Englandsbanki birtir mikilvæga rannsókn um rafræna peninga

Kennimerki EnglandsbankaEnglandsbanki birti í síðastliðinni viku rannsóknarritgerð (Working paper) John Barrdear og Michael Kumhof, hagfræðinga bankans. Þetta tímamótarit lýsir rannsókn hagfræðinganna á afleiðingum þess að seðlabanki gefi út rafræna peninga (e. digital currency) sem aðgengilegir yrðu almenningi. Fólk og fyrirtæki hefðu því annan valkost en að nota innlán viðskiptabanka sem rafrænan greiðslumiðil.

Ritgerðin byggir á haglíkani (DSGE) þar sem hver sem er getur átt rafræna peninga hjá seðlabankanum, áhættulaust, sem valkost gagnvart innlánum í banka (sköpuð af bönkum). Þó rannsóknin gangi út frá að seðlabankinn gefi út rafræna peninga er gert ráð fyrir að viðskiptabankar geri það einnig.

Byggt á haglíkani sínu komast Barrdear og Kumhof að þeirri niðurstöðu að slík kerfisbreyting:

  • Myndi auka þjóðarframleiðslu um u.þ.b. 3%, vegna lægri raunvaxta, minni bjögun í sköttum (distortionary tax rates) og í lægri viðskiptakostnaðar.
  • Gæti veitt seðlabanka annað hagstjórnartæki til þess að koma á auknum stöðugleika í hagkerfinu.
  • Gæti aukið fjármálastöðugleika.

Það er því ljóst að rannsóknin felur í sér kærkomið lóð á vogarskálarnar í umræðunni um innleiðingu betra peningakerfis.

Lesa ritgerð John Barrdear og Michael Kumhof

Frétt Positive Money um málið

Umsagnir um þingsályktunartillögu

Althingi_logoNíu áhugaverðar umsagnir bárust um þingsályktunartillögu um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar. Skemmst er frá að segja að átta voru jákvæðar í garð tillögunnar og mæltu með samþykki hennar. Sérstaklega var gaman að sjá umsögn Seðlabanka Íslands sem finnst umræðan vera gagnleg og gerði ekki athugasemdir.

Eini aðilinn sem setti sig upp á móti tillögunni var Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF). Eftirfarandi eru viðbrögð okkar við umsögninni. Er hún um margt athyglisverð, eins og hér verður rakið.

Verulegum hluta umsagnar sinnar verja samtökin í að reifa innstæðutryggingakerfi Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Virðast samtökin hafa dálæti á þessum plástri á brotaforðakerfið frá 4. áratugs síðustu aldar, sem settur var á í kjölfar mikillar umræðu þar sem fræðimenn voru frekar á því að fylgja Chicago áætlun Irving Fisher og félaga. Chicago áætlunin laut hinsvegar í lægra haldi og lappað var upp á gamla brotaforðakerfið með innstæðutryggingum. Ronnie J. Phillips gerði ýtarlega skoðun á málinu og setti fram í bók sinni, The Chicago Plan & New Deal Banking Reform, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að Chicago-áætluninni hafi ekki verið hafnað á grundvelli hugmyndafræði, heldur vegna pólitískrar tækifærismennsku (e. political expiency).

SFF viðurkenna vankunnáttu sína á málinu þegar þau segja: “Samtökum fjármálafyrirtækja sýnist að hér séu á ferð hugmyndir sem fyrst voru settar fram árið 1933 af hópi hagfræðinga við Háskólann í Chicago í Bandaríkjunum með Henry Simons í broddi fylkingar.” Opinbera í kjölfarið myrkraskotið með setningunni: “Þess er reyndar ekki getið í þingályktuninni.”

Umsögn sína ljúka samtökin á þeirri fullyrðingu að “skipan fjármálakerfisins hér á landi hljóti að taka mið af því sem gerist á Evrópska efnahagssvæðinu (EES).” Samtökin vísa hins vegar ekki í neina Evróputilskipun eða reglur sem gerir Íslandi skylt að búa við sama form peningaútgáfu. Enda hefur eftirgrennslan forsvarsmanna Betra peningakerfis ekki leitt í ljós að slíkar kröfur séu til staðar.

Þessi eina gagnrýni á þingsályktunartilllöguna ber því með sér að andstaðan við að kanna tækifæri til umbóta á peningakerfinu er verulega veik. Það er því ástæða til bjartsýni á framgöngu málsins hjá Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og Alþingi í kjölfarið.

Umsögn um þingsályktunartillögu

Alþingi logoÍ dag skilaði Betra peningakerfi inn umsögn um tillögu til þingsályktunar um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar til Alþingis. Tillagan var lögð fram af 11 þingmönnum 5 flokka á haustþingi.

Síðasti skiladagur umsagna er í dag og verður athyglisvert að sjá hverjir koma til með að senda inn og hvert efni þeirra verður, en þegar þingsályktunartillaga sambærilegs efnis var lögð fram árið 2012 bárust 15 áhugaverðar umsagnir. Við komum til með að fjalla nánar um málið á næstu dögum og vikum.

Umsögn okkar má finna hér.

Skýrsla Frosta Sigurjónssonar hefur verið þýdd á japönsku.

Skyrsla japonskuSkýrsla Frosta Sigurjónssonar hefur vakið verðskuldaða athygli erlendis. Þetta hefur meðal annars komið fram í umfangsmikilli fjölmiðlaumfjöllun og að skýrslan hefur verið þýdd á tvö erlend tungumál. Fyrst á pólsku síðastliðið haust og nú um helgina var hún birt á Japönsku.

Skýrslan er því eflaust orðin sú íslenska skýrsla sem er aðgengileg hvað stærstum hluta heimsbyggðarinnar.

Skuldlaus peningaútgáfa rædd á Evrópuþinginu

qe4p_1Miðvikudaginn 17. febrúar 2016 var haldin athyglisverð ráðstefna á Evrópuþinginu undir yfirskriftinni „magnbundin íhlutun í þágu almennings“ (e. Quantitative Easing For the People). Ráðstefnan var í boði Evrópuþingmannanna Molly Scott Cato, Paul Tang, og Fabio De Masi. Aðrir þáttakendur í pallborði voru:

  • Richard Werner, prófessor við Háskólann í Southampton,
  • Eric Lonergan, vogunarsjóðsstjóri hjá M&G,
  • Frances Coppola, dálkahöfundur,
  • Frédéric Boccara, ráðgjafi frönsku ríkisstjórnarinnar og
  • Frank van Lerven, sérfræðingur hjá Positive Money

Árangurinn af hefðbundinni magnbundinni íhlutun (e. Quantitative Easing) hefur að margra áliti verið afar takmarkaður síðastliðin ár í Evrópu, en aðgerðirnar fela í sér útgáfu nýrra peninga (grunnfjár) seðlabanka sem veitt er inn á fjármálamarkaði með skuldabréfakaupum. Magnbundin íhlutun í þágu almennings felur hins vegar í sér skuldlausa peningaútgáfu seðlabankans. Þannig mynda peningarnir aukið eigið fé heimila og fyrirtækja í stað skulda líkt og reglan er í núverandi peningakerfi og undangengnum hefðbundnum magnbundnum íhlutunum seðlabanka heimsins.

Mjög gaman er að sjá að umræðan um skuldlausrar peningaútgáfu er komin á skrið á meðal evrópuþingmanna. Væntanlega er þetta aðeins byrjunin.

Eric Lonergan er einn af helstu talsmönnum skuldlausrar peningaútgáfu og vill dreifa þeim án endurgjalds (e. Helicopter Money). Hann rökstuddi afstöðu sína í eftirfarandi viðtali í kjölfar ráðstefnunnar.