Spurningar til stjórnmálaflokkana

Althingi_logoNú styttist í kosningar og flokkarnir að kynna málefnastöðu sína. Til þess að kynnast stefnu þeirra varðandi peningaútgáfu sendum við eftirfarandi spurningar til flokkanna sem eru í framboði til Alþingis.

Gott kvöld,

Betra peningakerfi eru óháð félagasamtök sem tala fyrir því að vald viðskiptabanka til útgáfu rafrænna peninga í formi innlána verði fært opinberum aðila, svo sem seðlabanka. Þessi breyting felur í sér að nýir peningar verða settir í umferð í gegnum ríkisútgjöld. Þannig njóti þjóðin öll ávinnings af útgáfu nýrra peninga og peningamagn í umferð verður ákveðið með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi í stað hagsmuna bankanna. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu samtakanna, https://betrapeningakerfi.is/.

Mikill áhugi er meðal félagsmanna okkar á stefnu ykkar varðandi peningaútgáfu. Því langar okkur til að leggja fyrir ykkur eftirfarandi spurningar.
1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?
2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?
3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?
4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Svör óskast í síðasta lagi mánudaginn 24. október og verða þau birt á heimasíðu okkar fyrir alþingiskosningar.

Fyrir hönd Betra peningakerfis,
Loftur Már Sigurðsson og Sigurvin Bárður Sigurjónsson

Svör eru þegar tekin að berast og hlökkum við til að birta svör flokkanna.

Prinsar Jensins

The Princes of YenFramleiðendur 97% Owned, heimildarmyndar um umbætur í peningakerfinu, hafa gefið út nýja og áhugaverða mynd, Prinsa Jensins (e. Princes of the Yen). Myndin fjallar um völd seðlabanka heimsins og umbreytingar hagkerfa, byggt á samnefndri bók eftir prófessor Richard Werner, eins af ráðgjöfum Positive Money.

“Heillandi sýn á þörfina fyrir dýpri og almennari skilning á áhrif peninga á heiminn sem við lifum í.”

Ben Dyson – Stofnandi Positive Money og meðhöfundur Modernising Money.

Richard Werner starfaði við rannsóknir (visiting researcher) hjá Japansbanka (Bank of Japan) í falli bankakerfisins á tíunda áratugnum þegar hlutabréfamarkaðir landsins féllu um 80% og húsnæðisverð um 84%.

Myndin afhjúpar raunverulega orsök þessa sveiflukennda tímabils í japanskri sögu og leiðir myndin líkur að því að atburðirnir í Japan geti endurtekið sig í Evrópu.

Við mælum óhikað með þessari mynd fyrir þá sem vilja kynna sér þróun heimshagkerfanna út frá sjónarhorni peningakerfa.

Smeyginsgull og íslenska bankakerfið

SmeyginnÞað væri óheppilegt fyrir efnahag Miðgarðs komist Smeyginsgullið í umferð, eins og greiningardeild Arion banka fjallaði um í dag. Eins gott að viðlíka sveiflur í peningamagni okkar heima eigi sér ekki stað.

En bíðum nú við. Hvernig hefur þróun peningamagns verið undanfarið á Íslandi? Raunin er sú að peningamagnið fimmfaldaðist á fimm árum í aðdraganda hrunsins. Eins og við þekkjum var ástæðan vilji bankanna til útlána og þ.a.l. peningasköpunar í þágu eigin (skammtíma) hagsmuna.

Hér skal ekki fullyrt hvort Smeyginsgullið myndi jafna peningamagnsaukninguna á Íslandi, en við skulum allavega vona að Miðgarður þurfi ekki að upplifa viðlíka sveiflur í peningamagni og þegnar Íslands máttu þola.

Peningamagn frá 1994

FT: “Skuldasöfnun vesturlanda er hin raunverulega orsök magnbundinnar íhlutunar”

financial_times_logoAnnars lagið hitta blaðamenn naglann á höfuðið varðandi skuldavandann.

Nýleg grein Gillian Tett í Financial Times undir yfirskriftinni “Skuldasöfnun vesturlanda er hin raunverulega orsök magnbundinnar íhlutunar” (e. West’s debt explosion is real story behind Fed QE dance) afhjúpar grundvöll skuldavandans og af hverju það er blekking að halda því fram að fjármálamarkaðirnir hafi verið endurlífgaðir og hagkerfinu komið í eðlilegt horf á ný. 

Eins og Adair Turner, fyrrverandi stjórnarformaður breska Fjámálaeftirlitsins, hefur sagt sænskum og breskum hagfræðingum í ræðu sinni er hin raunverulega saga á bak við nýlega atburði í fjármálasögunni – sama hvort við horfum til magnbundinnar íhlutunar (e. Quantitative Easing) og afleiðinga hennar eða hrun Lehman Brothers fyrir fimm árum – er að vestræn hagkerfi eru orðin háð hækkandi skuldum.

Þar til þetta ástand breytist er það blekking að halda því fram að einhver hafi raunverulega “lagfært” fjármálakerfið með nýlegum aðgerðum, eða skapað raunverulega heilbrigðan hagvöxt.

Þá fjallar greinarhöfundur um það sem Betra peningakerfi, Positive Money og sambærileg samtök hafa verið að benda á að “hagfræðibækur halda því fram að tilgangur banka sé að “safna innlánum frá sparifjáreigendum til þess að veita fjárfestum lán” … og “lána fyrst og fremst fyrirtækjum og frumkvöðlum til þess að fjármagna fjárfestingarverkefni”.

Þessi lýsing er hins vegar blekking, að sögn Adair Turner. Þetta er hins vegar þekkt innan raða þeirra sem tala fyrir breytttu peningakerfi og talsmenn heildarforðakerfisins þekkja vel.

Fleiri greinar hafa birst í Financial Times sem fjalla með raunsönnum hætti um hvernig bankakerfið virkar, s.s. Pre-school lessons for the bankers

Samantektin er þýdd af vef Positive Money. Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig fyrir reynsluáskrift að www.ft.com til þess að unnt sé að opna ofangreindar greinar.

Sagan af breska lávarðinum

SardiniaNeðangreind er sagan af breska lávarðinum og ferðalagi hans til Sardiníu, sem áður birtist á bloggi Frosta Sigurjónssonar. Góða skemmtun.

Hver greiddi ferðina til Sardiníu?

Á 19. öld ákvað ónafngreindur breskur lávarður að heimsækja hina fögru miðjarðarhafseyju Sardiníu, ásamt fjölskyldu sinni og þjónustufólki. Ferðalagið gekk eins og í sögu. Lávarðurinn og fylgdarlið hans gisti aðeins á bestu hótelum og snæddi aðeins á bestu matstöðunum – ekkert var sparað.

Eyjaskeggjar tóku að sjálfsögðu vel á móti þessum forríku ferðamönnum. Lávarðurinn ákvað líka að framlengja dvölina um tvo mánuði. Kostnaðurinn var að sjálfsögðu verulegur. Alls staðar greiddi lávarðurinn með ávísunum í pundum á viðurkenndan breskan banka. Ávísunum lávarðsins var vel tekið, enda voru þær í pundum og á þessum árum var gjaldmiðill eyjaskeggja ekki upp á marga fiska.

Það eina sem skyggði á heimferðina voru vaxandi áhyggjur lávarðarins af því hve óskaplega margar ávísanirnar urðu og hversu stóra spildu af ættaróðalinu hann þyrfti nú að selja til að standa í skilum við bankann.

En svo fór að mörgum mánuðum eftir heimkomuna bólaði ekkert á ávísunum frá Sardiníu. Lávarðurinn var undrandi og feginn. Árin líðu og aldrei bárust ávísanirnar frá Sardiníu og lávarðurinn þurfti aldrei að greiða sumarfríið góða á Sardiníu.

Ávísanirnar voru aldrei innleystar. Þeir sem höfðu fengið greitt með ávísunum notuðu þær einfaldlega til að greiða fyrir eitthvað annað. Þær nutu meira trausts en mynt eyjaskeggja löngu eftir að lávarðurinn var allur. Þær urðu gjaldmiðill.

Spurningin er hinsvegar þessi: Hver borgaði fyrir ferðalag lávarðsins?

Ókostur brotaforðakerfisins: Háir skattar

Þegar bankar gefa út peninga í stað ríkisins eru hærri skattar eðlileg afleiðing þess fyrirkomulags. Við núverandi fyrirkomulag rennur hagnaðurinn af peningaútgáfunni til bankanna, í stað ríkisins. Ríkið nýtur ekki þessa tekna og þarf þ.a.l. að viðhafa hærri skatta eða að skuldsetja sig meira og borga þannig hærri vexti. Gert er ráð fyrir að vaxtagreiðslur Íslenska ríkisins nemi rúmum 88 mö.kr. á árinu 2013. Fyrir þetta fé mætti t.a.m. reka fimm háskóla á borð við Háskóla Íslands eða tvo Landspítala til viðbótar. Þessum vaxtagreiðslum standa skattgreiðendur undir og aukin skattbyrði er því óhjákvæmileg. Þá er sársaukafyllra að ná niður skuldsetningu ríkisins við þessar aðstæður en nauðsynlegt er.

Heildarforðakerfið gerir ríkinu auðveldara fyrir að greiða niður skuldir sínar og lækka þannig vaxtabyrðina. Þegar ríkið greiðir niður skuldir undir nýja kerfinu mun það jafnframt auka framboð fjármagns sem leitar í aðrar lánveitingar og þar með lækka vexti í hagkerfinu. Því væri samhliða stuðlað að lækkun skuldsetningar ríkisins og vaxtastigs með einni og sömu aðgerðinni. Hér er því eftir miklu að sækjast hvað varðar ríkisfjármálin og þ.a.l. fjármál okkar allra.

Opið bréf til samráðsvettvangs um aukna hagsæld á Íslandi

Samráðsvettvangur

Kæri þátttakandi í samráðsvettvangi um aukna hagsæld á Íslandi,

Eins og fram kemur í kynningu samráðsvettvangsins þann 8. maí voru lögð fram eftirfarandi efnahagsleg markmið sem vettvangurinn taldi vera metnaðarfull en möguleg:

  1. Meðalhagvöxtur nemi 3,5% á ári fram til ársins 2030 sem samsvarar 2,6% vexti á hvern íbúa
  2. Skuldahlutfall hins opinbera verði komið niður fyrir 60% af VLF fyrir 2030
  3. Stöðugleiki náist í verðlagi og meðalverðbólga verði 2,5% til 2030

Átakið Betra peningakerfi telur breytingu á grunnatriðum peningamála geta auðveldað Íslandi umtalsvert að ná markmiðum 2 og 3. Rannsóknir á breytingunum benda raunar til að breytingarnar hafi einnig jákvæð áhrif á hagvöxt.

Hugmyndin snýr að breyttu verklagi við útgáfu nýrra peninga. Undir núverandi kerfi eru nýjar krónur að nánast öllu leyti búnar til af viðskiptabönkunum með nýjum útlánum, í gegnum svonefnt brotaforðakerfi. Þetta hefur eftirfarandi vandamál í för með sér:

  1. Skuldsetning raunhagkerfisins er hærri en ástæða er til og
  2. Hvatarnir í kerfinu valda auknum sveiflum í peningamagni og þar af leiðandi dýpri hagsveiflum og meiri óstöðugleika í efnahagslífinu

Átakið Betra peningakerfi talar fyrir breytingum er varðar þessa tilhögun á útgáfu peninga. Hópar sem tala fyrir sambærilegum hugmyndum eru starfræktir í fjölmörgum löndum, og er sá stærsti Positive Money í Bretlandi. Breytingarnar snúa að því að færa valdið til útgáfu nýrra peninga frá viðskiptabönkum til Seðlabankans, og að nýjir peningar séu ekki lánaðir í umferð, heldur settir í umferð í gegnum útgjöld ríkissjóðs. Það yrði gert með lýðræðislegum hætti, svo sem fjárlagagerð.

Hugmyndin var fyrst kynnt af Irving Fisher og fleiri hagfræðingum á 4. áratug síðustu aldar og náði meirihlutafylgi meðal hagfræðinga þess tíma. Hún nýtur nú sívaxandi fylgis, ekki síst í kjölfar rannsóknar tveggja hagfræðinga í haglíkanadeild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þeir rannsökuðu áhrif þess að peningakerfi Bandaríkjanna yrði breytt til samræmis við tillögur Irving Fisher. Niðurstöður rannsóknarinnar styðja allar fullyrðingar Irving Fisher um afleiðingar áætlunarinnar.

  1. Mun betri stjórn verður á grunnorsökum hagsveiflna, þ.e. sveiflum í framboði lánsfjármagns af hálfu bankanna og peningamagni.
  2. Engin hætta verður lengur á bankaáhlaupum.
  3. Mikill lækkun á hreinum skuldum ríkisins og annarra opinberra aðila.
  4. Veruleg lækkun skulda einkaaðila (heimila og fyrirtækja), samhliða því að aukning skulda er ekki lengur forsenda peningasköpunar.

Til viðbótar við fullyrðingar Fisher telja sérfræðingar AGS að kerfisbreytingin myndi leiða af sér 10% einskiptis hagvöxt og að unnt yrði að viðhalda verðbólgustigi nálægt 0%, án vandkvæða fyrir peningamálastefnu gjaldmiðilsins.

Séu minnstu líkur til þess að ofangreindar niðurstöður eigi við rök að styðjast þá er ljóst að eftirsóknarvert er að kanna hugmyndirnar nánar. Því miður er lítið um fræðilegar rannsóknir á hugmyndunum utan ofangreinda rannsókn. Því er rík ástæða til að hrinda af stað vinnu við að skoða þessar hugmyndir gaumgæfilega og leita við það til þeirra sem besta þekkingu hafa á málinu á alþjóðavísu. Við hvetjum samráðsvettvanginn því eindregið til þess að kynna sér málið og taka afstöðu til þess hvort kanna beri þessa leið.

Reykjavík, 16. maí 2013,
f.h. Betra peningakerfis,
Sigurvin B. Sigurjónsson,
formaður stjórnar

Er þjóðpeningakerfið af sovéskum uppruna?

USSR_FlagGagnrýnendum hefur tíðrætt um að þjóðpeningakerfið sé ígildi upptöku bankakerfis að fyrirmynd Sovétríkjanna. Við skulum því skoða hvernig Sovétríkin háttuðu sínu bankakerfi og bera saman við þjóðpeningakerfið.

Í áætlanabúskap Sovétríkjanna voru gerðar fimm ára áætlanir, þar sem ríkisvaldið stýrði framboði á vöru og þjónustu til þess að mæta eftirspurn. Sovéska bankakerfið var hluti af áætlanabúskapinum, þar sem því var ætlað að framfylgja fimm ára áætlunum ríkisstjórnarinnar. Alla greiðslur á milli lögaðila þurftu að vera samþykktar af ríkisbankanum, Gosbank. En hann var eini banki Sovétríkjanna frá 1930 til 1987. Lánveitingar bankans ultu fremur á hversu hliðhollir lántakendurnir voru stjórnvöldum fremur en greiðsluhæfi þeirra. Því var um mjög miðstýrt kerfi að ræða, þar sem lánveitingar réðust ekki af markaðssjónarmiðum.

Upptaka þjóðpeningakerfisins mun ekki færa efnahags- eða bankakerfið nær ofangreindum eiginleikum sovéska kerfisins eða áætlunarbúskap. Frelsi til að stofna og reka banka og fjármálastofnana verður óbreytt við upptöku þjóðpeningakerfisins. Bankar verða starfræktir með sama hætti, utan þess að þeir munu ekki geta búið til nýja peninga með lánveitingum sínum. Þeir munu áfram sinna sínu mikilvæga hlutverki sem milliliðir á milli sparifjáreigenda og lántakenda.

Vissulega má færa rök fyrir því að færsla ákvörðunarvaldsins til útgáfu nýrra peninga frá viðskiptabönkum til peningamagnsnefndarinnar sé skref í átt til miðstýringar. En hér ber að hafa í huga að peningamagnsnefndin hefur ekki vald til úthlutunar nýrra peninga og er þetta vald því verðlítið m.v. tillögur Betra peningakerfis. Í brotaforðakerfinu í dag er ákvörðunarvaldið og úthlutunarvaldið á sömu hendi bankanna. Því er í raun verið að skipta upp peningavaldinu með upptöku þjóðpeningakerfisins og í raun verður erfiðara að misbeita því en við núverandi brotaforðakerfi.

Þá er mikilvægt að hafa í huga að á bak við öll innlán til íslenskra banka stendur trygging ríkissjóðs. Það mun seint teljast kapítalískt fyrirkomulag að einkafyrirtæki njóti slíkra forréttinda að meirihluti fjármögnunar sé ríkistryggð. Undir þjóðpeningakerfinu verður þessi trygging óþörf og verulegir fjármunir sparast samhliða aflögn innstæðutryggingakerfisins.

Að ofangreindu er vandséð hvað átt er við með samlíkingu þjóðpeningakerfisins við sovéskt fyrirkomulag.