Ávinningurinn

Aukinn stöðugleiki

Með því að afnema getu innlánsstofnana til að auka og minnka framboð peninga sem afleiðingu af útlánastarfsemi er mjög dregið úr líkum á eignabólum og skuldakreppum.

Bankaáhlaup verða úr sögunni – ekki lengur þörf fyrir innstæðutryggingar

Þar sem allar lausar innstæður munu verða tryggilega geymdar í Seðlabanka og allar innstæður í innlánsstofnunum verða bundnar til einhvers tíma, þá er ekkert tilefni til áhlaups á banka.

Rafrænir peningar munu vera aðgengilegir og greiðslumiðlun vera ótrufluð þótt bankar fari á hausinn. Það er því engin ástæða til að velta tapi þeirra yfir á skattgreiðendur. Hið kostnaðarsama en óskilvirka innstæðutryggingakerfi verður því óþarft með öllu.

Ríkisskuldir lækka um hundruð milljarða á fáeinum árum

Það gæti tekið innlánsstofnanir um 5-7 ár að greiða upp skuld sína við Seðlabanka, en hún mun nema jafn hárri upphæð og óbundnum innlánum í krónum á breytidegi kerfisins. Jafn óðum og skuldin greiðist upp mun Seðlabanki Íslands setja í umferð rafpeninga að sömu fjárhæð til að halda peningamagni í hagkerfinu óbreyttu.

Gera má ráð fyrir að Seðlabankinn muni setja samtals 3-400 milljarða í umferð með þessum hætti fyrstu árin, þá upphæð mætti t.d. nota til að grynnka á ríkisskuldum.

Veruleg lækkun einkaskulda

Samfélagið mun ekki lengur þurfa að greiða bönkum árlega tugi milljarða í vexti fyrir það eitt að búa til gjaldmiðilinn. Þegar slíkri vaxtabyrði er aflétt af samfélaginu, verður mun auðveldara að draga úr skuldsetningu einstaklinga og fyrirtækja.

Mun minni verðbólga og verðtrygging óþörf

Verðbólga verður miklu minni en áður, þar sem mun auðveldara verður að stýra peningamagni út frá hagvaxtarhorfum en við höfum áður kynnst. Verðbólga mun því ekki valda skuldurum sömu hækkun greiðslubyrði af lánum og hingað til hefur þekkst og verðtrygging lána verður þannig óþörf að mestu.

Ef þú hefur spurningar finnur þú kannski svörin hér.