Skuldlaus peningaútgáfa rædd á Evrópuþinginu

qe4p_1Miðvikudaginn 17. febrúar 2016 var haldin athyglisverð ráðstefna á Evrópuþinginu undir yfirskriftinni „magnbundin íhlutun í þágu almennings“ (e. Quantitative Easing For the People). Ráðstefnan var í boði Evrópuþingmannanna Molly Scott Cato, Paul Tang, og Fabio De Masi. Aðrir þáttakendur í pallborði voru:

  • Richard Werner, prófessor við Háskólann í Southampton,
  • Eric Lonergan, vogunarsjóðsstjóri hjá M&G,
  • Frances Coppola, dálkahöfundur,
  • Frédéric Boccara, ráðgjafi frönsku ríkisstjórnarinnar og
  • Frank van Lerven, sérfræðingur hjá Positive Money

Árangurinn af hefðbundinni magnbundinni íhlutun (e. Quantitative Easing) hefur að margra áliti verið afar takmarkaður síðastliðin ár í Evrópu, en aðgerðirnar fela í sér útgáfu nýrra peninga (grunnfjár) seðlabanka sem veitt er inn á fjármálamarkaði með skuldabréfakaupum. Magnbundin íhlutun í þágu almennings felur hins vegar í sér skuldlausa peningaútgáfu seðlabankans. Þannig mynda peningarnir aukið eigið fé heimila og fyrirtækja í stað skulda líkt og reglan er í núverandi peningakerfi og undangengnum hefðbundnum magnbundnum íhlutunum seðlabanka heimsins.

Mjög gaman er að sjá að umræðan um skuldlausrar peningaútgáfu er komin á skrið á meðal evrópuþingmanna. Væntanlega er þetta aðeins byrjunin.

Eric Lonergan er einn af helstu talsmönnum skuldlausrar peningaútgáfu og vill dreifa þeim án endurgjalds (e. Helicopter Money). Hann rökstuddi afstöðu sína í eftirfarandi viðtali í kjölfar ráðstefnunnar.

 

Umræður um þjóðpeningakerfi á hollenska þinginu

State_coat_of_arms_of_the_Netherlands.svgHugmyndir um þjóðpeningakerfi hafa víða hlotið hljómgrunn og teygt sig m.a. inn á breska þingið, eru á leiðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss auk þess sem tvær þingsályktunartillögur hafa verið lagðar fyrir íslenska þingið. Þá er skammt að minnast skýrslu Frosta Sigurjónssonar sem hlaut verðskuldaða athygli.

Nýverið var svo fjallað um málið a hollenska þinginu, í kjölfar undirskriftasöfnunar sem OnsGeld, systursamtök okkar í Hollandi stóðu að ásamt hollenskum leikhópi. Fundurinn hófst á að fjórir fulltrúar Onsgeld kynntu hugmyndirnar í um 40 mínútur áður en þingmönnunum gafst færi á að spyrja fulltrúana spurninga. Þá gafst fulltrúum ING, hollenska seðlabankans og eftirlitsaðila hollenska fjármálamarkaðarins (Authority for the Financial Markets) færi á að tjá skoðanir sínar á málinu. Að lokum fóru fram líflegar umræður, sem sjá má hér að neðan. Myndbandið hefur verið textað á ensku. Hann má jafnframt finna í heild sinni hér.

Ítarlegar er fjallað um málið í frétt Positive Money.

Þingsályktun til úttektar á fyrirkomulagi peningamyndunar

Alþingi logoÍ september sl. var lögð fram þingsályktunarillaga ellefu þingmanna fimm þingflokka um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar. Hún er svohljóðandi, auk greinargerðar.

“Alþingi ályktar að skipa nefnd þingmanna til að vinna úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar í landinu og gera tillögur að umbótum. Nefndin verði skipuð sex þingmönnum, einum frá hverjum þingflokki. Skrifstofa Alþingis sjái nefndinni fyrir starfsaðstöðu, starfsmanni og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð auk þess sem viðeigandi stofnanir hins opinbera verði nefndinni til ráðgjafar. Nefndin skili niðurstöðum sínum með skýrslu til Alþingis eigi síðar en tíu mánuðum eftir skipunardag.”

Þetta er í annað sinn sem þingsályktunartillaga er lögð fyrir Alþingi um svipað efni, en Lilja Mósesdóttir gerði slíkt hið sama árið 2013. Ljóst er að meðbyrinn er meiri nú og verður spennandi að sjá hvort málið komist á dagskrá þingsins og framgöngu þess.

Hér má finna umfjöllun Positive Money um málið.

Grikkir næsta fórnarlamb

GrikklandSett voru á fjármagnshöft árið 2013 á Kýpur sem aðeins nýlega hefur verið unnt að losa. Nú eru Grikkir að grípa til sömu ráðstafana. Af hverju? Fólk og fyrirtæki eru að breyta bankapeningunum sínum (innlánum) í seðlabankapeninga (seðla og mynt) með auknum hraða þar sem það treystir ekki bönkunum og/eða treystir ekki að það geti nálgast þá í framtíðinni. Bankaáhlaupið á Kýpur hafði þær afleiðingar að bankar voru lokaðir í tvær vikur og takmarkanir voru á peningaúttektir í 2 ár. Nú hefur verið tilkynnt um lokun grískra banka til a.m.k. 7. júlí. Í kjölfar þess verða væntanlega sett á fjármagnshöft í formi hámarka á peningaúttektir.

Grunnorsök þessa er að innlánin sem við notum sem peninga eru skuldir viðskiptabanka. Viðskiptabankarnir geta lent í lausafjárvandræðum og reiða sig þá á lánafyrirgreiðslur seðlabanka, líkt og grískir bankar reiða sig á evrópska seðlabankann nú. Undir þjóðpeningakerfi verða peningar raftákn sem seðlabanki heldur utan um en er ekki skuldbinding neins. Því verður engin hætta á bankaáhlaupum undir þjóðpeningakerfi líkt og við höfum séð svo víða um heim frá árinu 2008.

Frétt RÚV um málið.

Úttekt Zerohedge um málið.

Vakt The Guardian á málinu.

Hvað segja erlendir miðlar um skýrslu Frosta?

financial_times_logoUndanfarið hafa birst fjölmargar umfjallanir um skýrslu Frosta Sigurjónssonar í fjölmiðlum á borð við Financial Times og The Economist. Í mörgum tilfellum er skýrslunni tekið fagnandi og opnað á frekari greiningu.

Hagfræðingur hjá RBS lét hafa eftir sér:

„Lykilhugmyndin er nýtt þjóðpeningakerfi, þar sem aðeins Seðlabankinn sér um peningasköpun. Hugmyndin gengur upp… Aðskilnaður peningasköpunar og hvernig nýir peningar eru nýttir getur virkað sem vörn gegn of mikilli skuldasköpun og um leið minnkað hvata viðskiptabanka til að skapa of mikið af skuldum í þágu eigin hagnaðar… Hugmynd Íslands er þess virði að kanna nánar.“

Adair Turner, fyrrverandi stjórnarformaður Breska fjármálaeftirlitisins (FSA), skrifaði:

“Skýrslan leggur til róttæka kerfisbreytingu sem lausn á vandanum sem við blasir. Ræða þarf fýsileika og kosti þeirrar lausnar. En hver sem niðurstaðan verður á endanum, verður hún að byggjast á þeim viðhorfum sem birtist í þessari skýrslu – að peningamyndun er of mikilvæg til að láta bankamenn eina um það verkefni.”

Financial Times:

“Eftir að hafa horfið frá því að losa sig við gjaldmiðilinn sinn veltir ríkisstjórnin í Reykjavík nú fyrir sér algjöru banni bankanna til þess að gefa út nýjar krónur þegar þeir veita lán… Á undanförnum árum hafa skandinavískir seðlabankamenn sýnt sama óttaleysi gagnvart nýjum valkostum og knúði norræn skip um víða veröld. Í þessum anda ætti Reykjavík að gefa þjóðpeningakerfinu tækifæri. Þjóðir mun stærri og sterkari en Ísland hafa átt í vandræðum með öfgar í fjármálalífinu með vanalegum úrræðum. Samhliða því að sýna öðrum þjóðum mögulega leið áfram, með því að láta til skarar skríða gegn brotaforðakerfinu gætu Íslendingar náð stjórn á efnahagslegri framtíð sinni.“

The EconomistThe Economist ritar:

“Ef vel tekst til gæti reynsla Íslands reynst mikilvægt fordæmi fyrir hnattrænar breytingar á peningakerfinu.

Fyrir hönd FT Alphaville, Matthew Klein:

“Áætlun Frosta fyrir Ísland er heillandi byrjun sem vonandi mun leiða til frekari umræðu um framtíð fjármálakerfisins. Ef kerfið yrði innleitt myndi það auka getu seðlabankans til þess að koma á stöðugleika í neyslu án þess að raska samsetningu hagrænna umsvifa.”

the-telegraph-logoThe Telegraph fullyrðir:

“Ríkisstjórn Íslands veltir nú upp byltingakenndum tillögum um peningamál – að fjarlægja vald viðskiptabanka til þess að búa til peninga og færa það seðlabankanum. Tillagan, sem yrði viðsnúningur í sögu nútíma fjármála… Lykilhugmyndin er hið nýja þjóðpeningakerfi, þar sem aðeins seðlabankinn er ábyrgur fyrir peningasköpun. Hugmyndin er rökrétt… að aðskilja valdið til peningasköpunar og úthlutunar peninga myndi standa vörð gegn óhóflegri peningasköpun og minnka hvata viðskiptabankanna til þess að skapa meiri skuldir í þágu eigin hagsmuna… Tillaga Íslands er þess virði að kanna.”

Reuters_logoEdward Hadas hjá Reuters ritaði:

“Áætlun Frosta er mögulegur leiðarvísir fyrir betra bankakerfi og Ísland er góður staður til að byrja á. Þjóðin gæti verið nægjanlega gröm til þess að reyna eitthvað nýtt og hið alþjóðlega og valdamikla bankakerfi myndi líklega umbera tilraun í þessu litla landi.”

Það er því ljóst að umræðan er víða mjög jákvæð og opin gagnvart hugmyndum um þjóðpeningakerfi. Fleiri hafa opinn hug gagnvart hugmyndunum og þekkingin á málefninu eykst hratt. Meðbyrinn er tilfinnanlegur og erum við þess fullviss að svo verði áfram.

Vel heppnaður fundur um þjóðpeningakerfi

Betra peningakerfi 1Húsfylli, um 70 manns, var á opnum fundi um þjóðpeningakerfið sem haldinn var í gærkvöldi á efri hæð Sólon. Frosti Sigurjónsson, þingmaður og höfundur nýútkominnar skýrslu um brotaforðakerfið og möguleika til úrbóta á því, hélt erindi þar sem hann fór vandlega yfir efni hennar. Frosti fór einnig yfir hagsögu Íslands undanfarin 50 ár og hversu illa núverandi kerfi hefur gengið að stýra peningamagni í umferð. Í máli Frosta kom fram að sama hversu illa mönnum tækist til við að koma á þjóðpeningakerfi, þá væri nýtt kerfi alltaf miklu betra en það sem við höfum í dag. Mjög skemmtileg stemming var á fundinum og greinilegt að mikill hugur er í mönnum að fá fram aukna umræðu um efnið og að taka upp þjóðpeningakerfi.

Við hvetjum alla til að kynna sér skýrsluna vel því hún fjallar um mál sem koma okkur öllum við, eða peningana okkar.

Skýrsla Frosta

Skýrsla FrostaSíðastliðinn þriðjudag afhenti Frosti Sigurjónsson forsætisráðuneytinu skýrslu um endurbætur á peningakerfinu. Ljóst er að hún getur orðið grundvöllur að skrefum í átt til umbóta. Betra peningakerfi stendur fyrir málefnalegri og upplýstri umræðu um málið og hvetjum við því alla sem vilja taka þátt í henni að kynna sér efni hennar.

Breska þingið ræðir peningasköpun 20. nóv.

british-parliamentÍ dag bárust þau stórtíðindi að þriggja klukkustunda umræður um “peningasköpun og samfélagið” muni fara fram á breska þinginu þann 20. nóvember. Þetta verður í fyrsta skipti í 170 ár sem umræður verða um peningasköpun á þessum vettvangi.

Umræðurnar eru að frumkvæði eftirfarandi þverpólitísks hóps þingmanna:

  • Steve Baker (Íhaldsflokkurinn)
  • Caroline Lucas (Græningjaflokkurinn)
  • Michael Meacher (Verkamannaflokknum)
  • Douglas Carswell (Breski sjálfstæðisflokkurinn)
  • David Davis (Íhaldsflokkurinn)

Systursamtök Betra peningakerfis á Bretlandi, Positive Money, hafa lengi talað fyrir að málefni peningasköpunar verði tekin upp á þinginu og er því sérstaklega ánægjulegt að sjá þessum áfanga náð. Þá er um gott tækifæri fyrir breska þingmenn að ræða, en samkvæmt nýlegri könnun telja 7 af hverjum 10 þingmönnum aðeins ríkisvaldið hafa heimild til þess að skapa nýja peninga.

Við munum fylgjast spennt með framvindunni og hlökkum til að flytja fréttir af umræðunum.

Vaxa peningar á trjánum?

Does Money Grow On TreesHaldin var ráðstefnan “Vaxa peningar á trjánum?” í sal Stofnunar löggiltra bókara í London þann 9. september síðastliðinn. Ráðstefnan var mjög vel heppnuð, enda hópur framsögumanna vel skipaður:

Eftirfarandi er ræða Martin Wolf, þar sem hann var skorinorður í garð stuðnings við Positive Money (32 mínútur):

Þá hafa verið birtar pallborðsumræður ráðstefnunnar, þar sem Frosti Sigurjónsson var meðal þátttakenda (23 mínútur):

Peningakerfið og neikvætt sjóðstreymi banka

Asgeir TorfasonÍ Morgunblaðinu í dag var áhugaverð umfjöllun um doktorsritgerð Ásgeirs Brynjars Torfasonar, þar sem hann fjallar um sjóðstreymi í bönkum.  Þar segir meðal annars:

Könnun Ásgeirs á ársreikningum átta stærstu banka Norðurlandanna leiddi í ljós að fjórir stærstu bankar Svíðþjóðar voru með neikvætt sjóðstreymi frá rekstri í átta ár af tíu. “Þrátt fyrir það gátu þeir alltaf fjármangað sig og enginn gerði athugasemdir við þetta.”

Ásgeir bendir á að geta bankanna til þess að vera með neikvætt sjóðsstreymi frá rekstri felist í peningasköpun þeirra:

“Bankar þurfa ekki að taka við sparnaði til að veita lán, heldur geta þeir einfaldlega lánað út nýja peninga gegn skuldabréfi sem myndar innstæðu á reikningi lántakandans.” Skuldabréfið skapi eign á efnahagsreikningi bankans þar sem um sé að ræða skuld við bankann, innstæða lántakandans sé skuld bankans á móti. “Þetta felur í sér að enginn sparifjáreigandi hafi fyrst þurft að leggja inn peninga til hliðar fyrir láninu.” Ásgeir segir þessa staðreynd útskýra hvers vegna bankar geti verið með langvarandi neikvætt sjóðsstreymi frá rekstri. 

Gaman að sjá þennan vinkil Ásgeirs á peningakerfið sem undirstrikar enn og aftur veikleika þess.