Hugmynd að úrbótum á peningakerfi Íslands

Eftir Sigurvin B. Sigurjónsson – áður birt í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 13. og 20. október 2011

Eðli skuldavandans

Nú, þremur árum eftir eitt mesta hrun í fjármálakerfi hins vestræna heims, virðist enn ekki ljóst hvernig best er að takast á við efnahagsvandann sem fylgdi í kjölfarið. Litlu skiptir hvar í heiminum er borið niður, niðursveiflan er dýpri en vonir stóðu til og lítill hagvöxtur og svo til engin fjölgun starfa er ekki í samræmi við væntingar þeirra sérfræðinga sem mest svigrúm fá í fjölmiðlum.

Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa er í sögulegum lægðum í ríkjum þar sem greiðsluhæfi ríkissjóða er sterkt þrátt fyrir metpeningaprentun, t.a.m. í gegnum peningalega slökun (e. Quantitative easing) í Bandaríkjunum, Bretlandi og á evrusvæðinu, sem miðar að því að seðlabankar prenta peninga og kaupa með þeim ríkisskuldabréf og aðra fjármálagerninga, í þeim tilgangi að lækka vaxtastig. Sögulega séð hafa sambærilegar aðgerðir haft mun meiri áhrif á verðbólgu- og hagvöxt, en aðgerðirnar síðastliðin þrjú ár. Á sama tíma er ávöxtunarkrafa ríkja í greiðsluvanda í sögulegum hæðum, sem gerir það að verkum að þau eru háð velvilja annarra þjóða um fjármögnun sína. Ójafnvægið á fjármálamörkuðum og efnahagslífinu er augljóst. Skuldarar allra þjóða, sama hvort um er að ræða ríkissjóði, opinberar stofnanir, heimili eða fyrirtæki, eru þessa stundina að spyrja sig hvernig unnt er að bæta afkomu og lækka þannig skuldir? Þegar við skoðum eðli peningakerfisins er því miður ekki mögulegt að heildarskuldir allra aðila raunhagkerfisins (öll heimili, fyrirtæki og ríkisstofnanir) lækki yfir sama tímabil án þess að til komi sérstakar ívilnanir af hálfu fjármálakerfisins. Hér verður rakið hvers vegna og hvað er til ráða.

Vandamálið og afleiðingar þess

Peningakerfið snýr að því hvernig peningar eru skapaðir og settir í umferð. Gæta ber að rugla því ekki saman við fjármálakerfið eða hagkerfið sjálft, en peningakerfið er nauðsynlegur jarðvegur hvors tveggja. Peningakerfi nútímans, sem er uppbyggt með sambærilegum hætti um allan hinn vestræna heim, eiga það sameiginlegt að aðeins seðlabanki hefur heimild til að prenta peninga og aðeins er unnt að koma þeim í umferð gegn skuldbindingu um að þeir verði greiddir til baka með vöxtum í framtíðinni. Þannig myndast skuld fyrir hverja krónu, dollar, evru eða hvaða gjaldmiðil sem prentaður er. Viðskiptabankar lána svo út peningana til sinna viðskiptamanna og í gang fer svonefnt brotaforðakerfi (e. fractional reserve banking), sem ekki verður tíundað í smáatriðum hér, en í grunninn hefur það þau áhrif að bankakerfið margfaldar peningamagn í umferð og skuldir raunhagkerfisins á sama tíma.

Galli kerfisins felst í því að peningar til endurgreiðslu vaxta sem seðlabankinn og bankakerfið innheimta eru ekki prentaðir. En hvernig hefur kerfinu þá verið viðhaldið þetta lengi, ef það er svona ósjálfbært? Til þess eru tvær leiðir til sem eru í eðli sínu sambærilegar.

  1. Annars vegar er það leið niðurfellinga skulda. Hún felst í því að skuldir eru felldar niður og afskrifaðar hjá bönkum og fjármálastofnunum. Þegar nægjanlega mikill þrýstingur er kominn á niðurfellingu skulda, vegna ósjálfbærrar skuldastöðu raunhagkerfisins, á sér stað bankahrun. Skuldir  hafa verið felldar niður í stórum stíl hér á landi undanfarin misseri, t.a.m. í formi gjaldþrota, fjárhagslegra endurskipulagninga í tilfellum fyrirtækja og 110% leiðarinnar í tilfellum einstaklinga.
  2. Hins vegar er unnt að létta á þrýstinginum í kerfinu með neikvæðu vaxtastigi. Nafnvextir verða aldrei neikvæðir en ef verðbólga er tekin með í reikninginn og horft er til raunvaxta verða þeir reglulega neikvæðir. Þetta þýðir að meðalfjármagnseigandinn missir spón úr aski sínum og skuldarar njóta góðs af með raunlækkun skulda (séu þær ekki verðtryggðar). Á Íslandi í dag er stór hluti skulda hins vegar verðtryggður sem hægir á þessum áhrifum. Í dag eru skammtímaraunvextir víða neikvæðir í heiminum, sem léttir á þrýstinginum í kerfinu þar sem skuldir lækka að raunverði. Í Bandaríkjunum eru jafnvel ríkistryggðir vextir til 5 ára orðnir neikvæðir, sem sýnir hve mikill þrýstingurinn er á lágt vaxtastig í kerfinu. Unnt er að ná fram neikvæðum raunvöxtum með nægri peningaprentun og tilheyrandi verðbólgu.

Ef grannt er skoðað fela báðar ofangreindra leiða í sér að verðgildi fjármagns rýrnar og fjármagnseigendur og kröfuhafar missi þannig kaupmátt (fá minni verðmæti fyrir fjármagnið og kröfur yfir tíma). Ofangreindar leiðir eru forsenda þess að núverandi peningakerfi fáist þrifist til lengri tíma. Ef þær eru ekki farnar reglulega vex skuldastaða raunhagkerfisins hraðar en peningamagn í umferð, sem vissulega gengur ekki upp til lengri tíma.

Vaxi skuldirnar hraðar en peningamagnið, er ljóst að ekki er möguleiki fyrir alla til að standa við sínar skuldbindingar, sama hversu ábyrgir menn eru við stjórn fjármála sinna. Þannig hefur kerfið tryggt að einhverjir lenda í fjárhagserfiðleikum og gjaldþrotum, hvort sem það verða heimili, fyrirtæki eða opinberir aðilar. Ljóst er að samfélagsleg áhrif þessa galla eru alvarleg og víðtæk, þar sem kerfið felur í sér að gjaldfærni eins veltur á ógjaldfærni annars. Ekki verður fjallað nánar um alvarleika þessa stórkostlega galla kerfisins, en þessar afleiðingar kerfisins þurfa ekki að koma á óvart þegar horft er yfir sviðið í dag. Hvort sem við horfum til Íslands, Evrópu eða víðar.

Hugmynd að lausn

Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram til úrbóta á peningakerfinu. Hér verður lýst þeirri hugmynd sem farið hefur hvað hæst. Eins og flestar aðrar hugmyndir til úrbóta felur hún í sér útgáfu peninga án þess að til komi skuldbinding til endurgreiðslu. Aðeins þannig er unnt að lækka skuldastöðu raunhagkerfisins í heild sinni til framtíðar. Fjöldi hagsmunasamtaka vinna í þágu þessarrar hugmyndafræði og nú hefur verið lagt fram frumvarp í þessa veru fyrir Bandaríska þingið, sem hefur fengið númerið HR 2990 (National Emergency Employment Defense Act of 2010). Það felur í sér þrenns konar grundvallarbreytingar á núverandi kerfi:

  1. Seðlabanki Bandaríkjanna verði sameinaður ríkissjóði Bandaríkjanna. Þetta felur í sér ríkisvæðingu seðlabankans, en ekki bankakerfisins í heild sinni. Það verður því áfram á valdi opinbera aðila að ákvarða hve stór hluti fjármálakerfisins verður á vegum hins opinbera og hve stór rekinn af einkaaðilum.
  2. Brotaforðakerfið er lagt af í núverandi mynd. Þetta er nauðsynlegt, þar sem það felur í sér „prentun“ peninga gegn nýjum skuldum sem leitast er við að innheimta með vöxtum, án þess að peningar séu prentaðir til greiðslu þeirra.
  3. Nýjir peningar eru prentaðir og settir í umferð án kröfu um að þeir verði greiddir til baka til útgefanda. Felur þetta í sér að ríkissjóður hefur nýja fjármögnunarleið til framkvæmda og rekstrar ríkisstofnana.

Varðandi 3. lið er eðlilegt að menn hafi áhyggjur af óhóflegri verðbólgu vegna peningaprentunar og meðfylgjandi útþenslu hins opinbera. Þess vegna er rétt benda á að samkvæmt frumvarpinu skal ábyrgðaraðili peningaprentunar (Monetary Authority) haga peningaprentuninni á þann veg að stöðugleiki í verðlagi haldist. Því er ekki ástæða til að ætla að þróun verðlags verði sveiflukenndari en í núverandi kerfi. Verði hugmyndir í anda ofangreinds frumvarps að lögum verða peningar orðnir þjónar þegnanna, í stað þess að heilu samfélögin þjóni peningunum, með því að leitast við að fullnægja skuldum sínum.

Niðurlag

Hér hef ég yfirfarið í örstuttu máli grundvallarorsakir þeirra efnahagslegu erfiðleika sem við, sem hluti af hinum vestræna heimi, stöndum frammi fyrir. Hugmyndir sambærilegar þeirri sem að ofan greinir hafa verið settar fram af mörgum einstaklingum, vefmiðlum og hagsmunasamtökum víða um heim sem tala og berjast fyrir sömu breytingum. Fjölmargar bækur, fræðirit og greinar hafa verið ritaðar um efnið auk fjölda fræðslumyndbanda sem aðgengileg eru á youtube. Þá hefur verið stofnaður stjórnmálaflokkur í Bretlandi um málefnið (Money Reform Party). Í ljósi ofangreinds galla kerfisins ber okkur siðferðisleg skylda til að taka til umfjöllunar mögulegar grundvallarbreytingar uns niðurstaða fæst um það hvort núverandi peningakerfi sé það kerfi sem þjóni þjóðfélaginu best. Í því efni er gott að hafa í huga orð Edmund Burke, „Slæmir hlutir gerast þegar góðir menn aðhafast ekkert“.

Ef einhvers staðar er möguleiki til að breyta peningakerfinu í jafnmiklum grundvallaratriðum og hér hefur verið lýst þá er það hér á Íslandi, í ljósi smæðar, sveigjanleika og hversu kvikt og tæknivætt þjóðfélag okkar er. Einnig er rétt að benda á að með upptöku evrunnar gefum við frá okkkur tækifærið til ofangreindra umbreytinga. Altént verður mun meiri vandkvæðum bundið að ná fram breytingum á peningakerfi Evrópusambandsins þegar við erum komin inn en peningakerfi Íslands í dag.

 

Sigurvin B. Sigurjónsson

Höfundur er með M.Sc. í fjármálum og starfar sem sérfræðingur hjá KPMG en skoðanir í greininni eru settar fram á ábyrgð höfundar.