Umsagnir um þingsályktunartillögu

Althingi_logoNíu áhugaverðar umsagnir bárust um þingsályktunartillögu um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar. Skemmst er frá að segja að átta voru jákvæðar í garð tillögunnar og mæltu með samþykki hennar. Sérstaklega var gaman að sjá umsögn Seðlabanka Íslands sem finnst umræðan vera gagnleg og gerði ekki athugasemdir.

Eini aðilinn sem setti sig upp á móti tillögunni var Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF). Eftirfarandi eru viðbrögð okkar við umsögninni. Er hún um margt athyglisverð, eins og hér verður rakið.

Verulegum hluta umsagnar sinnar verja samtökin í að reifa innstæðutryggingakerfi Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Virðast samtökin hafa dálæti á þessum plástri á brotaforðakerfið frá 4. áratugs síðustu aldar, sem settur var á í kjölfar mikillar umræðu þar sem fræðimenn voru frekar á því að fylgja Chicago áætlun Irving Fisher og félaga. Chicago áætlunin laut hinsvegar í lægra haldi og lappað var upp á gamla brotaforðakerfið með innstæðutryggingum. Ronnie J. Phillips gerði ýtarlega skoðun á málinu og setti fram í bók sinni, The Chicago Plan & New Deal Banking Reform, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að Chicago-áætluninni hafi ekki verið hafnað á grundvelli hugmyndafræði, heldur vegna pólitískrar tækifærismennsku (e. political expiency).

SFF viðurkenna vankunnáttu sína á málinu þegar þau segja: “Samtökum fjármálafyrirtækja sýnist að hér séu á ferð hugmyndir sem fyrst voru settar fram árið 1933 af hópi hagfræðinga við Háskólann í Chicago í Bandaríkjunum með Henry Simons í broddi fylkingar.” Opinbera í kjölfarið myrkraskotið með setningunni: “Þess er reyndar ekki getið í þingályktuninni.”

Umsögn sína ljúka samtökin á þeirri fullyrðingu að “skipan fjármálakerfisins hér á landi hljóti að taka mið af því sem gerist á Evrópska efnahagssvæðinu (EES).” Samtökin vísa hins vegar ekki í neina Evróputilskipun eða reglur sem gerir Íslandi skylt að búa við sama form peningaútgáfu. Enda hefur eftirgrennslan forsvarsmanna Betra peningakerfis ekki leitt í ljós að slíkar kröfur séu til staðar.

Þessi eina gagnrýni á þingsályktunartilllöguna ber því með sér að andstaðan við að kanna tækifæri til umbóta á peningakerfinu er verulega veik. Það er því ástæða til bjartsýni á framgöngu málsins hjá Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og Alþingi í kjölfarið.

Grein: Nýtt peningakerfi

GunnarJonsson

Albrecht er viðskiptafræðingur og áhugamaður um betra peningakerfi

Eftir Albrecht Ehmann, einn af okkar fylgismönnum, birtist eftirfarandi grein í Fréttablaðinu og á visir.is í gær. Hér vekur hann máls á þeim möguleika að Sviss verði fyrst þjóða til að taka upp þjóðpeningakerfi sér í lagi í ljósi væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Nýtt peningakerfi

Næstum allt peningamagn í umferð er búið til af viðskiptabönkunum í formi rafrænna peninga (innlána). Rafrænir peningar myndast þegar bankinn býr til í reikning lántakanda við lántöku. Þetta verklag er svokallað brotaforðakerfi sem er við lýði um allan heim. Fyrir daga rafrænna peninga hafði ríkið, í gegnum seðlabankann, einkarétt til að gefa út peninga, þ.e. seðla og mynt.

Árið 1891 tók svissneska þjóðin, með þjóðaratkvæðagreiðslum, valdið til að prenta seðla af bönkunum og flutti til svissneska seðlabankans. Með réttu ætti hið sama að gerast í tilfelli innlána, algengustu peningategundarinnar.

Í svissnesku stjórnarskránni er heimild þjóðarinnar til að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu um lagabreytingar. Niðurstöðurnar eru lagalega bindandi fyrir svissneska þingið. Grasrótarsamtökin „Vollgeld-Initiative“, sem hafa það markmið að færa peningasköpunarvaldið aftur yfir til seðlabankans, hafa nú safnað yfir 100.000 undirskriftum kosningarbærra manna og þannig knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um að taka peningasköpunarvaldið af viðskiptabönkum. Mun atkvæðagreiðslan fara fram á næstu árum.

Sviss gæti því orðið fyrsta landið í heiminum til þess að endurbæta peningakerfið. Einungis seðlabankinn myndi þá koma nýjum peningum í umferð – bæði reiðufé og rafrænum peningum, og hefði þannig meiri stjórn á peningamagni í umferð. Rafrænir og órafrænir peningar yrðu að fullu tryggðir af seðlabankanum ef viðskiptabankar fara í þrot. Hætta á bankaáhlaupum væri úr sögunni. Bankarnir myndu sjá um bankareikninga í fjárvörslu fyrir viðskiptavini – eins og í dag í tilfelli verðbréfa. Þá myndi ríkið fá aftur til sín þann hagnað sem peningasköpun hefur í för með sér og gæti því minnkað skuldsetningu sína verulega. Þetta eru hinir svonefndu þjóðpeningar (e. sovereign money) í stað bankapeninga (e. commerical bank money).

En áður en þetta getur orðið að veruleika og Sviss orðið fyrsta landið sem leggur af brotaforðakerfið sem hefur verið allsráðandi undanfarin 200 ár, þurfa rúmlega tvær milljónir Svisslendinga að greiða nýju peningakerfi atkvæði sitt.

Ný fjármálakreppa er óumflýjanleg

Jóhannes Björn hefur í áraraðir gagnrýnt núverandi peningakerfi sem nú styttist vonandi í að syngi sitt síðasta. Síðastliðinn fimmtudag birtist eftir hann hárbeittur pistill á stundin.is sem við birtum hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Ný fjármálakreppa er óumflýjanleg

johannesbjornÞótt fjármálakreppan í heiminum haustið 2008 hafi verið sú mesta síðan 1929 var hún sennilega miklu háskalegri heldur en ríkisstjórnir almennt viðurkenna. Frekar en að greina orsakir hrunsins og breyta um starfsaðferðir, þá upphófst mikið sjónarspil sem gekk út á það eitt að koma skuldum einkabanka og annarra fjárfesta yfir á herðar skattgreiðenda. Þessi ljóti leikur tryggir að næsta hrun, sem örugglega er ekki langt undan, verður sýnu verra heldur en hamfarirnar haustið 2008.

Harmleikurinn í Grikklandi er gott dæmi um hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig í heimi þar sem elíta sem telur 0,1% fólksfjöldans hefur keypt stjórnkerfið. Í desember 2009 áttu frönsk og þýsk einkafyrirtæki (aðal­lega bankar) €87 milljarða útistandandi í Grikklandi, en í desember 2014 var þessi upphæð komin niður í minna en €15 milljarða — þrátt fyrir sívaxandi skuldir Grikklands. Á meðan einkakapítalið var að skríða í skjól söfnuðu skattgreiðendur Frakklands og Þýskalands ónýtum grískum skuldum upp á yfir €160 milljarða.

Þessi sami leikur — að breyta skuldum einkaaðila í skuldir fólksins — hefur verið leikinn út um allan heim af seðlabönkum, ríkisstjórnum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Markmiðinu er náð með nýjum lánum frá opinberum sjóðum sem leysa gömlu einkalánin af hólmi. Lélegu lánasafni einkaaðila er breytt í opinberar skuldir án þess að eðlilegar afskriftir eigi sér stað. Þessi óbeini þjófnaður eftir krókaleiðum tekur sinn tíma og því hafa heildarskuldir gjaldþrota ríkja stöðugt verið að aukast. Óraunæf lán hækka og vaxtakostnaður bætist við höfuðstólinn. Áður en AGS kom inn í myndina í Grikklandi, sem dæmi, voru skuldir landsins um 115% miðað við þjóðarframleiðslu en í dag eru þær komnar yfir 175% og stefna hratt í 200%.

PIGS löndin (Portúgal, Ítalía. Grikkland og Spánn) eru öll tæknilega gjaldþrota og hafa verið síðan vextir ruku upp á árabilinu 2009-2010. Vextir af grískum ríkisskuldabréfum þrefölduðust til dæmis á þessu tímabili. Árið 2010 hefði verið rétti tíminn til þess að stokka upp allt lánakerfið og ná einhvers konar skynsamlegu jafnvægi, en það hefði þýtt miklar afskriftir hjá bankaelítunni, og því var farin leið sem í raun tryggði áframhaldandi kreppuástand. Gífurleg seðlaprentun síðan 2009 (stafrænar færslur) margra landa í senn — nokkuð sem á sér enga hliðstæðu í peningasögunni eða tæplega $60 trilljónir (evrópskar billjónir), sem samsvarar 15 ára þjóðarframleiðslu Þýskalands) — hefur slegið á sjúkdómseinkenni kreppunnar í augnablikinu. Líkt og afréttari hressir alkóhólista í einhvern tíma.

MYND: STUNDIN / HEIMILD: BIS, BARCLAYS RESEARCH

MYND: STUNDIN / HEIMILD: BIS, BARCLAYS RESEARCH

Skuldadans

Í Evrópu byrjaði seðlabankaballið fyrir alvöru þegar Mario Draghi lofaði mörkuðunum í júlí 2010 að hann ætlaði að „gera allt sem þyrfti“ til að viðhalda stöðugleika. Spákaupmenn og stjórnendur sjóða sáu græna ljósið frá Evrópubankanum og byrjuðu strax að spila á kerfið. Á þessum tíma báru 10 ára ítölsk ríkisskuldabréf um 7,5% vexti — sem verður að teljast vel sloppið hjá þjóð sem gengur í gegnum stöðugar stjórnarkreppur, skuldar allt of mikið, eldist hratt og á litla möguleika á að skapa verulegan hagvöxt — en þessi sömu bréf báru 1% vexti í mars á þessu ári. Spánn og Portúgal gátu líka slegið peninga á gjafavöxtum í krafti loforða seðlabankans.

Yfirborðið var slétt og fellt, en hvert barn gat reiknað út að Grikkland var gjaldþrota 2011 — skuldirnar fóru vaxandi á meðan hagkerfið hrundi og atvinnuleysi náði sömu hæðum og í kreppunni miklu á síðustu öld — en vextir af 10 ára ríkis­skuldabréfum fóru á tímabili undir 5% og grískir bankar gátu gefið út skuldabréf á opnum markaði fyrir hátt í milljarð evra. Lísa var komin í Undraland!

Kjarni málsins hér er auðvitað sá að bankar, sem árið 2009 sátu uppi með ónýt skuldabréf gjaldþrota ríkja, gátu á næstu árum losað sig við þau á ótrúlega góðu verði á gervimarkaði sem Evrópubankinn, nokkrar ríkisstjórnir og AGS höfðu skapað. Til að leiða athygli fólks frá því sem raunverulega var að gerast var rekið áróðursstríð gegn ríkjum Suður-Evrópu, og þá sérstaklega Grikklandi, þar sem íbúunum var stillt upp eins og rauðvínsþambandi letingjum sem skulduðu ráðsettum Þjóðverjum og öðru siðuðu fólki stórfé. Þjóðverjar kusu að gleyma því að þeir höfðu sjálfir fengið afskrifað fjórum sinnum á síðustu öld og voru í mjög svipuðum vanda 1953 og Grikkland í dag þegar þeir fengu að afskrifa hátt í 60% skulda.

Lygaáróðurinn var taumlaus. Grikkir fóru til dæmis ungir á eftirlaun og unnu stutta vinnuviku. Sannleikurinn er hins vegar sá að eftirlaunaaldur í Þýskalandi og Grikklandi er svo til nákvæmlega sá sami þegar meðaltal karla og kvenna er reiknað og Þjóðverjar fá miklu betur borgað. Samkvæmt skýrslu atvinnuráðs ESB vinna Grikkir, sem á annað borð hafa atvinnu, lengri vinnuviku heldur en þekkist í nokkru öðru ríki Evrulands. Skattsvik eru þó raunverulegt vandamál í Grikklandi og sérstaklega munar um að margir milljarðamæringar sem reka skipafélög borga enga skatta og fyrirtæki þeirra ekki heldur. Þessi arðvænlegustu fyrirtæki landsins og eigendur þeirra (þótt margir séu með búsetu í Grikklandi) skila gróðanum til skattaskjóla á aflandseyjum, auk þess sem spilltir pólitíkusar hafa greitt götu þeirra í áraraðir með bitlausum skattalögum.

Áróðursstríðið gegn Grikklandi þjónaði þeim tilgangi að draga athygli fólks frá þeirri staðreynd að hver „björgunarpakkinn“ á fætur öðrum rann að mestu leyti til franskra og þýskra banka. Sáralítið skilaði sér inn í gríska hagkerfið. Harkan átti líka að þjóna sem aðvörun til annarra skuldugra ríkja — borgið eða við eyðileggjum ykkur. En þessi áróður varð líka til þess að almenningsálitið í Þýskalandi og víðar varð svo andsnúið Grikkjum að það var engin pólitísk leið að semja við þá af einhverju viti. Þegar fram líða stundir eiga Þjóðverjar eftir að átta sig á að þeir hafa glatað mildari ímynd sem fyrri kynslóðir stjórnmálamanna hafa byggt upp síðan 1945. Þjóðverjar eru aftur ruddinn í götunni sem heimtar allt og gefur ekkert. Að minnsta kosti verður það skoðun margra þegar flokkar andsnúnir ESB (næst á Spáni og síðan í Frakklandi) vinna hvern sigurinn á fætur öðrum.

Skuldagildra

Hagkerfi landanna gengur reglulega í gegnum efnahagslægðir þegar þau „ofhitna“ og vaxandi verðbólga neyðir seðlabanka til þess að draga úr eftirspurn með hærri stýrivöxtum. Bankahrunið haustið 2008 var hins vegar miklu líkara hruninu 1929 þegar peningakerfið sjálft tók kollsteypu. Bankakerfið — brotasjóðakerfið sem stöðugt býr til nýja peninga og setur í umferð í formi skulda til að mæta nýsköpun eða hækkunum á raunverulegum verðmætum, eins og t.d. fasteignum — blés út fasteignabólu í mörgum löndum með brjálæðislegri hringrás peningamagnsins, þar sem skuldir voru stöðugt seldar til þess að fjármagna næstu umferð æðisins.

Fasteignir byrjuðu að hækka óeðlilega og bankarnir gátu veitt hærri lán út á hærra fasteignaverð. Lánin voru endurseld í afleiðupökkum og þetta nýja peningastreymi varð til þess að það varð mikilvægara að lána hratt frekar en að ganga úr skugga um lánshæfni þeirra sem voru að kaupa eða spá í hvort veðin væru traust eða héldu verðgildi sínu til framtíðar. Skuldabréfavafningarnir (afleiðupakkar) voru seldir sem örugg fjárfesting þótt alls konar ruslapappírum væri vísvitandi sturtað í pakkana. Matsfyrirtæki fengu greitt fyrir að gefa vafningunum einkunn, sem venjulega var AAA eða á borð við bréf traustustu landa.

Peningakerfið hrundi 2008 vegna ofurskulda — lán í umferð voru óviðráðanleg eftir að fasteignabólan sprakk — og þegar slíkt gerist er ekkert annað til ráða heldur en að afskrifa skuldir. Málið getur varla verið einfaldara. En bankaelítan, og sérstaklega þeir sem fjármagna banka með kaupum á skuldabréfum — þetta er sama fólkið og búið er að kaupa pólitíkusa margra landa — kaus að velta skuldunum yfir á skattgreiðendur. Nokkrum milljarðamæringum hefur verið bjargað, en afleiðingarnar verða hrikalegar fyrir allan almenning.

Eftirleikurinn

Síðan 2007 hafa skuldirnar í hagkerfi heimsins vaxið um tæpar $60 trilljónir (evrópskar billjónir) og skuldir á efnahagsreikningum seðlabanka heimsins hafa hækkað úr $3 trilljónum í $22 trilljónir á fimmtán árum. Svokölluð „magnaukning“ peninga sem nokkrir stærstu seðlabankar heimsins hafa staðið fyrir er ekkert annað en tilfærsla auðæva — skuldir gjaldþrota banka hafa í rólegheitum verið færðar yfir á herðar fólksins. Með því að kaupa ríkisskuldabréf milliliðalaust, sem er ekkert annað en hrá peningaprentun, hafa seðlabankar lækkað vexti niður á núllið með handafli. Allir sem eiga sparifé eða sjóði í banka hafa misst af innlánsvöxtum árum saman og tapið nemur hundruð milljörðum dollara. Bankar (sem með réttu áttu að fara á hausinn) fá hins vegar ókeypis peninga í seðlabönkum og kaupa skuldabréf traustra fyrirtækja eða ríkisstjórna sem enn borga vexti. Svokölluð „carry trade“ blómstrar líka á sömu forsendum þegar spekúlantar sækja ódýra peninga í einu landi og selja í öðru þar sem vextir eru hærri.

Síðan haustið 2008 hefur hagkerfi heimsins einkennst af spákaupmennsku og pappírsgróða banka. Fyrirtæki hafa líka tekið sér far á ­hringekjunni og notað ódýri peninga til þess að kaupa önnur fyrirtæki frekar en að reisa nýjar verksmiðjur með tilheyrandi innspýtingu í atvinnulífið. Sem dæmi um hversu afstæðir hlutirnir eru þá gat stórfyrirtækið Nestle nýlega slegið lán á skuldabréfamarkaði sem bar neikvæða vexti. Einhverjir aðilar borguðu fyrirtækinu fyrir að fá að lána því peninga!

Hagkerfið hrundi vegna ofurskulda og því hefur síðan verið haldið gangandi með miklu meiri skuldum. Við skulum ekki blekkja sjálf okkur eða láta blekkjast af áróðri elítunnar sem græðir á „magnaukningu“ og vöxtum sem stanslaust stela sparifé fólks. Þetta kerfi hrynur og það er ekki langt í að hjörðin snúi baki við ruslabréfum sem bera fáránlega lága vexti og ríkisskuldabréfum sem seðlabankar niðurgreiða. Draumurinn um að uppskera hagsæld og endalausan hagvöxt með hrárri peningaframleiðslu hefur oft skotið upp kollinum síðan menn lærðu að sletta bleki á annars verðlausan pappír … en sá draumur hefur alltaf endað með óskaplegri martröð.

Jóhannes Björn er höfundur bókarinnar Falið vald, þar sem hann greindi íslenskt valdakerfi árið 1979.

Í tilefni af gagnrýni

LjósaperaÍ kjölfar skýrslu Frosta Sigurjónssonar um peningakerfið hefur myndast nokkur umræða um hana og efni hennar. Ánægjulegt er að sjá hversu margir hafa tekið skýrslunni opnum örmum og hvetja til frekari umræðu. Má þar t.a.m. nefna Magnús Halldórsson, Hannes Hólmstein Gissurarson, Max Ehrenfreund hjá Washington Post og Zerohedge. Nauðsynlegt er þó að umræðan byggist á réttum upplýsingum og að gagnrýni á hugmyndirnar sé svarað. Í því ljósi er eftirfarandi athugasemdum komið á framfæri varðandi gagnrýni á efnisatriði skýrslunnar. Með þessu viljum við hvetja alla til þess að kynna sér efni hugmyndanna og að halda uppi upplýstri umræðu byggt á staðreyndum.

Ásgeir Jónsson

Tilvitnun:
Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 lét Ásgeir Jónsson, lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands, hafa eftir sér að við upptöku þjóðpeningakerfis „fer greiðsluþjónustan í rauninni frá bönkunum.

Athugasemd:
Hið rétta er að undir þjóðpeningakerfinu verða peningar aðgengilegir heimilum og fyrirtækjum í gegnum viðskiptabanka með sama hætti og í dag. Fjallað er um málið í kafla 7.2.1. um færslureikninga og hvernig þeir eru notaðir í viðskiptum í kafla 7.3.1. Meira gegnsæi felst í þjóðpeningakerfi þar sem bankarnir myndu innheimta þóknun fyrir greiðsluþjónustuna, en sá kostnaður er falinn í vaxtamun bankanna í brotaforðakerfinu.

Tilvitnun:
Í sama viðtali svaraði Ásgeir jákvætt spurningu fréttamanns þess efnis að „…þannig að öll viðskiptabankastarfsemi, veiting yfirdráttar, útlána og svo framvegis fer frá viðskiptabönkunum til seðlabankans?

Athugasemd:
Þetta er í mótsögn við kafla 7.3 skýrslunnar, þar sem lýst er hvernig lánastarfsemi bankanna fer fram undir þjóðpeningakerfi. En hún mun fara fram með sambærilegum hætti og fjölmörg lánafyrirtæki stunda í dag, þar sem gengið er frá fjármögnun áður en lánveiting er veitt.

Tilvitnun:
Í rammagrein í Viðskiptablaðinu þann 1. apríl kemur fram í viðtali við Ásgeir að „Í stuttu máli sagt yrði bönkum bannað að stunda tímaumbreytingu með upptöku þjóðpeningakerfis.

Athugasemd:
Þjóðpeningakerfið mun ekki fela í sér bann við tímaumbreytingu, eins og fjallað er um í köflum 7.3.4 og 9.5.1.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, setti fram gagnrýni í grein sinni á Pressunni.

Tilvitnun:
„Hugmyndir hans eru að verulegu leyti kenning sem hafnað var fyrir um átta áratugum.“

Athugasemd:
Fyrst ber að benda á að ekki er um hugmyndir Frosta að ræða, heldur tekur hann upp hugmyndir sem hafa verið útfærðar af Positive Money. Hér er Jón eflaust að vísa til Chicago-áætlunarinnar sem Irving Fisher var ötull talsmaður fyrir á fjórða áratugnum. Þar ber tvennt að hafa í huga:

 • Þó þjóðpeningakerfi snúist um að færa vald til peningaútgáfu frá bönkunum til ríkisins er það í grundvallaratriðum frábrugðið Chicago-áætluninni eins og Andrew Jackson hefur t.a.m. tekið saman. Chicago-áætlunin gengur út á að bankar eigi innstæður í seðlabanka að fullu á móti innlánum en í þjóðpeningakerfi eru peningarnir á efnahagsreikningi seðlabanka, sem færslureikningar, sbr. kafla 7.2.1 en ekki skuld á efnahagsreikningum bankanna, líkt og í núverandi kerfi.
 • Chicago áætluninni var ekki hafnað með skýrum málefnalegum rökum eins og prófessor Ronnie J. Philips fer ítarlega yfir í ritgerð sinni, „The ‘Chicago Plan’ and New Deal Banking Reform“. Niðurstaða hans er að Chicago-áætluninni hafi ekki verið hafnað á grundvelli hugmyndafræði, heldur vegna pólitískrar tækifærismennsku. Mikilvægt er að tryggja að það endurtaki sig ekki nú:
  • „The Chicago plan for radical banking was well known at the highest levels of government during the period 1933-35 and, though the plan called for radical changes’, the early New Deal probably offered the best chance for radical reforms to be undertaken. The question is thus why did the Chicago plan lose out?
   The answer, on one level, should be of no surprise: it lost as a matter of pure political expediency. It is important to note that it did not lose because the principles of the plan were rejected. In fact, the banking legislation passed during the period moved in part toward the Chicago plan reforms. Tugwell though that radical reform seemed like such a remote possibility, that Roosevelt abandoned any such attempts and opted for “simple restoration of a system people understood under conditions which would assure them of future safety” [Tugwell 1957: 2641.“

Tilvitnun:
„Af skýrslunni má álykta að ekki verði ráðist í slíka umbreytingu [innsk: upptöku þjóðpeningakerfis] í einu landi út af fyrir sig,…“

Athugasemd:
Jón rökstyður ekki þessa fullyrðingu, en kerfisbreytingin mun ekki hafa áhrif á milliríkjaviðskipti og ekki verður séð að hún feli í sér brot á ákvæðum EES samningsins, breytingarnar fela í sér þrengri skorður á bankana en í evrópska regluverkinu. Fjallað er um kerfisbreytingarnar í alþjóðlegu samhengi í kafla 9.5.8.

Tilvitnun:
„Í fyrsta lagi er þetta nýja kerfi miklu þyngra og flóknara en aðgerðir sem þegar eru hluti af núverandi tilhögun. Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands hafa tæki og umboð til að :
– ákveða hærri eiginfjárhlutföll banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða hærri lausafjárhlutföll banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða breytingar á reglum um gjaldeyrisjöfnuð banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða reglusetningu um tímafylgni innstæðna og útlána banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða reglusetningu um sérhæfingu banka og aðgreiningu í verkssviðum.
Ekki verður séð annað en slíkar aðgerðir muni ná sama árangri og Frosti vill stefna að – en með miklu minni tilkostnaði, fyrirhöfn og töf.“

Athugasemd:
Ekkert þeirra tækja og umboða sem Jón tilgreinir tekur á þeim atriðum sem breytingarnar snúa að, þ.e. að bankarnir hafi umboð til að skapa peninga með því að lána þá í umferð. Heldur taka þessir liðir á getu þeirra til peningasköpunar, sem hefur verið með takmörkuðum árangri eins og rakið er ítarlega í bók New Economics Foundation, Where Does Money Come From? og í umfjöllun Bank of England um peningasköpun frá 2014.

Tilvitnun:
„Í öðru lagi er óljóst hvernig nýtt þjóðpeningakerfi fellur að viðskiptalífi sem einkennist mest af kortagreiðslum og rafeyri.“

Athugasemd:
Eina breytingin sem breytingarnar fela í sér fyrir viðskiptalífið felst í að rafrænir peningar, sem í dag eru í formi innlána bankanna, verða í formi rafrænna peninga í útgáfu seðlabankans. Sjá nánar kafla 7.3.
Tilvitnun:
„Erfitt er að hugsa sér hvernig viðbrögð kerfisins eiga að geta mætt daglegum öldugangi í viðskiptum nú orðið, einkum ef allar ákvarðanir verða miðlægar í Seðlabankanum og tengdar pólitískum stjórnvöldum, eins og Frosti virðist gera ráð fyrir.“

Athugasemd:
Einu ákvarðanirnar sem fara fram innan seðlabankans, samkvæmt skýrslunni, snúa að aukningu peningamagns. Öll viðskipti á mörkuðum með vörur og þjónustu verða með sama hætti og nú er.

Tilvitnun:
“Í þriðja lagi verður að telja þetta miðlæga þjóðpeningakerfi þungt í vöfum og ósveigjanlegt. Erfitt er að geta sér til um lipurð þess til að bregðast við nýsköpun í atvinnulífi, tilraunastarfsemi sem felur áhættu í sér, eða hvernig það bregst við eftirspurn atvinnulífsins eftir auknu vinnumagni og þar af leiðandi hækkandi tilkostnaði. Í frjálsu athafnalífi eru slíkar ákvarðanir ófyrirsjáanlegar og algerlega ófært að setja þær undir skriffinnsku.”

Athugasemd:
Hér virðist Jón vera að hugsa til fjármögnunar tiltekinna aðila viðskiptalífsins. Fjölmargir sjóðir og stofnanir eru starfræktar í dag sem styðja við nýsköpun í atvinnulífi og áhættutöku. Kerfisbreytingarnar fela ekki í sér breytingar varðandi þjónustu við þá aðila sem Jón nefnir. Hvað kostnað varðar þá, þvert á það sem Jón segir, sparast vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja í landinu sem við teljum vera að lágmarki 80 þ.kr. á hvern vinnandi einstakling. Þá verður ekki séð hvernig skriffinnska ætti að aukast við breytingarnar, fyrir utan fundargerðir peningamagnsnefndarinnar til að tryggja gegnsæi.

Tilvitnun:
“Í fjórða lagi virðist slíkt miðlægt kerfi fela í sér ýmsa nýja kostnaðarþætti, þó ekki væri nema miðlæg gagnaöflun og úrvinnsla. Flest bendir því til að það valdi vaxtahækkun frekar en vaxtalækkun. Þetta verður þá ekki heldur til að styrkja gengi gjaldmiðilsins, jafnvel þótt stöðugleiki náist.
Í fimmta lagi felst það í hugmyndunum að allar ákvarðanir – dag frá degi og yfir daginn – verði teknar miðlægt í Seðlabankanum og pólitísk stjórnvöld eigi þar hlut að máli. – Trúir því nokkur maður að þá aukist viðbragðshraði, viðnám, festa og stöðugleiki? Trúa menn því að þá verði teknar ákvarðanir sem aðeins miðast við hagræn sjónarmið? Trúa menn því virkilega að þá verði hugsað til langs tíma í ráðstöfunum og staðið gegn skyndikröfum hagsmunaaðila?”

Athugasemd:
Ákvarðanir við lánveitingar verða áfram alfarið á höndum bankanna og annarra fjármálafyrirtækja. Því eru ofangreindar áhyggjur Jóns ástæðulausar.

Max Ehrenfreund hjá Washington Post

Þó Max taki undir mörg sjónarmið hugmyndanna er að finna nokkra gagnrýni í grein hans

Tilvitnun: 
“Central bankers can make mistakes just as easily as private bankers can. They might be reluctant to deflate bubbles if things seem to be going well outwardly, and they might respond too slowly in a crisis. Of course, these are problems with the existing banking system as well, but they’d be exaggerated under sovereign money.”

Athugasemd:
Ávallt verður hætta á mistökum þegar maðurinn kemur að ákvörðunum sem þessum. Hér er hins vegar mikilvægt að horfa á hvata þeirra sem taka ákvarðanirnar. Hvort er líklegra að stöðugleika verði viðhaldið þegar peningamagni er stýrt af:

 • Hópi manna með stöðugleika að markmiði, sem hafa aðeins hagsmuni af stöðugleika, eða
 • Hópi manna innan bankanna með hámörkun hagnaðar umbjóðenda sinna að markmiði, líkt og í núverandi kerfi?

Tilvitnun:
Eftirfarandi er haft eftir Ted Truman, fyrrverandi hagfræðingi Bandaríska seðlabankans:

“You essentially don’t have a banking system. You would have, actually, an almost Soviet-style banking system,” og “It’s a monobank, in the terms of Russia, the former Soviet Union.”

Athugasemd:
Vinsælt er að líkja hugmyndunum um þjóðpeningakerfi við gamla Sovétkerfið. Hins vegar stenst samanburðurinn ekki skoðun, eins og við höfum áður rakið.

Tilvitnun:
Í sömu grein er haft eftir Truman: “It’s not that the central bank couldn’t control the expansion of credit. It’s that they didn’t control the expansion of credit.”

Athugasemd:
Virkni stýritækja seðlabankans er mjög umdeild og færir Frosti rök fyrir því að viðskiptabankarnir stýri í reynd peningamagninu í kafla 5.3. Í þessu samhengi má einnig benda á umfjöllun Ólafs Margeirssonar um áhrifaleysi bindiskyldunnar. Þá ber þróun útlána innlánsstofnana í aðdraganda hrunsins á sama tíma og seðlabankinn varaði ítrekað við henni er ljóst að áhrif bankans eru minni en margir telja.

f.h. Betra peningakerfis,
Sigurvin Bárður Sigurjónsson

Peningakerfið og neikvætt sjóðstreymi banka

Asgeir TorfasonÍ Morgunblaðinu í dag var áhugaverð umfjöllun um doktorsritgerð Ásgeirs Brynjars Torfasonar, þar sem hann fjallar um sjóðstreymi í bönkum.  Þar segir meðal annars:

Könnun Ásgeirs á ársreikningum átta stærstu banka Norðurlandanna leiddi í ljós að fjórir stærstu bankar Svíðþjóðar voru með neikvætt sjóðstreymi frá rekstri í átta ár af tíu. “Þrátt fyrir það gátu þeir alltaf fjármangað sig og enginn gerði athugasemdir við þetta.”

Ásgeir bendir á að geta bankanna til þess að vera með neikvætt sjóðsstreymi frá rekstri felist í peningasköpun þeirra:

“Bankar þurfa ekki að taka við sparnaði til að veita lán, heldur geta þeir einfaldlega lánað út nýja peninga gegn skuldabréfi sem myndar innstæðu á reikningi lántakandans.” Skuldabréfið skapi eign á efnahagsreikningi bankans þar sem um sé að ræða skuld við bankann, innstæða lántakandans sé skuld bankans á móti. “Þetta felur í sér að enginn sparifjáreigandi hafi fyrst þurft að leggja inn peninga til hliðar fyrir láninu.” Ásgeir segir þessa staðreynd útskýra hvers vegna bankar geti verið með langvarandi neikvætt sjóðsstreymi frá rekstri. 

Gaman að sjá þennan vinkil Ásgeirs á peningakerfið sem undirstrikar enn og aftur veikleika þess.

Huber svarar gagnrýni

Joseph HuberEftir því sem hugmyndir Positive Money o.fl. um breytingar á peningakerfinu hafa hlotið aukinn hljómgrunn hafa hagfræðingar og aðrir sérfræðingar fundið sig knúna til þess að opinbera skoðanir sínar á málefninu. Eins og oft vill verða þegar nýjar hugmyndir eru settar fram hafa ekki allir tök á að kynna sér málin í þaula áður en haldið er út á ritvöllinn. Prófessor Joseph Huber hefur nú ritað grein undir yfirskriftinni “Sovereign Money in Critical Context” þar sem farið er ítarlega yfir algengan misskilning og helstu gagnrýni á það sem hann kallar fullveldismynt (e. sovereign money). Skyldulesning fyrir efasemdamenn.

Hér má svo nálgast umfjöllun Positive Money um greinina.

Forréttindi á lánamörkuðum

Image

VB_logoEftirfarandi grein um einkarétt til peningasköpunar og áhrif á peningamagn, verðbólgu og gengi krónunnar, birtist í Viðskiptablaðinu í dag, 7. ágúst 2014.

Forréttindi á lánamörkuðum

Nýlega jukum ég og viðskiptabankinn minn peningamagn í umferð um 17 milljónir króna. Þessi aðgerð mun fyrirsjáanlega hafa áhrif á peningamagn, verðbólgu og gengi krónunnar, þó lítil séu. Hún kristallar einnig lögbundið samkeppnisforskot innlánsstofnana á lífeyrissjóði og önnur fjármálafyrirtæki á fjármálamörkuðum.

Ég vildi endurfjármagna verðtryggt lán hjá lífeyrissjóði með óverðtryggðu láni. Þar sem aðeins viðskiptabankarnir veita óverðtryggð lán leitaði ég til þeirra. Þegar endurfjármögnun sem þessi fer fram gefur bankinn út nýja peninga í formi innlána til uppgreiðslu lífeyrissjóðslánsins og því eykst peningamagn í umferð. Þetta orsakast af því að bankinn er innlánsstofnun, en einungis innlánsstofnanir hafa þennan rétt til þess að búa til innlán samhliða lánveitingum á meðan aðrir aðilar á lánamörkuðum fjármagna sín útlán fyrirfram.

Við lánveitinguna stækkar efnahagsreikningur bankans sem nemur höfuðstól lánsins. Bankinn fær vaxtamun af láninu og hagnaðurinn eykst til framtíðar. Lífeyrissjóðurinn þarf hins vegar að finna fjárfestingarkosti fyrir nýju peningana eftir endurfjármögnunina og það verður erfiðara fyrir hann að ná settu ávöxtunarviðmiði.

Nýju peningarnir leita því inn á verðbréfamarkaðina og auðvelda fyrirtækjum og opinberum aðilum fjármögnun sína. Í kjölfarið eru þeir svo m.a. nýttir í fjárfestingar eða útgjöld viðkomandi aðila. Nýju peningarnir leita ávallt á endanum út í raunhagkerfið eins og vatnið til sjávar. Áhrifin eru því fyrst í formi hækkandi eignaverð á verðbréfamörkuðum og þegar peningarnir ná inn í raunhagkerfið fylgir verðbólga. Vegna lögmálsins um kaupmáttarjafnvægi (Purchase Power Parity – PPP) myndast í kjölfarið þrýstingur til veikingar krónunnar, þó áhrifin séu hverfandi til skemmri tíma í núverandi haftaumhverfi.

Lítil ástæða er til að hafa áhyggjur af gengisfalli vegna lántöku minnar, enda er hún mjög lítil í hlutfalli við peningamagnið. Líkt og að hella sentilíter af vatni í baðkar. En eins og við Íslendingar þekkjum vel hafa lánveitingar bankanna tilhneigingu til að ganga í sveiflum. Það er því eðlilegt að velta fyrir sér hversu mikinn þátt peningasköpun hefur átt í falli krónunnar í gegnum tíðina? Ef sveiflur í peningamagni og gengi krónunnar eru skoðaðar yfir áratugina þá hefur fylgnin verið mjög sterk:

Peningamagn_verdbolga_gengi kronuAð ofangreindu hljótum við því að spyrja:

 • Hvers vegna ættu lánveitingar einkaaðila að hafa áhrif á peningamagn?
 • Hvers vegna ættu lánveitingar eins aðila að hafa áhrif á peningamagn en ekki annars?
 • Af hverju skyldu bankarnir hafa samkeppnisforskot á önnur fjármálafyrirtæki í formi peningasköpunar sem fjármögnunarform?
 • Hvernig er unnt að stýra peningamagninu betur og minnka þannig hættuna á falli krónunnar í framtíðinni?

Hér hefur verið tæpt á einum galla peningakerfisins, en því miður eru þeir mun fleiri, eins og fjallað er um á heimasíðu átaksins Betra peningakerfi, https://betrapeningakerfi.is/.

Sigurvin Bárður Sigurjónsson

Formaður átaksins Betra peningakerfi og sérfræðingur á ráðgjafarsviði KPMG. Skoðanir í greininni eru settar fram á ábyrgð höfundar.

 

Að bjarga bönkum

Eftirfarandi grein um hið brothætta peningakerfi birtist í Morgunblaðinu í dag, 7. maí 2014. Við birtum hana hér með góðfúslegu leyfi höfundar, Viðars Helga Guðjohnsen.

Að bjarga bönkum

Viðar H. GuðjohnsenNú eru rúmlega fimm ár frá því að íslensku bankarnir hrundu, rúmlega fimm ár frá því ríkistjórn Íslands áréttaði í fréttatilkynningu að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu og rúmlega fimm ár frá því að þáverandi ríkisstjórn ákvað að bjarga bankakerfinu.

Nú fimm árum seinna skuldar ríkissjóður, sem stuttu fyrir hrun var því sem næst skuldlaus, svo mikið að hætta stafar af. Til að gera sér grein fyrir því hversu mikil byrði sú skuld er á landsmönnum greiðir ríkissjóður tugi milljarða árlega í vaxtagreiðslur en þær eru nú einn stærsti einstaki útgjaldaliður ríkissjóðs.

Það að bjarga bönkunum var sannarlega dýrkeypt og því er ekki furða að menn með einhvern vott af siðferðisvitund stígi fram og krefjist þess að í framtíðinni verði banka- og peningakerfinu breytt. Einn slíkur, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, steig fram í fjölmiðlum fyrir ekki svo löngu og talaði fyrir því að bönkum, öðrum en Seðlabanka Íslands, yrði bannað að búa til innstæður. Reyndar hefur nefndarformaðurinn, sem er rekstrarhagfræðingur að mennt, lengi vel staðið fyrir fræðslu á peningakerfinu í fjölmiðlum og talað fyrir umbótum sem myndu hugsanlega rétta af skuldastöðu ríkissjóðs og minnka verðbólgu. Kom nefndarformaðurinn í fyrrgreindu viðtali inn á mikilvægan orsakaþátt í hruni íslenska bankakerfisins, það er að segja leyfi banka til að búa til innstæður.

Til þess að fara stuttlega yfir okkar peningakerfi stýrir Seðlabanki Íslands því seðla- og myntmagni sem er í umferð á hverjum tíma. Það er að segja að til þess að koma í veg fyrir óhóflega peningaprentun er engum öðrum en Seðlabanka Íslands heimilt að prenta eða slá okkar gjaldmiðil. Seðla- og myntmagn er þó aðeins lítill hluti þess heildarpeningamagns sem er í umferð á hverjum tíma þar sem bankar hafa það vald að geta búið til innstæður. Eru innstæður í raun ígildi peninga þar sem fyrir utan að að þær eru gjaldgengar í viðskiptum má greiða skatta með þeim. Þessi framleiðsla á innstæðum er hluti þess ferlis sem fer af stað við það að einstaklingur tekur lán hjá banka.

Þetta leyfi til að búa til innstæður var misnotað með svo miklum ofsa á góðærisárunum að sjálfur þjóðargjaldmiðillinn, eftir hávaxtastefnu sem orsakaði mikið innstreymi gjaldeyris sem sópaði verðbólgunni tímabundið undir teppið, lenti í miklum háskadansi með áhrifum sem sendu þjóðina í einkar óvelkomna spennitreyju gjaldeyrishafta.

Þetta vald banka til að búa til innstæður er stór galli í núverandi banka- og peningakerfi, galli sem lýsir sér í því að bankar á góðæristímum þenja út peningakerfið eins mikið og þeir geta allt þar til þeir standa á brauðfótunum einum. Svo þegar allt hrynur er skattgreiðandinn látinn borga brúsann.

Í okkar samfélagi eru peningaseðlar ekki notaðir í viðskiptum nema að litlu leyti. Flest öll viðskipti fara fram rafrænt í formi kortaviðskipta eða millifærslu á rafrænum innstæðum. Í góðæri þegar mikið traust er til banka halda slík viðskipti áfram án sjáanlegra vankvæða en þegar kreppir að snýst dæmið við, vantraust skapast og menn vilja í auknum mæli sjá reiðufé eða jafnvel flytja fé sitt til annarra landa þar sem ávöxtun er betri.

Við munum öll eftir því hvað gerðist við fall íslensku bankanna. Þá hvarf traustið og allir vildu taka út reiðufé sitt þótt augljóslega gæti aðeins lítill hluti fengið sitt kærkomna reiðufé þar sem reiðufé á hvern fjárráða landsmann ekki nema örlítill hluti af lausu bankainnstæðunum.

Í raun má segja að jafnvel þótt viljinn væri fyrir hendi þá gæti sitjandi ríkisstjórn, með einhvern vott af skynsemi, ekki gert neitt annað en að skerast í leikinn og bjarga bönkunum með einum eða öðrum hætti sé bankakreppa í uppsiglingu. Slík björgun er þó ekki án vankvæða heldur er hún í formi margra ára skuldsetningar með tilfallandi lífskjaraskerðingu.

Það gengur ekki mikið lengur að bankar geti búið til ígildi peninga í formi innstæðna, lánað innstæðurnar út verðtryggðar á himinháum vöxtum, þanið út kerfið, stuðlað að efnahagslegum óstöðugleika, þrýst á magnþrungnar eignatilfærslur sem enda allar á því að bankinn verður ríkari og valdameiri á meðan flestir þeir sem taka lán frá bankanum verða skuldsettari og efnaminni.

Mörg teikn eru á lofti um að bankarnir séu að hefja annað skeið taumlausrar framleiðslu á innstæðum og ef ekkert verður gert mun það hafa afdrifaríkar afleiðingar. Við skulum vona svona stuttu eftir hrun að ráðamenn þjóðarinnar sofi ekki á vaktinni.

Raunhæf lausn er í boði eins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis kom inn á og í henni felst að banna bönkum, öðrum en Seðlabanka Íslands, að búa til innstæður. Með því er enginn að tala fyrir því að bönkum verði bannað að lána, aðeins að þeir þurfi að eiga fyrir láninu sem þeir ætla sér að lána eða með öðrum orðum að það sé raunveruleg innstæða fyrir innstæðunni.

 

Hagsmunir hins vinnandi manns

krofuganga-klipptÍ tilefni dagsins er ekki úr vegi að fara yfir hagsmunina felast í peningakerfinu fyrir hinn vinnandi mann.

Miðað við núverandi vaxtamun bankanna (3,5%) og lausar innstæður upp á 900 ma.kr. eru hreinar vaxtatekjur bankanna vegna útgáfu lausra innstæðna (peninga) um 31,5 ma.kr. Þetta er varfærið mat, enda bera innstæður umtalsvert lægri vexti en aðrar skuldir bankanna og vaxtamunur af peningaútgáfunni er því meiri.

Greiðendur þessara umframvaxtatekna eru heimili, fyrirtæki og opinberir aðilar. Við nánari skoðum kemur hins vegar í ljós að fyrirtæki og opinberir aðilar velta vaxtagjöldum sínum út í verð vöru og þjónustu, útsvarshlutföll, gjaldskrár, o.s.frv. Á endanum er það því hinn vinnandi maður sem greiðir vaxtatekjur bankanna vegna peningamagnsins að fullu, annað hvort í gegnum vaxtagreiðslur af eigin lánum eða hærra verðlag og aukna skattbyrði.

Í landinu eru 176.200 manns starfandi, skv. Hagstofu Íslands. Að ofangreindu ber hver starfandi einstaklingur því aukna byrði vegna peningaútgáfu bankanna upp á 179 þ.kr. árlega (15 þ.kr. mánaðarlega), m.v. núverandi aðstæður. Á hverja 4 manna fjölskyldu, þar sem báðir eru vinnandi eru þetta 358 þ.kr. árlega (30 þ.kr. mánaðarlega). Af hverju skyldum við greiða bönkunum slíka fjárhæð árlega fyrir það eitt að gefa út gjaldmiðilinn okkar?

En það kemur fleira til. Peningakerfið breikkar bilið milli ríkra og fátækra á hverjum degi í gegnum vaxtagreiðslur frá skuldurum til bankanna, eins og Positive Money hefur tekið svo vel saman (sjá einnig íslenskan texta).

Af hverju skyldum við sætta okkur við þetta fyrirkomulag? Af hverju látum við ekki hið opinbera sjá um útgáfu gjaldmiðilsins í þágu okkar allra með gegnsæjum hætti? Sem betur fer er brotaforðakerfið ekki meitlað í stein eða stjórnarskrá. Við búum í lýðræðisríki og getum breytt þessu með lagasetningu.

Um leið og ég óska launafólki um land allt til hamingju með daginn vona ég að okkur beri gæfa til að breyta rétt í framtíðinni.

f.h. Betra peningakerfis,

Sigurvin B. Sigurjónsson

Ábendingar til vísindavefur.is og spyr.is

Kennimerki EnglandsbankaEnglandsbanki hefur með grein sinni “Money creation in the modern economy” tekið af allan vafa um hvernig peningar verða til og hver völd einkabanka eru í því samhengi. Lýsing Englandsbanka er ekki í samræmi við það sem almennt hefur verið samþykkt. Hér verða tekin tvö dæmi þar sem lýsingar á síðum spyr.is og vísindavefur.is voru ekki í samræmi við lýsingar Englandsbanka í veikamiklum atriðum. Í tilfellum beggja ábendinga er geta bankakerfisins til þess að stýra peningamagni (og um leið skuldsetningu þjóðarinnar og tekjugrunni sínum) vanmetin. Þessi atriði skipta því verulegu máli í allri umræðu um kerfið. Ábendingar þessa efnis hafa verið sendar til umsjónarmanna vefjanna.

Taka skal fram að neðangreindar ábendingar fela ekki í sér ádeilu á pistlahöfunda spyr.is eða vísindavefur.is. Skilningur þeirra er í samræmi við það sem hefur verið almennt samþykkt meðal hagfræðinga. Hins vegar er réttur skilningur á virkni núverandi peningakerfis grundvöllur umræðu um ágalla þess og hvaða breytingar geta hentað hagkerfinu og þjóðfélaginu betur. Því er neðangreindum ábendingum komið á framfæri með von um að efnisleg umræða fari fram um þessi atriði.

Ábending 1: Hvernig peningar koma í umferð

Almennt hefur verið álitið að ný innlán (peningar) verði til þegar bankar láni út innlán sín sem skili sér aftur að hluta til bankanna í formi nýrra innlána, sem unnt er að lána út að nýju og svo framvegis, sbr. lýsingu spyr.is:

Þótt peningar fari út í hagkerfið í gegnum viðskipti seðlabankans er sagan þó aðeins flóknari.  Þannig geta innlán bankanna myndað útlánagetu sem að öllum líkindum leiðir til aukinna útlána.  ,,Það útlán myndi síðan leiða til nýs innláns og aukningar seðla í umferð og það innlán myndi leiða til nýs útlán og þannig koll af kolli.”

Vísindavefur.is tekur í sama streng:

Ef seðlabanki lætur aukið magn af seðlum og mynt í umferð þá eykst innstæða á margs konar reikningum mun meira vegna svokallaðra margfeldisáhrifa. Það gerist til dæmis vegna þess að þegar einn aðili leggur fé inn á bankareikning þá lánar bankinn hluta fjárins út aftur. Sá sem fær féð að láni eða viðskiptavinir hans leggja svo aftur einhvern hluta þess sem þeir fá inn á bankareikninga. Það fé er svo aftur lánað út og þannig koll af kolli. 

Samkvæmt grein Englandsbanka skapa bankar hins vegar ný innlán um leið og þeir veita ný lán (bls. 2):

This article explains how, rather than banks lending out deposits that are placed with them, the act of lending creates deposits — the reverse of the sequence typically described in textbooks.

Ábending 2: Hvernig peningamagni er stýrt

Á spyr.is er peningamargfaldaranum lýst, sem finna má í flestöllum kennslubókum í hagfræði og hefur verið álitinn lykilatriði við stjórnun peningamagns:

Sé kvöð á viðskiptabönkum að halda lausafjárforða vegna innlána eða krafa um að leggja tiltekinn hluta hvers innláns inn í seðlabanka (bindiskylda) myndi það sem hægt væri að lán út í hverri umferð minnka sem því næmi.  Þetta er hinn svokallaði peningamargfaldari sem endurspeglar getu viðskiptabankanna til þess að auka peninga í umferð, peninga í skilningi samtölu seðla og myntar og innlána.  Sú margföldun byggir þó ávalt á aukningu sem í upphafi kemur frá seðlabankanum sjálfum. 

Þetta er í samræmi við lýsingu vísindavefur.is, þar sem tekið er dæmi um kerfi þar sem 10% bindiskylda er við lýði:

Seljendur gæðanna leggja peningana annaðhvort inn á bankareikning eða kaupa enn önnur gæði og þannig koll af kolli. Ef einstaklingar og fyrirtæki auka ekki seðlaeign sína vegna þessa hljóta innstæður í Bankanum á endanum einnig að aukast um sömu upphæð. Af þeirri upphæð leggur Bankinn tíu milljónir inn á reikning sinn í Seðlabankanum eins og honum er skylt og lánar viðskiptavinum sínum afganginn, níutíu milljónir. Þeir nota þessar níutíu milljónir í kaup á margs konar gæðum eða leggja þær inn á bankareikninga eins og áður og innlegg í Bankanum aukast um níutíu milljónir. Af þeirri upphæð fara níu milljónir inn á reikning í Seðlabankanum en útlán aukast um 81 milljón. Þannig heldur ferlið áfram og í hverjum hring eykst peningamagn um 90% af því, sem það jókst um í næsta hring á undan. Hægt er að sýna fram á að á endanum hefur peningamagn aukist um einn milljarð. Heildaraukningin fæst með því að deila upp í upprunalegu peningamagnsaukninguna, 100 milljónir, með bindiskylduhlutfallinu, 10% eða 0,1, samanber: 100.000.000/0,1 = 1.000.000.000.

Hér er gengið út frá því að seðlabanki stýri peningamagni með peningamargfaldaranum og magni innlána viðskiptabanka hjá seðlabankanum. Samkvæmt grein Englandsbanka geta seðlabankar hins vegar hvorki, né reyna, stýrt peningamagni með þessum hætti, þar sem viðskiptabankar stýra magni innlána á viðskiptareikningum sínum hjá seðlabankanum. Eftirspurn þeirra eftir innlánum veltur hins vegar á stýrivöxtum (inngangur á síðu 2):

In reality, neither are reserves a binding constraint on lending, nor does the central bank fix the amount of reserves that are available. As with the relationship between deposits and loans, the relationship between reserves and loans typically operates in the reverse way to that described in some economics textbooks. Banks first decide how much to lend depending on the profitable lending opportunities available to them — which will, crucially, depend on the interest rate set by the Bank of England. It is these lending decisions that determine how many bank deposits are created by the banking system. The amount of bank deposits in turn influences how much central bank money banks want to hold in reserve (to meet withdrawals by the public, make payments to other banks, or meet regulatory liquidity requirements), which is then, in normal times, supplied on demand by the Bank of England.