaldið hjá lýðræðislega kjörnu Alþingi sem myndi ráðstafa nýjum peningum með fjárlögum. Ríkisstjórn mætti ekki kalla eftir aukningu peningamagns.

“6.    Ef öllu nýju fé er komið í umferð í gegn um ríkissjóð ræður forgangsröðun ríkisins mun meiru en nú er um fjárfestingu og framkvæmdir. (Þetta gafst ljómandi vel hjá Stalín. Eða kannski ekki.)”

Alþingi ráðstafar nú þegar sköttum landsmanna alls um 500 milljörðum árlega. Eftir að innleiðingu heildarforðakerfi er lokið, gæti árleg aukning peningamagns verið jafn hröð hagvexti og numið á bilinu 10 til 50 milljarðar árlega. Varla er ástæða til að ætla trúir Vilhjálmur því að forgangsröðun ríkisins muni taka stakkaskiptum vegna þeirrar fjárhæðar?

“7.       Ef taka á heildarforðakerfið “alla leið” þarf að koma í veg fyrir óbeina gírun peninga. Slík óbein gírun gæti t.d. falist í því að hlutabréf í fyrirtækjum eða einingar í gíruðum peningamarkaðssjóðum verði ígildi peninga og gangi manna á milli sem gjaldmiðill. Setja þyrfti á mjög erfið boð og bönn ef koma ætti í veg fyrir slíkt.”

Sú hætta að skuldabréf, hlutabréf eða aðrir fjármálagerningar verði ígildi peninga (e. Near-monies) er ekki meiri en í núverandi kerfi. Vissulega þyrfti að koma í veg fyrir að ígildi peninga skapist undir nýja kerfinu. Benes og Kumhof fengu þessa spurningu og svara henni vel á bls. 15 í uppfærðri útgáfu af rigerð sinni. Þá er fjallað sérstaklega í kafla 6 í Modernising Money um hvernig nýtt kerfi kemur í veg fyrir að bankakerfið geti búið til nýja peninga.

“8.    Í því líkani heildarforðakerfis sem mest er vísað til (sjá t.d. bls. 37) er gert ráð fyrir gjörbreyttri fjármögnun fyrirtækja, sem myndu nær eingöngu nota hlutafé í stað lánsfjár. (Enda væru hlutabréf annars ávísanir á gíraða peninga og óæskileg sem slík.) Ef þetta yrði raunin á Íslandi, einu landa, er hætt við að alþjóðleg fyrirtæki flyttu unnvörpum úr landi. Fjármögnun þeirra yrði að öðrum kosti fábreyttari og ósveigjanlegri en fjármögnun keppinauta, og ekki í samræmi við bestu fjármagnsskipan sem fæst með blöndu lánsfjár og eigin fjár. Að sama skapi ættu íslenskir bankar undir heildarforðakerfi í miklum erfiðleikum með að keppa við lánsfé frá erlendum bönkum með brotaforðakerfi. Grípa yrði til boða, banna og hafta til að viðhalda “hreinleika” hins innlenda heildarforðakerfis og hagstjórnarvaldi miðlægu peninganefndarinnar.”

Hér vísar Vilhjálmur til líkans sem Jaromir Benes og Michael Kumhof nota við rannsóknir sínar á Chicago áætluninni. Betra væri að skoða uppfærða útgáfu þar sem höfundar svara ýmsum spurningum sem fram hafa komið. Eins og höfundar benda sjálfir á er líkanið takmörkunum háð og byggir á gefnum forsendum. Líkan þeirra er í ýmsum atriðum frábrugðið þeirri útfærslu heildarforðakerfis sem Positive Money og Betra Peningakerfi hafa verið að kynna. Þó eru grunnatriðin þau sömu: Peningar verða gefnir út skuldlaust og settir í umferð í gegnum fjárlög í stað þess að vera lánaðir í umferð af bönkunum gegn vöxtum.

“9.       Hætt er við að stór hluti peningamagns í umferð lægi hverju sinni í lausum innstæðum í Seðlabankanum og aðeins lítill hluti þess væri í bundnum innlánum sem tiltæk væru til útlána eða til fjárfestinga. Þetta drægi úr framboði lánsfjár og áhættufjármagns í hagkerfinu, sem aftur minnkar fjárfestingu og framkvæmdir. (Það sama gildir ekki um brotaforðakerfið, þar sem stærstur hluti innistæðna er sífellt virkur í hringrás hagkerfisins.) Ráðið sem stjórnar peningamagninu skv. forskrift heildarforðakerfisins myndi freista þess að hvetja hagkerfið í þessari stöðu með því að búa til nýja peninga og láta ríkið eyða þeim. En aftur myndi stór hluti innspýtingarinnar á endanum hafna í Seðlabankanum sem “dautt” fé og hringekjan yrði að snúast annan hring. Það er því ekki fyrirséð með vissu að kerfið nái jafnvægisstöðu (equilibrium).”

Ef þessi staða kæmi upp myndu vextir hækka þar til aukið framboð myndaðist á lánsfé. Lendi menn í þeim aðstæðum að hærri vextir leiði ekki til aukins framboðs lánsfjármagns hefur peningamagnsnefndin það ráð að veita bankakerfinu lán beint með nýjum peningum í stað þess að ríkið komi þeim í umferð í gegnum fjárlög. Fjallað er um þetta í kafla 7.6 í Modernising Money.

Í núverandi kerfi eru peningar (óbundin innlán) heimila og fyrirtækja notaðir til útlána en það felur í sér þvingaða áhættutöku. Afleiðingarnar eru dýr viðbrögð í formi ríkisábyrgða og innstæðutryggingasjóða til þess að koma í veg fyrir bankaáhlaup. Þrátt fyrir þetta eiga þau sér stað annars lagið. Nú síðast á Kýpur.

“10.   Í stað þess að taka lán á markaði er hugmyndin að ríkissjóður fái umtalsverðan hluta rekstrarfjár síns í formi nýrra peninga frá miðlæga ráðinu, og þannig eigi skuldir ríkisins smám saman að minnka. Augljóst er að þar með eykst freisting stjórnmálamanna, og jafnvel hvati, til að eyða peningum enda þarf þá ekki að greiða vexti af þeim. Þessi breyting hvatanna í kerfinu er að öðru óbreyttu, og ásamt punkti 6, líkleg til að stækka hlutdeild hins opinbera í þjóðarkökunni.”

Nýir peningar yrðu ekki stór hluti af rekstrarfé ríkissjóðs. Ef við gerum ráð fyrir að peningamagnsaukningin vaxi í svipuðum takti og hagvöxtur værum við verið að tala um nokkur prósent á ári eða 10-50 milljarða. Ekki er ástæða til að ætla að „freistni stjórnmálamanna“ sé meiri þegar um er að ræða nýja peninga heldur en skattfé. Svigrúmið verður vissulega meira til þess að greiða niður skuldir og/eða bæta kjör ríkisstarfsmanna. Þegar frá líða stundir og með lækkandi skuldsetningu ríkisins má færa rök fyrir því að „hlutdeild hins opinbera í þjóðarkökunni“ muni minnka, þar sem minna skattfé þarf til þess að standa undir vaxtagreiðslum ríkisins af skuldabréfaútgáfum. Í þessu ljósi verður auðveldara fyrir hægrisinnaðar ríkisstjórnir að ná markmiðum sínum um minni hlut ríkisvaldsins undir heildarforðakerfi með lækkun skatta.

Á fyrstu árum eftir upptöku heildarforðakerfis má gera ráð fyrir að skuldir ríkisins lækki um 200 til 300 milljarða. Þetta gerist samhliða því að peningamagnið færist frá bönkum til seðlabanka.  

Vilhjálmur lýkur grein sinni með umfjöllun um Frosta Sigurjónsson og Framsóknarflokkinn. Hér er gott að hafa í huga að þær hugmyndir sem hér um ræðir eru áratuga gamlar og eiga rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna. Þegar hvað mest umræða var um þær á 4. áratugnum nutu þær meirihlutafylgis hagfræðinga þar í landi. Auk þess hefur Framsóknarflokkurinn ekki á sinni stefnuskrá að taka upp heildarforðakerfi, heldur að skoða skuli málið sérstaklega, eða eins og segir í ályktun flokksins:

“Skoða þarf sérstaklega hvernig fjármálakerfið getur unnið með þjóðfélaginu í stað þess að margfalda peningamagn sem leiðir til þenslu. Í því samhengi verði skoðað sérstaklega að viðskiptabönkum verði óheimilt að búa til ígildi peninga í formi lausra innstæðna. Peningaútgáfa, hvort sem hún er í formi seðla, myntar eða lausra innistæðna, verði eingöngu á hendi Seðlabankans.”

Ummæli Vilhjálms, “Gott væri fyrir kjósendur að fá á hreint hvort þessi hugdetta sé sett fram af jafn lítilli alvöru af flokksins hálfu og upptaka Kanadadollars, sællar minningar, eða hvort Framsókn ætli sér í raun að umbylta peningakerfinu á Íslandi og taka upp heildarforðakerfi. Sé svo gæti það leitt til móður allra “séríslenskra lausna”, breytt landinu í rannsóknastofu og okkur öllum í tilraunadýr.“ eru því úr lausu lofti gripin. Þegar horft er til ályktunar Framsóknarflokksins er ekki annað hægt að sjá en að ráðist verði í breytingar á borð við þessar nema að vandlega athuguðu máli.

 Þá er Framsóknarflokkurinn ekki einn um þetta stefnumál. Aðrir flokkar hafa einnig ályktað um málið:

Þá tók Lilja Mósesdóttir og Samstaða málið upp í þingsályktunartillögu sinni um aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins, sem meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis lagði til að yrði samþykkt með breytingum, en því miður komst málið ekki til afgreiðslu fyrir þinglok.

Að baki átakinu Betra peningakerfi stendur fjöldi fólks með mismunandi stjórnmálaskoðanir og bakgrunn. Hugmyndirnar um upptöku heildarforðakerfi snúa að kerfislægri breytingu á grundvallaratriði peningamála þjóðarinnar og þar með hagkerfisins. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi og þess vegna skiptir miklu máli að hugmyndin sé rædd á málefnalegum grunni. Betra peningakerfi tekur því fagnandi að stjórmálaflokkar vilji skoða og/eða rannsaka málið, óháð stefnu þeirra.

Aðskilnaður peningamyndunar og útlánastarfsemi

Sigurvin nr27Nú er orðið ljóst að þingsályktunartillaga nr. 239 um aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi, verður ekki afgreidd af afstöðnu þingi. Tillagan er í anda hugmynda Betra peningakerfis og fékk jákvæða umsögn fjölda erlendra sérfræðinga á sviði peningamála og mælti meirihluti Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis með því að tillagan yrði samþykkt með breytingum. Það mun því bíða nýs þings að leggja grunn að skuldléttara, kröftugara og sanngjarnara efnahagskerfi.

Við birtum hér grein Sigurvins B. Sigurjónssonar sem fjallar um umsagnir Seðlabanka Íslands og Samtaka Fjármálafyrirtækja um tillöguna. En Fréttablaðinu tókst því miður ekki að birta greinina fyrir þinglok.

Aðskilnaður peningamyndunar og útlánastarfsemi

Í nóvember síðastliðnum var lögð fyrir Alþingi íslendinga þingsályktunartillaga þess efnis að „fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd sérfræðinga sem verði falið að kanna hvernig hægt sé að tryggja aðskilnað peningamyndunar og útlána­starfsemi banka­kerfisins með því að afnema heimildir bankanna til útlána umfram lausar inn­stæður“. Hér er um að ræða rannsókn á mögulegri grundvallarbreytingu á tilhögun útgáfu íslensku krónunnar, sem fær sífellt aukna athygli hér heima sem erlendis. Því hefði verið viðbúið að þær fjármálastofnanir sem mynda þetta kerfi væru með rök á reiðum höndum fyrir kostum núverandi skipan peningamyndunar. Hér verða skoðaðar stuttlega umsagnir Seðlabanka Íslands (SÍ) og Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) um tillöguna.

Seðlabanki Íslands

Í umsögn SÍ kemur m.a. fram að: „Með því að gera slíka grundvallarbreytingu á fjármálakerfinu eins og lýst er í tillögunni er hætt við að margt glatist af efnahagslegum tækifærum sem nú eru í boði fyrir tilstilli fjármálastofnana sem sérhæfa sig í að takast á við grundvallarvandamál lánastarfsemi…“ Eftir aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi munu fjármálastofnanir áfram sérhæfa sig í lánastarfsemi og þeim vandamálum sem henni fylgja. Því er vandséð hvernig þessi fullyrðing er málinu viðkomandi.

Í niðurlagi umsagnarinnar segir: „Ofangreind hugmynd gengur út á grundvallarbreytingu á skipulagi fjármála- og peningakerfisins og framkvæmd peningastefnunnar. Henni verður varla hrint í framkvæmd án þess að áður fari fram mjög ýtarlegar fræðilegar rannsóknir og úttektir á framkvæmd og útfærslu breytinganna.“ Óhætt er að segja að þetta sé eðlileg krafa og í samræmi við þingsályktunartillöguna.

Heilt á litið má segja að SÍ hafi ekki tekið beina afstöðu til þingsályktunartillögunnar í umsögn sinni, heldur aðeins bent á mikilvægi þess að vandað yrði til verks og að þessar grundvallarbreytingar séu ekki mögulegar nema í alþjóðlegu samstarfi. Breytingin sem hér er til lögð er hæglega framkvæmanleg fyrir eina mynt. Hins vegar er mikilvægt að alþjóðlegt samstarf verði viðhaft varðandi rannsóknir og undirbúning breytingarinnar.

Samtök fjármálafyrirtækja

Umsögn SFF er nokkru einarðari gegn þingsályktunartillögunni en umsögn SÍ. Í niðurlagi umsagnar samtakanna segir: „Að mati Samtaka fjármálafyrirtækja hlýtur skipan fjármálakerfisins hér á landi að taka mið af því sem gerist á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Bæði vegna skuldbindinga okkar vegna EES og til þess að tryggja sambærilega fjármálaþjónustu hér á landi og gengur og gerist á EES svæðinu. Af þeim sökum telja Samtökin tilgangslítið að hleypa af stokkunum hér á landi athugun á kostum og göllum þessara hugmynda.“ Í ljósi þessarar umsagnar er eðlilegt að velta fyrir sér:

 1. Væri það heppilegt ef allar þjóðir fylgdu hver annarri í þekkingarleit sinni, sér í lagi í jafn aðkallandi aðstæðum og heimurinn er í dag varðandi jafn mikilvægt málefni og hér er um að ræða? Sérstaklega í ljósi þess að gamla hagfræðihugsunin, þar sem litið er fram hjá tilurð peninga og skulda í haglíkönum, hefur beðið það skipbrot sem raun ber vitni?
 2. Eðlilegt er að spyrja vegna hvaða „skuldbindinga okkar vegna EES“ SFF er að vísa í? En í 46. gr. 5. kafla samnings um EES segir „Samningsaðilar skulu skiptast á skoðunum og upplýsingum um framkvæmd samnings þessa og áhrif samstarfsins á efnahagsstarfsemi og framkvæmd stefnu í efnahags- og peningamálum. Þeir geta enn fremur rætt stefnu, ástand og horfur í efnahagsmálum. Þessi skipti á skoðunum og upplýsingum skulu fara fram án nokkurra skuldbindinga.“

Að lokum ber að geta að ekkert í ofangreindri þingsályktunartillögu felur í sér breytingu á fjármálaþjónustu á íslandi eins og ofangreind tilvitnun gefur í skyn.

Niðurstaða

Við lestur umsagna SÍ og SFF kemur í ljós að þær fela því ekki í sér rök fyrir því að útgáfa íslensku krónunnar sé betur borgið með lánveitingu hjá einkabönkum en hjá ríkisvaldinu. Þetta þarf ekki að koma á óvart, enda virðast rök fyrir núverandi brotaforðakerfi (e. Fractional reserve banking)  umfram heildarforðakerfi (e. Full reserve banking) fá og veikburða. Aftur á móti bárust fjölmargar umsagnir innlendra og erlendra aðila þar sem færð voru rök með tillögunni.

Persónulega tel ég að þessi kerfisbreyting yrði ekki aðeins til bóta, heldur gæti orðið lykillinn að:

 • lægri skuldastöðu ríkis, fyrirtækja og einstaklinga,
 • lægra vaxtastigi,
 • lægri verðbólgu (með jákvæðum áhrifum fyrir skuldaþróun heimilanna)
 • stöðugra efnahagslífi.

Þessi upptalning hljómar kannski ótrúlega, en hún er meðal annars studd af nýlegri rannsókn tveggja sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þess vegna hvet ég alla sem hafa áhuga á bjartri efnahagslegri framtíð þjóðarinnar að kynna sér málið á www.betrapeningakerfi.is.

Umsögn um stjórnarskrárfrumvarp og peningavaldið

Frosti SigurjónssonUmsögn Frosta Sigurjónssonar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 12. 12 2012:

Peningavaldið – Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 – Mál nr. 415.

Með peningavaldi er átt við valdið til að búa til peninga, eða ígildi peninga, og setja í umferð.

Ógætileg meðferð peningavaldsins er vafalítið ein af höfuðástæðum hrunsins og má færa rök fyrir því að ný stjórnarskrá fjalli um peningavaldið og hvernig skuli koma í veg fyrir að því verði misbeitt. Nánar

Einkabankar búa til lögeyri landsins

Eftir Jón Þór Ólafsson – áður birt í Fréttablaðinu 15. september 2010.

Thomas Jefferson, höfundur sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna og þriðji forseti þeirra, varaði við því að afhenda einkabönkum valdið til að gefa út gjaldmiðil þjóðarinnar. Varúðarorð hans eiga vel við í dag, en hann sagði: „Ef bandaríska þjóðin leyfir einkabönkum nokkurn tíma að stjórna útgáfu þjóðargjaldmiðilsins, fyrst með verðbólgu, síðan með verðhjöðnun, þá munu bankarnir og einkafyrirtækin sem vaxa upp í kringum þá svipta fólkinu öllum þeirra eigum þar til börnin þeirra vakna heimilislaus í landinu sem forfeður þeirra byggðu.”

Nánar