Þræll bankans

Eftir Viðar H. Guðjohnsen – áður birt í Morgunblaðinu 17. nóvember 2012
Það eru yfir fjögur ár liðin frá kerfishruni alþjóðlega bankakerfisins og hruni íslensku bankanna.

Þó hefur Alþingi Íslendinga af einhverjum undarlegum ástæðum eytt meiri tíma í að rífast innbyrðis um hvort umbylta eigi stjórnarskránni, hvort umbylta eigi fiskveiðistjórnunarkerfinu, hvort afsala eigi sjálfstæðinu með inngöngu í Evrópusambandið eða hin og þessi mál er viðkoma ekki þeim kerfisgalla sem liggur bæði í banka- og peningakerfinu sem slíku.

Sjálfsagt er að ræða öll þessi fyrrgreindu mál á yfirvegaðan hátt en þó er brýnna að koma í veg fyrir að annað eins bankahrun endurtaki sig; því það er nefnilega svo að ef haldið er áfram með óbreytt banka- og peningakerfi mun það enda með hörmungum.

Það þarf að ræða það að núverandi banka- og peningakerfi ýtir undir misnotkun í stað eðlilegra viðskiptahátta, veldur miklum eignatilfærslum frá þeim duglegri til bankans og hefur valdið því að stór hluti þjóðarinnar er nú orðinn að skuldaþræl.

Þennan stórfellda kerfisgalla sem gerir bönkum kleift að auka peningamagn í umferð, þenja með því út kerfið og geta í framhaldinu tekið til sín hagnað sem ekki er til þarf að laga.

Til þess að útskýra þetta betur skulum við örstutt skoða banka- og peningakerfið okkar og þennan umrædda kerfisgalla sem þarf að laga.

Í okkar peningakerfi stýrir Seðlabanki Íslands því seðla- og myntmagni sem er í umferð á hverjum tíma og til þess að koma í veg fyrir óhóflega peningaprentun, sem hæglega gæti orðið tilfellið sé hún í höndum hagsmunaaðila, er engum öðrum en Seðlabanka Íslands heimilt að prenta eða slá okkar gjaldmiðil; enda myndi óhófleg peningaprentun enda með hörmungum og verðrýrnun á gjaldmiðlinum.

Seðla- og myntmagn er þó aðeins lítill hluti þess heildarpeningamagns sem er í umferð á hverjum tíma þar sem bankar hafa það vald að geta búið til rafrænar óbundnar innstæður eða svokallaðar rafkrónur. Þessi rafræna peningaframleiðsla er hluti þess ferlis sem fer af stað við það að einstaklingur tekur lán hjá banka.

Þetta ferli, það er að segja hvernig bankar geta aukið peningamagn í umferð, hefur fengið afar litla umfjöllun í umræðunni um bankahrunið á Íslandi en ef skoðuð eru gögn um peningamagn í umferð, sem finna má á vefsíðu Seðlabanka Íslands, má sjá hvernig peningamagn í umferð vex nánast óheft frá einkavæðingu bankanna; enda höfðu þá þeir sem stýrðu bönkunum fjárhagslegan ávinning af því að auka peningamagn í umferð.

Gerum okkur grein fyrir því að seðla- og myntmagn í umferð er aðeins um 40 milljarðar, en hinar rafrænu óbundnu innstæður sem bankarnir sköpuðu úr engu eru um 1.000 milljarðar sem gerir það að verkum að við bankahrun njóta bankar alltaf baktryggingar frá ríkinu því án baktryggingar myndi gjaldmiðlaþurrð einkenna bankahrun og gjaldmiðlaþurrð myndi valda algjöru upplausnarástandi. Slík baktrygging er hins vegar afar dýrkeypt og getur snögglega gert skuldlausan ríkissjóð að afar skuldsettum ríkissjóði. Ríkisstjórn sem sér um skuldsettan ríkissjóð fer oftar en ekki í að skera niður í heilbrigðisþjónustu, hækka skatta og selja eignir svo dæmi séu nefnd.

Fyrir utan þær hættulegu efnahagssveiflur sem slík peningaframleiðsla skapar getur hún hæglega orðið til þess að tiltölulega skuldlaust þjóðfélag getur á stuttum tíma orðið skuldum vafið. Þetta gerðist á Íslandi og er enn að gerast.

Í raun má segja að núverandi kerfi þrýsti á afar magnþrungnar og hættulegar eignatilfærslur sem enda allar á því að bankinn verður ríkari og valdameiri á meðan flestir þeir sem taka lán frá bankanum verða skuldsettari og efnaminni.

Umræðuna hvernig koma megi í veg fyrir að bankar auki peningamagn í umferð, hvernig færa megi þessa rafrænu peningaframleiðslu til Seðlabanka Íslands, þarf að taka og það þarf að taka hana fyrr en seinna.

Höfundur er lyfjafræðingur.