Afstaða flokkanna til peningaútgáfu

althingi_2012-07Til þess að fá fram með skýrum hætti áherslur flokkanna varðandi peningaútgáfu sendum við fjórar spurningar á alla flokka sem bjóða fram til alþingiskosninga 29. október. Gaman er að sjá hversu margir flokkar voru jákvæðir fyrir því að skoða nýja möguleika varðandi peningaútgáfu, sem var í samræmi við fjölpólitíska samstöðu um málið í þingsályktunartillögu sem lögð var fram af fulltrúum 5 af 6 þingflokkum fyrir rúmu ári síðan.

Þá var athyglisvert að sjá í svari Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa hindrað framgöngu þingsályktunartillögu þess efnis að setja nýjar lausnir í peningaútgáfu í skoðun, sbr. svar þeirra:

“Þingmenn okkar studdu m.a. tillögu Frosta Sigurjónssonar þingmanns framsóknarflokksins þess efnis að Alþingi setti á fót sérstaka nefnd eða starfshóp sem fengi m.a. það hlutverk að skoða þessi mál. Sú tillaga náði því miður ekki fram að ganga vegna andstöðu sjálfstæðisflokksins.”

Eftirfarandi eru samandregin svör:
okt-2016-nidurstodurFlokkur fólksins, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Þjóðfylkingin svöruðu ekki könnuninni.

Hér á eftir eru orðrétt svör flokkanna.

Alþýðufylkingin

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Hryggjarstykkið í efnahagsstefnu Alþýðufylkingarinnar er félagsvæðing fjármálakerfisins. Þótt margt megi finna að núverandi fyrirkomulagi peningaútgáfu, teljum við það tálsýn að ný stefna í peningaútgáfu dugi til að leiðrétta ójöfnuð eða ranglæti í þjóðfélaginu. Engu að síður þyrfti að skoða og móta nýja stefnu í henni, eins og öðrum efnahagsmálum, þegar fjármálakerfið verður félagsvætt, þannig að sá háttur sem hafður er á peningaútgáfa þjóni almenningi sem best. Þannig að við erum opin fyrir hugmyndum.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

Sumir hafa gert það, aðrir ekki, og sumum finnst sumir kostir áhugaverðir, án þess að flokkurinn sem slíkur hafi mótað sér stefnu í þeim efnum.

3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

Það er sjálfsagt að kanna þá. Sjá annars svar við sp. 1: Ný stefna í peningaútgáfu leysir ekki efnahagsvandamál eins og ójöfnuð eða taumlausa auðsöfnun, en ný stefna í peningaútgáfu yrði mjög sennilega hluti af heildarendurskoðun fjármálakerfisins við félagsvæðingu þess.

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Sjá svör við sp. 1 og 3: Já, sjálfsagt að styðja það að kanna aðra kosti, en það kemur ekki í staðinn fyrir félagsvæðingu fjármálakerfisins.

Björt framtíð

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Björt framtíð telur að stefna að inngöngu í ESB og upptöku evru. Fyrirkomulag peningaútgáfu yrði þar með haft með þeim hætti sem það gjaldmiðilssamstarf kveður á um.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

Erfitt er að segja hvað einstakir frambjóðendur hafa kynnt sér. Björt framtíð boðar í öllu falli ekki breytingar á peningaútgáfu í þá veru að peningaútgáfa verði alfarið ríkisvædd.

3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

Einn fráfarandi þingmaður flokksins, Brynhildur Pétursdóttir, var meðflutningsmaður að þingsályktunartillögu í þá veru að kostir varðandi peningaútgáfu yrðu skoðaðir. Björt framtíð er alltaf til í að skoða hluti með opnum huga, þótt flokkurinn kunni að gjalda varhug við ýmsum hugmyndum, eins og til dæmis þeim að ríkisvæða peningaútgáfu, sem gæti leitt til stórkostlegra ríkisafskipta af atvinnulífi, aukinnar spillingar og skerðinga á frelsi borgaranna til athafna. En greining og upplýsingar er alltaf af hinu góða.

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Vísum í svar 3.

Dögun

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Kenningar um peningamyndun hafa verið kynntar innan Dögunar og ræddar. Ég [Gunnar Skúli Ármannsson] hef skrifað margoft um efnið á opinberum vettvangi. Ég hef í sjálfu sér sömu skoðun og Frosti að fyrst verði maður að koma af stað umræðu og fræðslu áður en maður getur vænst breytinga. Skoðun þeirra innan Dögunar sem kynnt hafa sér málið er að sú aðferð sem við notum í dag er sennilega sú versta. Hvort aðferð Betra Peningakerfis sé sú eina rétta er óvíst en er að minnsta kosti betri en núverandi kerfi. Ef við fengjum einhvern tíman möguleika til að breyta til þá verðum við örugglega að gera nokkrar tilraunir áður en við lendum á bestu aðferðinni. Það sem er mikilvægast er að halda áfram að fræða almenning svo breytingin komi þaðan.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Framsóknarflokkurinn

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Framsóknarflokkurinn vill að stjórnvöld geri úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar og mögulegum umbótum á því samanber þingsályktunartillögu Frosta Sigurjónssonar og fleiri þingmanna sem liggur fyrir Alþingi. Skoða þarf kosti þess að færa peningamyndun alfarið til Seðlabankans þannig að peningakerfið, sem aldrei má bregðast, verði ekki lengur háð fjárhag einstakra banka eins og nú er og sveiflist eftir því. Eftir þessar breytingar væru bankarnir áfram stöndug og verðmæt fjármálafyrirtæki fyrir samfélagið í heild, hvort sem er með einkabanka, samfélagsbanka eða samvinnubanka.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

Já. Mikilvægt er að stjórnvöld geri heildargreiningu á hvernig peningaútgáfu er háttað og hvernig hægt er að betrumbæta þessa útgáfu m.a. hvort að með því að afnema heimild innlánstofnana til að búa til peninga. Seðlabankinn muni ákveða peningamagn í umferð ef sú leið yrði farin.

3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

Framsóknarflokkurinn telur að það gæti orðið þjóðhagslega hagkvæmt að vinna úr skýrslu Frosta Sigurjónssonar um mögulegar umbætur í peningamálum Íslands, Monetary Reform – A better monetary system for Iceland. Þar er fjallað um núverandi fyrirkomulag peningamyndunar á Íslandi og helstu vandamál reifuð sem því tengjast. Í samantekt skýrslunnar á íslensku segir m.a.: Seðlabankinn sjái alfarið um peningaútgáfuna. Stefna Framsóknarflokksins er skýr, að halda áfram þeirri vinnu sem skýrslan grundvallaði.

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Framsóknarflokkurinn telur að íslenska krónan sé framtíðargjaldmiðill landsins og því mikilvægt að treysta umgjörð hennar og stöðugleika. Við þær aðgerðir þurfi m.a. að horfa til þjóðhagsvarúðartækja. Þannig að í framtíðinni verði komið í veg fyrir óeðlilegar sveiflur á gengi gjaldmiðilsins, sem hefur leitt af sér eignabólur og grafið undan rekstrargrundvelli útflutnings og atvinnugreina. Til mikils er að vinna í þessum málum og því vill Framsóknarflokkurinn leggja mikla vinnu í að halda áfram á þeirri braut sem skýrsla og svo þingsályktunar tilaga Frosta Sigurjónssonar ofl. þingmanna hefur markað.

Tækifæri Íslendinga til þess að vera áfram brautryðjendur í nýjum lausnum fyrir fjármálahagkerfið eru miklar. Nýleglegar og frumlegar lausnir sem ríkisstjórnin, undir forystu Framsóknarflokksins, hefur sýnt að geta bætt samfélagið mikið m.a. með samningum við kröfuhafa þrotabús gömlu bankanna, þar sem mörg hundruð milljarðar munu skila sér í ríkissjóð og tryggja betur fjármálalegan stöðugleika lands og þjóðar. Einnig voru Framsóknarmenn óhræddir við að ráðast í róttæka skuldaleiðréttingu, sem skilaði heimilum landsins miklum búbótum og var einn lykilþátturinn í að koma hjólum efnahagslífsins til þess að snúast aftur. Á þessum grunni, bæði frumlegra og vel útfærðra efnahagslausna, viljum við halda áfram. Takmarkið er að gera samfélagið réttlátara á morgun en það var í gær. Hugmyndir um heildarútekt og endurskoðun á peningakerfinu eru til þess fallnar að bæta samfélagið, auka jöfnuð og tryggja að framleiðsluaukning hagkerfisins renni til þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn mun halda áfram með þær lausnir, fái hann umboð til þess.

Húmanistaflokkurinn

1. Hver er stefna flokksins varðandi peningaútgáfu?

Húmanistaflokkurinn byggir stefnu sína á hugmyndum samtakanna Betra Peningakerfi og höfum gert Þjóðpeningakerfið að forgans máli bæði í síðustu Alþingiskosningum og nú í kosningunum 2016.

2. Hafa frambjóðendur flokksins kynnt sér aðra kosti varðandi peningaútgáfu?

Já, þeir hafa kynnt sér hugmyndirnar um Þjóðpeningakerfið og styðja þær hugmyndir.
3. Stefnir flokkurinn að því að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu á kjörtímabilinu?

Já Húmanistaflokkurinn stefnir að því að styðja hugmyndina um Þjóðpeningakerfi á næsta kjörtímabili.

4. Myndi flokkurinn styðja tillögu þess efnis að kanna aðra kosti varðandi peningaútgáfu, kæmi hún fram á kjörtímabilinu?

Vinstrihreyfingin grænt framboð

Vinstri græn hafa ekki mótað sér stefnu varðandi peningaútgáfu og málið hefur ekki verið mikið til umræðu innan hreyfingarinnar. Við höfum samt sem áður fylgst með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um peningaútgáfu og tekið þátt í henni innan þings sem utan. Þingmenn okkar studdu m.a. tillögu Frosta Sigurjónssonar þingmanns framsóknarflokksins þess efnis að Alþingi setti á fót sérstaka nefnd eða starfshóp sem fengi m.a. það hlutverk að skoða þessi mál. Sú tillaga náði því miður ekki fram að ganga vegna andstöðu sjálfstæðisflokksins. Við erum áhugasöm um nýjar lausnir í peningamálum almennt og munum kanna alla raunhæfa kosti í peningaútgáfu og kynna okkur koma slíkar hugmyndir inn á okkar borð.