Betra peningakerfi fær nýtt merki og útlit

Ólöf Baldursdóttir, grafískur hönnuður, annar eigenda auglýsinga og hönnunarstofunnar 99 DESIGN í Stokkhólmi, hefur hannað vandað merki og útlit fyrir átakið Betra Peningakerfi. Merkið byggist á upphafsbókstöfum orðanna betra og peningakerfis, b og p og peningi.

Ólöf Baldursdóttir og 99 DESIGN gefa vinnuna við hönnun merkisins og útlits sem framlag til átaksins. Betra peningakerfi færir Ólöfu og 99 DESIGN bestu þakkir fyrir.

Um hönnuðinn

Ólöf Baldursdóttur er Íslendingum að góðu kunn fyrir hönnun fjölda merkja fyrir fyrirtæki og samtök áður en hún flutti með fjölskyldunni til Svíþjóðar árið 1984. M.a. gerði hún fyrrverandi merki Leikfélags Reykjavíkur, merki Póstmannafélags Íslands, merki Félags Slökkviliðsstjóra, merki fyrirtækja eins og Ríkisskipa, Veltis, Heimilistækja o.fl. Þá hefur hún hannað fjöldann allan af umbúðum fyrir fyrirtæki á Íslandi m.a. í matvöru- og sælgætisiðnaði. Hún hefur hlotið alþjóðaviðurkenningar í alþjóðasamkeppnum, nú síðast í Wolda 2010 með merki fyrir sænskt ráðgjafafyrirtæki og íslensku fiskiðjuna Bylgju hf. Hún gerði einnig merkið Íslandsdagurinn, sem notað hefur verið í samskiptum Íslendinga og Svía.

Um skeið vann Ólöf og stofa hennar mikið fyrir sænska póstinn við hönnun frímerkja og efnis tengt frímerkjaútgáfu. Hefur hún hannað yfir 50 eigin frímerki, sem gefin hafa verið út í mörgun löndum í samútgáfum Svíþjóðar við önnur lönd. Einnig hefur Ólöf útfært hugmyndir sænskra listamanna á annað hundruð frímerkja til viðbótar.
Nánari upplýsingar um 99 DESIGN www.99design.se