Meirihluti er fyrir þjóðpeningum skv. skoðanakönnun 20 landa

Nýlega voru birtar niðurstöður mjög athyglisverðrar skoðunarkönnunar sem framkvæmd var í desember 2013 og janúar 2014 og náði til yfir 23.000 manns í 20 löndum (sem mynda 75% heimsframleiðslunnar). Í henni var spurt:

  1. Hver telur þú að hafi gefið út 95% peningamagns í umferð?
  2. Hver telur þú að ætti að gefa út peningana?

Eftirfarandi eru niðurstöður könnunarinnar.
nidurstodur_skodunarkonnunar

Aðeins einn af hverjum fimm sagði viðskiptabanka gefa út peningamagnið. Hins vegar telja aðeins einn af hverjum átta (13%) að viðskiptabankarnir ættu að gefa út peningamagnið, á meðan 59% að hið opinbera (seðlabanki eða ríkið) ætti að gera það.

Í ýtarlegri umfjöllun um skoðunarkönnunina og niðurstöður hennar er fjallað um þekkingu á málefninu eftir búsetu og atvinnugreinum. Þar kemur fram að aðeins þekking á málinu er aðeins lítillega meiri meðal þeirra sem starfa við fjármálaþjónustu á vesturlöndum, þar sem 26% vita að viðskiptabankar gefa út meginhluta peningamagnsins. 33% þeirra telja seðlabanka gefa út peningana og 16% að ríkið geri það.

Martin Wolf, aðalhagfræðingur Financial Times lét hafa eftir sér í tilefni af skoðunarkönnuninni:

Skilyrði upplýstrar umræðu um framtíð peningakerfisins er að almenningur skilji virkni þess. Rannsóknin sýnir að aðeins lítill hluti gerir það. Hún sýnir einnig að þegar fólk þekkir hið rétta, líkar flestum það ekki.

Skoðanakönnunin var framkvæmd af GlocalitiesThe Sustainable Finance Lab og Motivaction náði til 23.618 manns og voru tekin úrtök úr aldursbilinu 18 til 65 í hverju landi. Könnunin náði til Ástralíu, Bandaríkjanna, Belgíu, Brasilíu, Bretlands, Frakklands, Hollands, Indlands, Ítalíu, Japan, Kanada, Kína, Mexíkó, Póllands, Rússlands, Spánar, Suður Afríku, Suður Kóreu, Tyrklands og Þýskalands. Var skoðunarkönnunin framkvæmd á 12 tungumálum. Hún var birt á ráðstefnu Sustainable Finance Lab 22. nóvember síðastliðinn.

Tekist á um þjóðpeninga í Hollandi

whose_money_is_itNýverið stóðu samtökin Sustainable Finance Lab fyrir ráðstefnu í Amsterdam undir yfirskriftinni “Whose Money is it?”. Var velt upp spurningum á borð við: Hafa nægjanlegar breytingar verið gerðar á fjármálakerfinu frá hruni? Er peningaútgáfa í almannaþágu möguleg? Ef svo er, hvernig yrði peningaútgáfu í almannaþágu háttað og hverjar yrðu afleiðingarnar?

Frummælendur ráðstefnunnar voru Martin Wolf, aðalhagfræðingur Financial Times, Ben Dyson frá Positive Money og Klaas van Egmond frá háskólanum í Utrecht, sem hefur rannsakað kerfisbreytingarnar gaumgæfilega. Þá tóku þátt í pallborðsumræðum Arnoud Boot (prófessor við Háskólann í Amsterdam og formaður ráðgjafaráðs seðlabanka Hollands) Wim Boonstra (aðalhagfræðingur Rabobank) og Teunis Brosens (hagfræðingur hjá ING).

Sem fyrr talaði Martin einarðlega fyrir bættu peningakerfi, Arnoud Boot var mjög opinn fyrir kerfisbreytingum en Wim Boonstra og Teunis Brosens voru andvígir.

Umræðan um þjóðpeninga er orðin mjög þroskuð í Hollandi og mikill áhugi er á málinu sem sást á að um 200 manns sóttu fundinn, en aðgangseyrir var 15 Evrur. Ljóst er að umfjöllun Hollenska þingsins um málið og samþykki þess að senda málið til rannsóknarnefndar Hollenska þingsins, hefur haft veruleg áhrif. En nefndin mun skila af sér skýrslu um efnið á seinni hluta næsta árs og verður spennandi að sjá efni hennar.

Verður Riksbank fyrstur?

cecilia-skingsley

Cecilia Skingsley

Í sumar urðu vatnaskil í baráttunni um bætt peningakerfi þegar rannsókn Englandsbanka sýndi fram á jákvæðar afleiðingar útgáfu rafrænna seðlabankapeninga á hagkerfið. Nýverið steig Cecilia Skingsley, varabankastjóri seðlabanka Svíþjóðar (Riksbank) svo fram og tjáði sig með afgerandi hætti um málið.

Eftir því sem færri okkar svíþjóðarbúa nota seðla og mynt, því skýrar verður það að Riksbank verður að kanna hvort hann ætti að gefa út rafræna peninga til að styðja við þá peninga sem við höfum í dag.

Cecilia bendir á að það er lögbundið hlutverk Riksbank að viðhalda öruggu og skilvirku greiðslukerfi og að það skuli vera opið öllum. Vert er að benda á að Seðlabanki Íslands hefur samskonar hlutverki að gegna, samanber 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands:

Seðlabanki Íslands skal sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd.

Tvíhliða kerfi rafrænna peninga í formi áhættusamra innlána einkaaðila annars vegar og áhættulausra rafpeninga útgefinna af seðlabanka hins vegar myndi væntanlega vekja enn frekari spurningar um rétt einkaaðila til útgáfu gjaldmiðilsins. Því má gera ráð fyrir að útgáfa seðlabanka á rafrænni mynt gæti því orðið fyrsta skrefið að fullbúnu þjóðpeningakerfi.

Nálgast má nánari upplýsingar um málið á heimasíðu Riksbank.

Óhóflega áhættusamar fjárfestingar

Robert E. Krainer

Robert E. Krainer, prófessor við viðskiptaháskólann í Wisconsin-Madison, hélt sl. föstudag erindi á málstofu í Seðlabanka Íslands um rannsókn sína á brotaforðakerfinu og samanburð við heildarforðakerfi (full reserve banking). Krainer kemst m.a. að þeirri niðurstöðu að fjárfestingar undir brotaforðakerfi séu óhóflega áhættusamar og ekki pareto-hagkvæmar. Þá hafi þetta í för með sér dýpri hagsveiflur en ella.

Krainer er því enn einn fræðimaðurinn sem kemst að þeirri niðurstöðu að núverandi peningakerfi sé óheppilegt fyrir nútíma hagkerfi.

Hér má nálgast kynningu Krainer.

Hér má nálgast rannsókn Krainer.

Afstaða flokkanna til peningaútgáfu

althingi_2012-07Til þess að fá fram með skýrum hætti áherslur flokkanna varðandi peningaútgáfu sendum við fjórar spurningar á alla flokka sem bjóða fram til alþingiskosninga 29. október. Gaman er að sjá hversu margir flokkar voru jákvæðir fyrir því að skoða nýja möguleika varðandi peningaútgáfu, sem var í samræmi við fjölpólitíska samstöðu um málið í þingsályktunartillögu sem lögð var fram af fulltrúum 5 af 6 þingflokkum fyrir rúmu ári síðan.

Þá var athyglisvert að sjá í svari Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa hindrað framgöngu þingsályktunartillögu þess efnis að setja nýjar lausnir í peningaútgáfu í skoðun, sbr. svar þeirra:

“Þingmenn okkar studdu m.a. tillögu Frosta Sigurjónssonar þingmanns framsóknarflokksins þess efnis að Alþingi setti á fót sérstaka nefnd eða starfshóp sem fengi m.a. það hlutverk að skoða þessi mál. Sú tillaga náði því miður ekki fram að ganga vegna andstöðu sjálfstæðisflokksins.”

Eftirfarandi eru samandregin svör:
okt-2016-nidurstodurFlokkur fólksins, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Þjóðfylkingin svöruðu ekki könnuninni.

Hér á eftir eru orðrétt svör flokkanna.

Alþýðufylkingin

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Hryggjarstykkið í efnahagsstefnu Alþýðufylkingarinnar er félagsvæðing fjármálakerfisins. Þótt margt megi finna að núverandi fyrirkomulagi peningaútgáfu, teljum við það tálsýn að ný stefna í peningaútgáfu dugi til að leiðrétta ójöfnuð eða ranglæti í þjóðfélaginu. Engu að síður þyrfti að skoða og móta nýja stefnu í henni, eins og öðrum efnahagsmálum, þegar fjármálakerfið verður félagsvætt, þannig að sá háttur sem hafður er á peningaútgáfa þjóni almenningi sem best. Þannig að við erum opin fyrir hugmyndum.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

Sumir hafa gert það, aðrir ekki, og sumum finnst sumir kostir áhugaverðir, án þess að flokkurinn sem slíkur hafi mótað sér stefnu í þeim efnum.

3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

Það er sjálfsagt að kanna þá. Sjá annars svar við sp. 1: Ný stefna í peningaútgáfu leysir ekki efnahagsvandamál eins og ójöfnuð eða taumlausa auðsöfnun, en ný stefna í peningaútgáfu yrði mjög sennilega hluti af heildarendurskoðun fjármálakerfisins við félagsvæðingu þess.

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Sjá svör við sp. 1 og 3: Já, sjálfsagt að styðja það að kanna aðra kosti, en það kemur ekki í staðinn fyrir félagsvæðingu fjármálakerfisins.

Björt framtíð

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Björt framtíð telur að stefna að inngöngu í ESB og upptöku evru. Fyrirkomulag peningaútgáfu yrði þar með haft með þeim hætti sem það gjaldmiðilssamstarf kveður á um.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

Erfitt er að segja hvað einstakir frambjóðendur hafa kynnt sér. Björt framtíð boðar í öllu falli ekki breytingar á peningaútgáfu í þá veru að peningaútgáfa verði alfarið ríkisvædd.

3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

Einn fráfarandi þingmaður flokksins, Brynhildur Pétursdóttir, var meðflutningsmaður að þingsályktunartillögu í þá veru að kostir varðandi peningaútgáfu yrðu skoðaðir. Björt framtíð er alltaf til í að skoða hluti með opnum huga, þótt flokkurinn kunni að gjalda varhug við ýmsum hugmyndum, eins og til dæmis þeim að ríkisvæða peningaútgáfu, sem gæti leitt til stórkostlegra ríkisafskipta af atvinnulífi, aukinnar spillingar og skerðinga á frelsi borgaranna til athafna. En greining og upplýsingar er alltaf af hinu góða.

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Vísum í svar 3.

Dögun

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Kenningar um peningamyndun hafa verið kynntar innan Dögunar og ræddar. Ég [Gunnar Skúli Ármannsson] hef skrifað margoft um efnið á opinberum vettvangi. Ég hef í sjálfu sér sömu skoðun og Frosti að fyrst verði maður að koma af stað umræðu og fræðslu áður en maður getur vænst breytinga. Skoðun þeirra innan Dögunar sem kynnt hafa sér málið er að sú aðferð sem við notum í dag er sennilega sú versta. Hvort aðferð Betra Peningakerfis sé sú eina rétta er óvíst en er að minnsta kosti betri en núverandi kerfi. Ef við fengjum einhvern tíman möguleika til að breyta til þá verðum við örugglega að gera nokkrar tilraunir áður en við lendum á bestu aðferðinni. Það sem er mikilvægast er að halda áfram að fræða almenning svo breytingin komi þaðan.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Framsóknarflokkurinn

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Framsóknarflokkurinn vill að stjórnvöld geri úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar og mögulegum umbótum á því samanber þingsályktunartillögu Frosta Sigurjónssonar og fleiri þingmanna sem liggur fyrir Alþingi. Skoða þarf kosti þess að færa peningamyndun alfarið til Seðlabankans þannig að peningakerfið, sem aldrei má bregðast, verði ekki lengur háð fjárhag einstakra banka eins og nú er og sveiflist eftir því. Eftir þessar breytingar væru bankarnir áfram stöndug og verðmæt fjármálafyrirtæki fyrir samfélagið í heild, hvort sem er með einkabanka, samfélagsbanka eða samvinnubanka.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

Já. Mikilvægt er að stjórnvöld geri heildargreiningu á hvernig peningaútgáfu er háttað og hvernig hægt er að betrumbæta þessa útgáfu m.a. hvort að með því að afnema heimild innlánstofnana til að búa til peninga. Seðlabankinn muni ákveða peningamagn í umferð ef sú leið yrði farin.

3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

Framsóknarflokkurinn telur að það gæti orðið þjóðhagslega hagkvæmt að vinna úr skýrslu Frosta Sigurjónssonar um mögulegar umbætur í peningamálum Íslands, Monetary Reform – A better monetary system for Iceland. Þar er fjallað um núverandi fyrirkomulag peningamyndunar á Íslandi og helstu vandamál reifuð sem því tengjast. Í samantekt skýrslunnar á íslensku segir m.a.: Seðlabankinn sjái alfarið um peningaútgáfuna. Stefna Framsóknarflokksins er skýr, að halda áfram þeirri vinnu sem skýrslan grundvallaði.

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Framsóknarflokkurinn telur að íslenska krónan sé framtíðargjaldmiðill landsins og því mikilvægt að treysta umgjörð hennar og stöðugleika. Við þær aðgerðir þurfi m.a. að horfa til þjóðhagsvarúðartækja. Þannig að í framtíðinni verði komið í veg fyrir óeðlilegar sveiflur á gengi gjaldmiðilsins, sem hefur leitt af sér eignabólur og grafið undan rekstrargrundvelli útflutnings og atvinnugreina. Til mikils er að vinna í þessum málum og því vill Framsóknarflokkurinn leggja mikla vinnu í að halda áfram á þeirri braut sem skýrsla og svo þingsályktunar tilaga Frosta Sigurjónssonar ofl. þingmanna hefur markað.

Tækifæri Íslendinga til þess að vera áfram brautryðjendur í nýjum lausnum fyrir fjármálahagkerfið eru miklar. Nýleglegar og frumlegar lausnir sem ríkisstjórnin, undir forystu Framsóknarflokksins, hefur sýnt að geta bætt samfélagið mikið m.a. með samningum við kröfuhafa þrotabús gömlu bankanna, þar sem mörg hundruð milljarðar munu skila sér í ríkissjóð og tryggja betur fjármálalegan stöðugleika lands og þjóðar. Einnig voru Framsóknarmenn óhræddir við að ráðast í róttæka skuldaleiðréttingu, sem skilaði heimilum landsins miklum búbótum og var einn lykilþátturinn í að koma hjólum efnahagslífsins til þess að snúast aftur. Á þessum grunni, bæði frumlegra og vel útfærðra efnahagslausna, viljum við halda áfram. Takmarkið er að gera samfélagið réttlátara á morgun en það var í gær. Hugmyndir um heildarútekt og endurskoðun á peningakerfinu eru til þess fallnar að bæta samfélagið, auka jöfnuð og tryggja að framleiðsluaukning hagkerfisins renni til þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn mun halda áfram með þær lausnir, fái hann umboð til þess.

Húmanistaflokkurinn

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Húmanistaflokkurinn byggir stefnu sína á hugmyndum samtakanna Betra Peningakerfi og höfum gert Þjóðpeningakerfið að forgans máli bæði í síðustu Alþingiskosningum og nú í kosningunum 2016.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

Já, þeir hafa kynnt sér hugmyndirnar um Þjóðpeningakerfið og styðja þær hugmyndir.
3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

Já Húmanistaflokkurinn stefnir að því að styðja hugmyndina um Þjóðpeningakerfi á næsta kjörtímabili.

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Vinstrihreyfingin grænt framboð

Vinstri græn hafa ekki mótað sér stefnu varðandi peningaútgáfu og málið hefur ekki verið mikið til umræðu innan hreyfingarinnar. Við höfum samt sem áður fylgst með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um peningaútgáfu og tekið þátt í henni innan þings sem utan. Þingmenn okkar studdu m.a. tillögu Frosta Sigurjónssonar þingmanns framsóknarflokksins þess efnis að Alþingi setti á fót sérstaka nefnd eða starfshóp sem fengi m.a. það hlutverk að skoða þessi mál. Sú tillaga náði því miður ekki fram að ganga vegna andstöðu sjálfstæðisflokksins. Við erum áhugasöm um nýjar lausnir í peningamálum almennt og munum kanna alla raunhæfa kosti í peningaútgáfu og kynna okkur koma slíkar hugmyndir inn á okkar borð.

Spurningar til stjórnmálaflokkana

Althingi_logoNú styttist í kosningar og flokkarnir að kynna málefnastöðu sína. Til þess að kynnast stefnu þeirra varðandi peningaútgáfu sendum við eftirfarandi spurningar til flokkanna sem eru í framboði til Alþingis.

Gott kvöld,

Betra peningakerfi eru óháð félagasamtök sem tala fyrir því að vald viðskiptabanka til útgáfu rafrænna peninga í formi innlána verði fært opinberum aðila, svo sem seðlabanka. Þessi breyting felur í sér að nýir peningar verða settir í umferð í gegnum ríkisútgjöld. Þannig njóti þjóðin öll ávinnings af útgáfu nýrra peninga og peningamagn í umferð verður ákveðið með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi í stað hagsmuna bankanna. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu samtakanna, https://betrapeningakerfi.is/.

Mikill áhugi er meðal félagsmanna okkar á stefnu ykkar varðandi peningaútgáfu. Því langar okkur til að leggja fyrir ykkur eftirfarandi spurningar.
1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?
2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?
3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?
4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Svör óskast í síðasta lagi mánudaginn 24. október og verða þau birt á heimasíðu okkar fyrir alþingiskosningar.

Fyrir hönd Betra peningakerfis,
Loftur Már Sigurðsson og Sigurvin Bárður Sigurjónsson

Svör eru þegar tekin að berast og hlökkum við til að birta svör flokkanna.

Þingsályktunartillagan afgreidd af efnahags- og viðskiptanefnd

Althingi_logoÍ síðustu viku afgreiddi efnahags- og viðskiptanefnd þingsályktunartillögu sem lögð var fram fyrir réttu ári af 11 þingmönnum fimm þingflokka.

Í nefndaráliti kemur fram að 1. minni hluti nefndarinnar leggur til að tillagan verði samþykkt í eftirfarandi formi:

Alþingi ályktar að kjósa nefnd þingmanna til að vinna úttekt á fyrirkomulagi peninga­myndunar í landinu og gera tillögur að umbótum. Nefndin verði skipuð einum þingmanni frá hverjum þingflokki. Alþingi skal kjósa nefndina eigi síðar en 1. desember 2016. Skrifstofa Alþingis sjái nefndinni fyrir starfsaðstöðu, starfsmanni og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð auk þess sem viðeigandi stofnanir hins opinbera verði nefndinni til ráðgjafar. Nefndin skili niður­stöðum sínum með skýrslu til Alþingis eigi síðar en tíu mánuðum eftir skipunardag.

Afar spennandi verður að fylgjast með hvort málið hljóti afgreiðslu og brautargengi nú á síðustu dögum þingsins.

Umræður um þjóðpeningakerfi á hollenska þinginu

State_coat_of_arms_of_the_Netherlands.svgHugmyndir um þjóðpeningakerfi hafa víða hlotið hljómgrunn og teygt sig m.a. inn á breska þingið, eru á leiðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss auk þess sem tvær þingsályktunartillögur hafa verið lagðar fyrir íslenska þingið. Þá er skammt að minnast skýrslu Frosta Sigurjónssonar sem hlaut verðskuldaða athygli.

Nýverið var svo fjallað um málið a hollenska þinginu, í kjölfar undirskriftasöfnunar sem OnsGeld, systursamtök okkar í Hollandi stóðu að ásamt hollenskum leikhópi. Fundurinn hófst á að fjórir fulltrúar Onsgeld kynntu hugmyndirnar í um 40 mínútur áður en þingmönnunum gafst færi á að spyrja fulltrúana spurninga. Þá gafst fulltrúum ING, hollenska seðlabankans og eftirlitsaðila hollenska fjármálamarkaðarins (Authority for the Financial Markets) færi á að tjá skoðanir sínar á málinu. Að lokum fóru fram líflegar umræður, sem sjá má hér að neðan. Myndbandið hefur verið textað á ensku. Hann má jafnframt finna í heild sinni hér.

Ítarlegar er fjallað um málið í frétt Positive Money.

Grein: Nýtt peningakerfi

GunnarJonsson

Albrecht er viðskiptafræðingur og áhugamaður um betra peningakerfi

Eftir Albrecht Ehmann, einn af okkar fylgismönnum, birtist eftirfarandi grein í Fréttablaðinu og á visir.is í gær. Hér vekur hann máls á þeim möguleika að Sviss verði fyrst þjóða til að taka upp þjóðpeningakerfi sér í lagi í ljósi væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Nýtt peningakerfi

Næstum allt peningamagn í umferð er búið til af viðskiptabönkunum í formi rafrænna peninga (innlána). Rafrænir peningar myndast þegar bankinn býr til í reikning lántakanda við lántöku. Þetta verklag er svokallað brotaforðakerfi sem er við lýði um allan heim. Fyrir daga rafrænna peninga hafði ríkið, í gegnum seðlabankann, einkarétt til að gefa út peninga, þ.e. seðla og mynt.

Árið 1891 tók svissneska þjóðin, með þjóðaratkvæðagreiðslum, valdið til að prenta seðla af bönkunum og flutti til svissneska seðlabankans. Með réttu ætti hið sama að gerast í tilfelli innlána, algengustu peningategundarinnar.

Í svissnesku stjórnarskránni er heimild þjóðarinnar til að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu um lagabreytingar. Niðurstöðurnar eru lagalega bindandi fyrir svissneska þingið. Grasrótarsamtökin „Vollgeld-Initiative“, sem hafa það markmið að færa peningasköpunarvaldið aftur yfir til seðlabankans, hafa nú safnað yfir 100.000 undirskriftum kosningarbærra manna og þannig knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um að taka peningasköpunarvaldið af viðskiptabönkum. Mun atkvæðagreiðslan fara fram á næstu árum.

Sviss gæti því orðið fyrsta landið í heiminum til þess að endurbæta peningakerfið. Einungis seðlabankinn myndi þá koma nýjum peningum í umferð – bæði reiðufé og rafrænum peningum, og hefði þannig meiri stjórn á peningamagni í umferð. Rafrænir og órafrænir peningar yrðu að fullu tryggðir af seðlabankanum ef viðskiptabankar fara í þrot. Hætta á bankaáhlaupum væri úr sögunni. Bankarnir myndu sjá um bankareikninga í fjárvörslu fyrir viðskiptavini – eins og í dag í tilfelli verðbréfa. Þá myndi ríkið fá aftur til sín þann hagnað sem peningasköpun hefur í för með sér og gæti því minnkað skuldsetningu sína verulega. Þetta eru hinir svonefndu þjóðpeningar (e. sovereign money) í stað bankapeninga (e. commerical bank money).

En áður en þetta getur orðið að veruleika og Sviss orðið fyrsta landið sem leggur af brotaforðakerfið sem hefur verið allsráðandi undanfarin 200 ár, þurfa rúmlega tvær milljónir Svisslendinga að greiða nýju peningakerfi atkvæði sitt.