Þingsályktun til úttektar á fyrirkomulagi peningamyndunar

Alþingi logoÍ september sl. var lögð fram þingsályktunarillaga ellefu þingmanna fimm þingflokka um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar. Hún er svohljóðandi, auk greinargerðar.

“Alþingi ályktar að skipa nefnd þingmanna til að vinna úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar í landinu og gera tillögur að umbótum. Nefndin verði skipuð sex þingmönnum, einum frá hverjum þingflokki. Skrifstofa Alþingis sjái nefndinni fyrir starfsaðstöðu, starfsmanni og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð auk þess sem viðeigandi stofnanir hins opinbera verði nefndinni til ráðgjafar. Nefndin skili niðurstöðum sínum með skýrslu til Alþingis eigi síðar en tíu mánuðum eftir skipunardag.”

Þetta er í annað sinn sem þingsályktunartillaga er lögð fyrir Alþingi um svipað efni, en Lilja Mósesdóttir gerði slíkt hið sama árið 2013. Ljóst er að meðbyrinn er meiri nú og verður spennandi að sjá hvort málið komist á dagskrá þingsins og framgöngu þess.

Hér má finna umfjöllun Positive Money um málið.

Ný fjármálakreppa er óumflýjanleg

Jóhannes Björn hefur í áraraðir gagnrýnt núverandi peningakerfi sem nú styttist vonandi í að syngi sitt síðasta. Síðastliðinn fimmtudag birtist eftir hann hárbeittur pistill á stundin.is sem við birtum hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Ný fjármálakreppa er óumflýjanleg

johannesbjornÞótt fjármálakreppan í heiminum haustið 2008 hafi verið sú mesta síðan 1929 var hún sennilega miklu háskalegri heldur en ríkisstjórnir almennt viðurkenna. Frekar en að greina orsakir hrunsins og breyta um starfsaðferðir, þá upphófst mikið sjónarspil sem gekk út á það eitt að koma skuldum einkabanka og annarra fjárfesta yfir á herðar skattgreiðenda. Þessi ljóti leikur tryggir að næsta hrun, sem örugglega er ekki langt undan, verður sýnu verra heldur en hamfarirnar haustið 2008.

Harmleikurinn í Grikklandi er gott dæmi um hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig í heimi þar sem elíta sem telur 0,1% fólksfjöldans hefur keypt stjórnkerfið. Í desember 2009 áttu frönsk og þýsk einkafyrirtæki (aðal­lega bankar) €87 milljarða útistandandi í Grikklandi, en í desember 2014 var þessi upphæð komin niður í minna en €15 milljarða — þrátt fyrir sívaxandi skuldir Grikklands. Á meðan einkakapítalið var að skríða í skjól söfnuðu skattgreiðendur Frakklands og Þýskalands ónýtum grískum skuldum upp á yfir €160 milljarða.

Þessi sami leikur — að breyta skuldum einkaaðila í skuldir fólksins — hefur verið leikinn út um allan heim af seðlabönkum, ríkisstjórnum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Markmiðinu er náð með nýjum lánum frá opinberum sjóðum sem leysa gömlu einkalánin af hólmi. Lélegu lánasafni einkaaðila er breytt í opinberar skuldir án þess að eðlilegar afskriftir eigi sér stað. Þessi óbeini þjófnaður eftir krókaleiðum tekur sinn tíma og því hafa heildarskuldir gjaldþrota ríkja stöðugt verið að aukast. Óraunæf lán hækka og vaxtakostnaður bætist við höfuðstólinn. Áður en AGS kom inn í myndina í Grikklandi, sem dæmi, voru skuldir landsins um 115% miðað við þjóðarframleiðslu en í dag eru þær komnar yfir 175% og stefna hratt í 200%.

PIGS löndin (Portúgal, Ítalía. Grikkland og Spánn) eru öll tæknilega gjaldþrota og hafa verið síðan vextir ruku upp á árabilinu 2009-2010. Vextir af grískum ríkisskuldabréfum þrefölduðust til dæmis á þessu tímabili. Árið 2010 hefði verið rétti tíminn til þess að stokka upp allt lánakerfið og ná einhvers konar skynsamlegu jafnvægi, en það hefði þýtt miklar afskriftir hjá bankaelítunni, og því var farin leið sem í raun tryggði áframhaldandi kreppuástand. Gífurleg seðlaprentun síðan 2009 (stafrænar færslur) margra landa í senn — nokkuð sem á sér enga hliðstæðu í peningasögunni eða tæplega $60 trilljónir (evrópskar billjónir), sem samsvarar 15 ára þjóðarframleiðslu Þýskalands) — hefur slegið á sjúkdómseinkenni kreppunnar í augnablikinu. Líkt og afréttari hressir alkóhólista í einhvern tíma.

MYND: STUNDIN / HEIMILD: BIS, BARCLAYS RESEARCH

MYND: STUNDIN / HEIMILD: BIS, BARCLAYS RESEARCH

Skuldadans

Í Evrópu byrjaði seðlabankaballið fyrir alvöru þegar Mario Draghi lofaði mörkuðunum í júlí 2010 að hann ætlaði að „gera allt sem þyrfti“ til að viðhalda stöðugleika. Spákaupmenn og stjórnendur sjóða sáu græna ljósið frá Evrópubankanum og byrjuðu strax að spila á kerfið. Á þessum tíma báru 10 ára ítölsk ríkisskuldabréf um 7,5% vexti — sem verður að teljast vel sloppið hjá þjóð sem gengur í gegnum stöðugar stjórnarkreppur, skuldar allt of mikið, eldist hratt og á litla möguleika á að skapa verulegan hagvöxt — en þessi sömu bréf báru 1% vexti í mars á þessu ári. Spánn og Portúgal gátu líka slegið peninga á gjafavöxtum í krafti loforða seðlabankans.

Yfirborðið var slétt og fellt, en hvert barn gat reiknað út að Grikkland var gjaldþrota 2011 — skuldirnar fóru vaxandi á meðan hagkerfið hrundi og atvinnuleysi náði sömu hæðum og í kreppunni miklu á síðustu öld — en vextir af 10 ára ríkis­skuldabréfum fóru á tímabili undir 5% og grískir bankar gátu gefið út skuldabréf á opnum markaði fyrir hátt í milljarð evra. Lísa var komin í Undraland!

Kjarni málsins hér er auðvitað sá að bankar, sem árið 2009 sátu uppi með ónýt skuldabréf gjaldþrota ríkja, gátu á næstu árum losað sig við þau á ótrúlega góðu verði á gervimarkaði sem Evrópubankinn, nokkrar ríkisstjórnir og AGS höfðu skapað. Til að leiða athygli fólks frá því sem raunverulega var að gerast var rekið áróðursstríð gegn ríkjum Suður-Evrópu, og þá sérstaklega Grikklandi, þar sem íbúunum var stillt upp eins og rauðvínsþambandi letingjum sem skulduðu ráðsettum Þjóðverjum og öðru siðuðu fólki stórfé. Þjóðverjar kusu að gleyma því að þeir höfðu sjálfir fengið afskrifað fjórum sinnum á síðustu öld og voru í mjög svipuðum vanda 1953 og Grikkland í dag þegar þeir fengu að afskrifa hátt í 60% skulda.

Lygaáróðurinn var taumlaus. Grikkir fóru til dæmis ungir á eftirlaun og unnu stutta vinnuviku. Sannleikurinn er hins vegar sá að eftirlaunaaldur í Þýskalandi og Grikklandi er svo til nákvæmlega sá sami þegar meðaltal karla og kvenna er reiknað og Þjóðverjar fá miklu betur borgað. Samkvæmt skýrslu atvinnuráðs ESB vinna Grikkir, sem á annað borð hafa atvinnu, lengri vinnuviku heldur en þekkist í nokkru öðru ríki Evrulands. Skattsvik eru þó raunverulegt vandamál í Grikklandi og sérstaklega munar um að margir milljarðamæringar sem reka skipafélög borga enga skatta og fyrirtæki þeirra ekki heldur. Þessi arðvænlegustu fyrirtæki landsins og eigendur þeirra (þótt margir séu með búsetu í Grikklandi) skila gróðanum til skattaskjóla á aflandseyjum, auk þess sem spilltir pólitíkusar hafa greitt götu þeirra í áraraðir með bitlausum skattalögum.

Áróðursstríðið gegn Grikklandi þjónaði þeim tilgangi að draga athygli fólks frá þeirri staðreynd að hver „björgunarpakkinn“ á fætur öðrum rann að mestu leyti til franskra og þýskra banka. Sáralítið skilaði sér inn í gríska hagkerfið. Harkan átti líka að þjóna sem aðvörun til annarra skuldugra ríkja — borgið eða við eyðileggjum ykkur. En þessi áróður varð líka til þess að almenningsálitið í Þýskalandi og víðar varð svo andsnúið Grikkjum að það var engin pólitísk leið að semja við þá af einhverju viti. Þegar fram líða stundir eiga Þjóðverjar eftir að átta sig á að þeir hafa glatað mildari ímynd sem fyrri kynslóðir stjórnmálamanna hafa byggt upp síðan 1945. Þjóðverjar eru aftur ruddinn í götunni sem heimtar allt og gefur ekkert. Að minnsta kosti verður það skoðun margra þegar flokkar andsnúnir ESB (næst á Spáni og síðan í Frakklandi) vinna hvern sigurinn á fætur öðrum.

Skuldagildra

Hagkerfi landanna gengur reglulega í gegnum efnahagslægðir þegar þau „ofhitna“ og vaxandi verðbólga neyðir seðlabanka til þess að draga úr eftirspurn með hærri stýrivöxtum. Bankahrunið haustið 2008 var hins vegar miklu líkara hruninu 1929 þegar peningakerfið sjálft tók kollsteypu. Bankakerfið — brotasjóðakerfið sem stöðugt býr til nýja peninga og setur í umferð í formi skulda til að mæta nýsköpun eða hækkunum á raunverulegum verðmætum, eins og t.d. fasteignum — blés út fasteignabólu í mörgum löndum með brjálæðislegri hringrás peningamagnsins, þar sem skuldir voru stöðugt seldar til þess að fjármagna næstu umferð æðisins.

Fasteignir byrjuðu að hækka óeðlilega og bankarnir gátu veitt hærri lán út á hærra fasteignaverð. Lánin voru endurseld í afleiðupökkum og þetta nýja peningastreymi varð til þess að það varð mikilvægara að lána hratt frekar en að ganga úr skugga um lánshæfni þeirra sem voru að kaupa eða spá í hvort veðin væru traust eða héldu verðgildi sínu til framtíðar. Skuldabréfavafningarnir (afleiðupakkar) voru seldir sem örugg fjárfesting þótt alls konar ruslapappírum væri vísvitandi sturtað í pakkana. Matsfyrirtæki fengu greitt fyrir að gefa vafningunum einkunn, sem venjulega var AAA eða á borð við bréf traustustu landa.

Peningakerfið hrundi 2008 vegna ofurskulda — lán í umferð voru óviðráðanleg eftir að fasteignabólan sprakk — og þegar slíkt gerist er ekkert annað til ráða heldur en að afskrifa skuldir. Málið getur varla verið einfaldara. En bankaelítan, og sérstaklega þeir sem fjármagna banka með kaupum á skuldabréfum — þetta er sama fólkið og búið er að kaupa pólitíkusa margra landa — kaus að velta skuldunum yfir á skattgreiðendur. Nokkrum milljarðamæringum hefur verið bjargað, en afleiðingarnar verða hrikalegar fyrir allan almenning.

Eftirleikurinn

Síðan 2007 hafa skuldirnar í hagkerfi heimsins vaxið um tæpar $60 trilljónir (evrópskar billjónir) og skuldir á efnahagsreikningum seðlabanka heimsins hafa hækkað úr $3 trilljónum í $22 trilljónir á fimmtán árum. Svokölluð „magnaukning“ peninga sem nokkrir stærstu seðlabankar heimsins hafa staðið fyrir er ekkert annað en tilfærsla auðæva — skuldir gjaldþrota banka hafa í rólegheitum verið færðar yfir á herðar fólksins. Með því að kaupa ríkisskuldabréf milliliðalaust, sem er ekkert annað en hrá peningaprentun, hafa seðlabankar lækkað vexti niður á núllið með handafli. Allir sem eiga sparifé eða sjóði í banka hafa misst af innlánsvöxtum árum saman og tapið nemur hundruð milljörðum dollara. Bankar (sem með réttu áttu að fara á hausinn) fá hins vegar ókeypis peninga í seðlabönkum og kaupa skuldabréf traustra fyrirtækja eða ríkisstjórna sem enn borga vexti. Svokölluð „carry trade“ blómstrar líka á sömu forsendum þegar spekúlantar sækja ódýra peninga í einu landi og selja í öðru þar sem vextir eru hærri.

Síðan haustið 2008 hefur hagkerfi heimsins einkennst af spákaupmennsku og pappírsgróða banka. Fyrirtæki hafa líka tekið sér far á ­hringekjunni og notað ódýri peninga til þess að kaupa önnur fyrirtæki frekar en að reisa nýjar verksmiðjur með tilheyrandi innspýtingu í atvinnulífið. Sem dæmi um hversu afstæðir hlutirnir eru þá gat stórfyrirtækið Nestle nýlega slegið lán á skuldabréfamarkaði sem bar neikvæða vexti. Einhverjir aðilar borguðu fyrirtækinu fyrir að fá að lána því peninga!

Hagkerfið hrundi vegna ofurskulda og því hefur síðan verið haldið gangandi með miklu meiri skuldum. Við skulum ekki blekkja sjálf okkur eða láta blekkjast af áróðri elítunnar sem græðir á „magnaukningu“ og vöxtum sem stanslaust stela sparifé fólks. Þetta kerfi hrynur og það er ekki langt í að hjörðin snúi baki við ruslabréfum sem bera fáránlega lága vexti og ríkisskuldabréfum sem seðlabankar niðurgreiða. Draumurinn um að uppskera hagsæld og endalausan hagvöxt með hrárri peningaframleiðslu hefur oft skotið upp kollinum síðan menn lærðu að sletta bleki á annars verðlausan pappír … en sá draumur hefur alltaf endað með óskaplegri martröð.

Jóhannes Björn er höfundur bókarinnar Falið vald, þar sem hann greindi íslenskt valdakerfi árið 1979.

Grikkir næsta fórnarlamb

GrikklandSett voru á fjármagnshöft árið 2013 á Kýpur sem aðeins nýlega hefur verið unnt að losa. Nú eru Grikkir að grípa til sömu ráðstafana. Af hverju? Fólk og fyrirtæki eru að breyta bankapeningunum sínum (innlánum) í seðlabankapeninga (seðla og mynt) með auknum hraða þar sem það treystir ekki bönkunum og/eða treystir ekki að það geti nálgast þá í framtíðinni. Bankaáhlaupið á Kýpur hafði þær afleiðingar að bankar voru lokaðir í tvær vikur og takmarkanir voru á peningaúttektir í 2 ár. Nú hefur verið tilkynnt um lokun grískra banka til a.m.k. 7. júlí. Í kjölfar þess verða væntanlega sett á fjármagnshöft í formi hámarka á peningaúttektir.

Grunnorsök þessa er að innlánin sem við notum sem peninga eru skuldir viðskiptabanka. Viðskiptabankarnir geta lent í lausafjárvandræðum og reiða sig þá á lánafyrirgreiðslur seðlabanka, líkt og grískir bankar reiða sig á evrópska seðlabankann nú. Undir þjóðpeningakerfi verða peningar raftákn sem seðlabanki heldur utan um en er ekki skuldbinding neins. Því verður engin hætta á bankaáhlaupum undir þjóðpeningakerfi líkt og við höfum séð svo víða um heim frá árinu 2008.

Frétt RÚV um málið.

Úttekt Zerohedge um málið.

Vakt The Guardian á málinu.

Hvað segja erlendir miðlar um skýrslu Frosta?

financial_times_logoUndanfarið hafa birst fjölmargar umfjallanir um skýrslu Frosta Sigurjónssonar í fjölmiðlum á borð við Financial Times og The Economist. Í mörgum tilfellum er skýrslunni tekið fagnandi og opnað á frekari greiningu.

Hagfræðingur hjá RBS lét hafa eftir sér:

„Lykilhugmyndin er nýtt þjóðpeningakerfi, þar sem aðeins Seðlabankinn sér um peningasköpun. Hugmyndin gengur upp… Aðskilnaður peningasköpunar og hvernig nýir peningar eru nýttir getur virkað sem vörn gegn of mikilli skuldasköpun og um leið minnkað hvata viðskiptabanka til að skapa of mikið af skuldum í þágu eigin hagnaðar… Hugmynd Íslands er þess virði að kanna nánar.“

Adair Turner, fyrrverandi stjórnarformaður Breska fjármálaeftirlitisins (FSA), skrifaði:

“Skýrslan leggur til róttæka kerfisbreytingu sem lausn á vandanum sem við blasir. Ræða þarf fýsileika og kosti þeirrar lausnar. En hver sem niðurstaðan verður á endanum, verður hún að byggjast á þeim viðhorfum sem birtist í þessari skýrslu – að peningamyndun er of mikilvæg til að láta bankamenn eina um það verkefni.”

Financial Times:

“Eftir að hafa horfið frá því að losa sig við gjaldmiðilinn sinn veltir ríkisstjórnin í Reykjavík nú fyrir sér algjöru banni bankanna til þess að gefa út nýjar krónur þegar þeir veita lán… Á undanförnum árum hafa skandinavískir seðlabankamenn sýnt sama óttaleysi gagnvart nýjum valkostum og knúði norræn skip um víða veröld. Í þessum anda ætti Reykjavík að gefa þjóðpeningakerfinu tækifæri. Þjóðir mun stærri og sterkari en Ísland hafa átt í vandræðum með öfgar í fjármálalífinu með vanalegum úrræðum. Samhliða því að sýna öðrum þjóðum mögulega leið áfram, með því að láta til skarar skríða gegn brotaforðakerfinu gætu Íslendingar náð stjórn á efnahagslegri framtíð sinni.“

The EconomistThe Economist ritar:

“Ef vel tekst til gæti reynsla Íslands reynst mikilvægt fordæmi fyrir hnattrænar breytingar á peningakerfinu.

Fyrir hönd FT Alphaville, Matthew Klein:

“Áætlun Frosta fyrir Ísland er heillandi byrjun sem vonandi mun leiða til frekari umræðu um framtíð fjármálakerfisins. Ef kerfið yrði innleitt myndi það auka getu seðlabankans til þess að koma á stöðugleika í neyslu án þess að raska samsetningu hagrænna umsvifa.”

the-telegraph-logoThe Telegraph fullyrðir:

“Ríkisstjórn Íslands veltir nú upp byltingakenndum tillögum um peningamál – að fjarlægja vald viðskiptabanka til þess að búa til peninga og færa það seðlabankanum. Tillagan, sem yrði viðsnúningur í sögu nútíma fjármála… Lykilhugmyndin er hið nýja þjóðpeningakerfi, þar sem aðeins seðlabankinn er ábyrgur fyrir peningasköpun. Hugmyndin er rökrétt… að aðskilja valdið til peningasköpunar og úthlutunar peninga myndi standa vörð gegn óhóflegri peningasköpun og minnka hvata viðskiptabankanna til þess að skapa meiri skuldir í þágu eigin hagsmuna… Tillaga Íslands er þess virði að kanna.”

Reuters_logoEdward Hadas hjá Reuters ritaði:

“Áætlun Frosta er mögulegur leiðarvísir fyrir betra bankakerfi og Ísland er góður staður til að byrja á. Þjóðin gæti verið nægjanlega gröm til þess að reyna eitthvað nýtt og hið alþjóðlega og valdamikla bankakerfi myndi líklega umbera tilraun í þessu litla landi.”

Það er því ljóst að umræðan er víða mjög jákvæð og opin gagnvart hugmyndum um þjóðpeningakerfi. Fleiri hafa opinn hug gagnvart hugmyndunum og þekkingin á málefninu eykst hratt. Meðbyrinn er tilfinnanlegur og erum við þess fullviss að svo verði áfram.

Vel heppnaður fundur um þjóðpeningakerfi

Betra peningakerfi 1Húsfylli, um 70 manns, var á opnum fundi um þjóðpeningakerfið sem haldinn var í gærkvöldi á efri hæð Sólon. Frosti Sigurjónsson, þingmaður og höfundur nýútkominnar skýrslu um brotaforðakerfið og möguleika til úrbóta á því, hélt erindi þar sem hann fór vandlega yfir efni hennar. Frosti fór einnig yfir hagsögu Íslands undanfarin 50 ár og hversu illa núverandi kerfi hefur gengið að stýra peningamagni í umferð. Í máli Frosta kom fram að sama hversu illa mönnum tækist til við að koma á þjóðpeningakerfi, þá væri nýtt kerfi alltaf miklu betra en það sem við höfum í dag. Mjög skemmtileg stemming var á fundinum og greinilegt að mikill hugur er í mönnum að fá fram aukna umræðu um efnið og að taka upp þjóðpeningakerfi.

Við hvetjum alla til að kynna sér skýrsluna vel því hún fjallar um mál sem koma okkur öllum við, eða peningana okkar.

Í tilefni af gagnrýni

LjósaperaÍ kjölfar skýrslu Frosta Sigurjónssonar um peningakerfið hefur myndast nokkur umræða um hana og efni hennar. Ánægjulegt er að sjá hversu margir hafa tekið skýrslunni opnum örmum og hvetja til frekari umræðu. Má þar t.a.m. nefna Magnús Halldórsson, Hannes Hólmstein Gissurarson, Max Ehrenfreund hjá Washington Post og Zerohedge. Nauðsynlegt er þó að umræðan byggist á réttum upplýsingum og að gagnrýni á hugmyndirnar sé svarað. Í því ljósi er eftirfarandi athugasemdum komið á framfæri varðandi gagnrýni á efnisatriði skýrslunnar. Með þessu viljum við hvetja alla til þess að kynna sér efni hugmyndanna og að halda uppi upplýstri umræðu byggt á staðreyndum.

Ásgeir Jónsson

Tilvitnun:
Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 lét Ásgeir Jónsson, lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands, hafa eftir sér að við upptöku þjóðpeningakerfis „fer greiðsluþjónustan í rauninni frá bönkunum.

Athugasemd:
Hið rétta er að undir þjóðpeningakerfinu verða peningar aðgengilegir heimilum og fyrirtækjum í gegnum viðskiptabanka með sama hætti og í dag. Fjallað er um málið í kafla 7.2.1. um færslureikninga og hvernig þeir eru notaðir í viðskiptum í kafla 7.3.1. Meira gegnsæi felst í þjóðpeningakerfi þar sem bankarnir myndu innheimta þóknun fyrir greiðsluþjónustuna, en sá kostnaður er falinn í vaxtamun bankanna í brotaforðakerfinu.

Tilvitnun:
Í sama viðtali svaraði Ásgeir jákvætt spurningu fréttamanns þess efnis að „…þannig að öll viðskiptabankastarfsemi, veiting yfirdráttar, útlána og svo framvegis fer frá viðskiptabönkunum til seðlabankans?

Athugasemd:
Þetta er í mótsögn við kafla 7.3 skýrslunnar, þar sem lýst er hvernig lánastarfsemi bankanna fer fram undir þjóðpeningakerfi. En hún mun fara fram með sambærilegum hætti og fjölmörg lánafyrirtæki stunda í dag, þar sem gengið er frá fjármögnun áður en lánveiting er veitt.

Tilvitnun:
Í rammagrein í Viðskiptablaðinu þann 1. apríl kemur fram í viðtali við Ásgeir að „Í stuttu máli sagt yrði bönkum bannað að stunda tímaumbreytingu með upptöku þjóðpeningakerfis.

Athugasemd:
Þjóðpeningakerfið mun ekki fela í sér bann við tímaumbreytingu, eins og fjallað er um í köflum 7.3.4 og 9.5.1.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, setti fram gagnrýni í grein sinni á Pressunni.

Tilvitnun:
„Hugmyndir hans eru að verulegu leyti kenning sem hafnað var fyrir um átta áratugum.“

Athugasemd:
Fyrst ber að benda á að ekki er um hugmyndir Frosta að ræða, heldur tekur hann upp hugmyndir sem hafa verið útfærðar af Positive Money. Hér er Jón eflaust að vísa til Chicago-áætlunarinnar sem Irving Fisher var ötull talsmaður fyrir á fjórða áratugnum. Þar ber tvennt að hafa í huga:

 • Þó þjóðpeningakerfi snúist um að færa vald til peningaútgáfu frá bönkunum til ríkisins er það í grundvallaratriðum frábrugðið Chicago-áætluninni eins og Andrew Jackson hefur t.a.m. tekið saman. Chicago-áætlunin gengur út á að bankar eigi innstæður í seðlabanka að fullu á móti innlánum en í þjóðpeningakerfi eru peningarnir á efnahagsreikningi seðlabanka, sem færslureikningar, sbr. kafla 7.2.1 en ekki skuld á efnahagsreikningum bankanna, líkt og í núverandi kerfi.
 • Chicago áætluninni var ekki hafnað með skýrum málefnalegum rökum eins og prófessor Ronnie J. Philips fer ítarlega yfir í ritgerð sinni, „The ‘Chicago Plan’ and New Deal Banking Reform“. Niðurstaða hans er að Chicago-áætluninni hafi ekki verið hafnað á grundvelli hugmyndafræði, heldur vegna pólitískrar tækifærismennsku. Mikilvægt er að tryggja að það endurtaki sig ekki nú:
  • „The Chicago plan for radical banking was well known at the highest levels of government during the period 1933-35 and, though the plan called for radical changes’, the early New Deal probably offered the best chance for radical reforms to be undertaken. The question is thus why did the Chicago plan lose out?
   The answer, on one level, should be of no surprise: it lost as a matter of pure political expediency. It is important to note that it did not lose because the principles of the plan were rejected. In fact, the banking legislation passed during the period moved in part toward the Chicago plan reforms. Tugwell though that radical reform seemed like such a remote possibility, that Roosevelt abandoned any such attempts and opted for “simple restoration of a system people understood under conditions which would assure them of future safety” [Tugwell 1957: 2641.“

Tilvitnun:
„Af skýrslunni má álykta að ekki verði ráðist í slíka umbreytingu [innsk: upptöku þjóðpeningakerfis] í einu landi út af fyrir sig,…“

Athugasemd:
Jón rökstyður ekki þessa fullyrðingu, en kerfisbreytingin mun ekki hafa áhrif á milliríkjaviðskipti og ekki verður séð að hún feli í sér brot á ákvæðum EES samningsins, breytingarnar fela í sér þrengri skorður á bankana en í evrópska regluverkinu. Fjallað er um kerfisbreytingarnar í alþjóðlegu samhengi í kafla 9.5.8.

Tilvitnun:
„Í fyrsta lagi er þetta nýja kerfi miklu þyngra og flóknara en aðgerðir sem þegar eru hluti af núverandi tilhögun. Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands hafa tæki og umboð til að :
– ákveða hærri eiginfjárhlutföll banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða hærri lausafjárhlutföll banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða breytingar á reglum um gjaldeyrisjöfnuð banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða reglusetningu um tímafylgni innstæðna og útlána banka og annarra fjármálastofnana;
– ákveða reglusetningu um sérhæfingu banka og aðgreiningu í verkssviðum.
Ekki verður séð annað en slíkar aðgerðir muni ná sama árangri og Frosti vill stefna að – en með miklu minni tilkostnaði, fyrirhöfn og töf.“

Athugasemd:
Ekkert þeirra tækja og umboða sem Jón tilgreinir tekur á þeim atriðum sem breytingarnar snúa að, þ.e. að bankarnir hafi umboð til að skapa peninga með því að lána þá í umferð. Heldur taka þessir liðir á getu þeirra til peningasköpunar, sem hefur verið með takmörkuðum árangri eins og rakið er ítarlega í bók New Economics Foundation, Where Does Money Come From? og í umfjöllun Bank of England um peningasköpun frá 2014.

Tilvitnun:
„Í öðru lagi er óljóst hvernig nýtt þjóðpeningakerfi fellur að viðskiptalífi sem einkennist mest af kortagreiðslum og rafeyri.“

Athugasemd:
Eina breytingin sem breytingarnar fela í sér fyrir viðskiptalífið felst í að rafrænir peningar, sem í dag eru í formi innlána bankanna, verða í formi rafrænna peninga í útgáfu seðlabankans. Sjá nánar kafla 7.3.
Tilvitnun:
„Erfitt er að hugsa sér hvernig viðbrögð kerfisins eiga að geta mætt daglegum öldugangi í viðskiptum nú orðið, einkum ef allar ákvarðanir verða miðlægar í Seðlabankanum og tengdar pólitískum stjórnvöldum, eins og Frosti virðist gera ráð fyrir.“

Athugasemd:
Einu ákvarðanirnar sem fara fram innan seðlabankans, samkvæmt skýrslunni, snúa að aukningu peningamagns. Öll viðskipti á mörkuðum með vörur og þjónustu verða með sama hætti og nú er.

Tilvitnun:
“Í þriðja lagi verður að telja þetta miðlæga þjóðpeningakerfi þungt í vöfum og ósveigjanlegt. Erfitt er að geta sér til um lipurð þess til að bregðast við nýsköpun í atvinnulífi, tilraunastarfsemi sem felur áhættu í sér, eða hvernig það bregst við eftirspurn atvinnulífsins eftir auknu vinnumagni og þar af leiðandi hækkandi tilkostnaði. Í frjálsu athafnalífi eru slíkar ákvarðanir ófyrirsjáanlegar og algerlega ófært að setja þær undir skriffinnsku.”

Athugasemd:
Hér virðist Jón vera að hugsa til fjármögnunar tiltekinna aðila viðskiptalífsins. Fjölmargir sjóðir og stofnanir eru starfræktar í dag sem styðja við nýsköpun í atvinnulífi og áhættutöku. Kerfisbreytingarnar fela ekki í sér breytingar varðandi þjónustu við þá aðila sem Jón nefnir. Hvað kostnað varðar þá, þvert á það sem Jón segir, sparast vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja í landinu sem við teljum vera að lágmarki 80 þ.kr. á hvern vinnandi einstakling. Þá verður ekki séð hvernig skriffinnska ætti að aukast við breytingarnar, fyrir utan fundargerðir peningamagnsnefndarinnar til að tryggja gegnsæi.

Tilvitnun:
“Í fjórða lagi virðist slíkt miðlægt kerfi fela í sér ýmsa nýja kostnaðarþætti, þó ekki væri nema miðlæg gagnaöflun og úrvinnsla. Flest bendir því til að það valdi vaxtahækkun frekar en vaxtalækkun. Þetta verður þá ekki heldur til að styrkja gengi gjaldmiðilsins, jafnvel þótt stöðugleiki náist.
Í fimmta lagi felst það í hugmyndunum að allar ákvarðanir – dag frá degi og yfir daginn – verði teknar miðlægt í Seðlabankanum og pólitísk stjórnvöld eigi þar hlut að máli. – Trúir því nokkur maður að þá aukist viðbragðshraði, viðnám, festa og stöðugleiki? Trúa menn því að þá verði teknar ákvarðanir sem aðeins miðast við hagræn sjónarmið? Trúa menn því virkilega að þá verði hugsað til langs tíma í ráðstöfunum og staðið gegn skyndikröfum hagsmunaaðila?”

Athugasemd:
Ákvarðanir við lánveitingar verða áfram alfarið á höndum bankanna og annarra fjármálafyrirtækja. Því eru ofangreindar áhyggjur Jóns ástæðulausar.

Max Ehrenfreund hjá Washington Post

Þó Max taki undir mörg sjónarmið hugmyndanna er að finna nokkra gagnrýni í grein hans

Tilvitnun: 
“Central bankers can make mistakes just as easily as private bankers can. They might be reluctant to deflate bubbles if things seem to be going well outwardly, and they might respond too slowly in a crisis. Of course, these are problems with the existing banking system as well, but they’d be exaggerated under sovereign money.”

Athugasemd:
Ávallt verður hætta á mistökum þegar maðurinn kemur að ákvörðunum sem þessum. Hér er hins vegar mikilvægt að horfa á hvata þeirra sem taka ákvarðanirnar. Hvort er líklegra að stöðugleika verði viðhaldið þegar peningamagni er stýrt af:

 • Hópi manna með stöðugleika að markmiði, sem hafa aðeins hagsmuni af stöðugleika, eða
 • Hópi manna innan bankanna með hámörkun hagnaðar umbjóðenda sinna að markmiði, líkt og í núverandi kerfi?

Tilvitnun:
Eftirfarandi er haft eftir Ted Truman, fyrrverandi hagfræðingi Bandaríska seðlabankans:

“You essentially don’t have a banking system. You would have, actually, an almost Soviet-style banking system,” og “It’s a monobank, in the terms of Russia, the former Soviet Union.”

Athugasemd:
Vinsælt er að líkja hugmyndunum um þjóðpeningakerfi við gamla Sovétkerfið. Hins vegar stenst samanburðurinn ekki skoðun, eins og við höfum áður rakið.

Tilvitnun:
Í sömu grein er haft eftir Truman: “It’s not that the central bank couldn’t control the expansion of credit. It’s that they didn’t control the expansion of credit.”

Athugasemd:
Virkni stýritækja seðlabankans er mjög umdeild og færir Frosti rök fyrir því að viðskiptabankarnir stýri í reynd peningamagninu í kafla 5.3. Í þessu samhengi má einnig benda á umfjöllun Ólafs Margeirssonar um áhrifaleysi bindiskyldunnar. Þá ber þróun útlána innlánsstofnana í aðdraganda hrunsins á sama tíma og seðlabankinn varaði ítrekað við henni er ljóst að áhrif bankans eru minni en margir telja.

f.h. Betra peningakerfis,
Sigurvin Bárður Sigurjónsson

Skýrsla Frosta

Skýrsla FrostaSíðastliðinn þriðjudag afhenti Frosti Sigurjónsson forsætisráðuneytinu skýrslu um endurbætur á peningakerfinu. Ljóst er að hún getur orðið grundvöllur að skrefum í átt til umbóta. Betra peningakerfi stendur fyrir málefnalegri og upplýstri umræðu um málið og hvetjum við því alla sem vilja taka þátt í henni að kynna sér efni hennar.

Prinsar Jensins

The Princes of YenFramleiðendur 97% Owned, heimildarmyndar um umbætur í peningakerfinu, hafa gefið út nýja og áhugaverða mynd, Prinsa Jensins (e. Princes of the Yen). Myndin fjallar um völd seðlabanka heimsins og umbreytingar hagkerfa, byggt á samnefndri bók eftir prófessor Richard Werner, eins af ráðgjöfum Positive Money.

“Heillandi sýn á þörfina fyrir dýpri og almennari skilning á áhrif peninga á heiminn sem við lifum í.”

Ben Dyson – Stofnandi Positive Money og meðhöfundur Modernising Money.

Richard Werner starfaði við rannsóknir (visiting researcher) hjá Japansbanka (Bank of Japan) í falli bankakerfisins á tíunda áratugnum þegar hlutabréfamarkaðir landsins féllu um 80% og húsnæðisverð um 84%.

Myndin afhjúpar raunverulega orsök þessa sveiflukennda tímabils í japanskri sögu og leiðir myndin líkur að því að atburðirnir í Japan geti endurtekið sig í Evrópu.

Við mælum óhikað með þessari mynd fyrir þá sem vilja kynna sér þróun heimshagkerfanna út frá sjónarhorni peningakerfa.

Þrjár einfaldar breytingar

Þrjar einfaldar breytingar

Þegar við greiðum niður skuldir okkar við bankana gerir það öðrum erfiðara um vik að endurgreiða sínar skuldir.

Undanfarnar vikur höfum við birt myndbönd sem útskýra hvað peningar eru og hvernig peningakerfið leiðir af sér hátt fasteignaverð og vaxandi ójöfnuð. Í gegnum tíðina höfum við einnig fjallað um ókosti kerfisins á borð við:

 • Óþarflega há skuldsetning einkaaðila og opinberra aðila,
 • Óöryggi í greiðslumiðlunarkerfi,
 • Aukinn kostnaður skattgreiðenda,
 • Skakkir hvatar við ákvarðanir um aukningu/samdrátt í peningamagni,
 • Óþarflega miklar sveiflur í peningamagni með tilheyrandi verðbólgu, gengisfalli krónunnar og óstöðugleika

En hvað er hægt að gera til þess að ráða bót á þessu gallaða peningakerfi? Í þessu fjögurra mínútna myndbandi að fyrirmynd Positive Money setjum við fram tillögur í þremur liðum um hvernig unnt er að taka upp peningakerfi þar sem ofangreindir vankanntar eru ekki til staðar. Njótið og deilið!

 

Ójöfnuður

Ójöfnuður

Með því að lána nýja peninga í umferð tryggja bankarnir sér leigu fyrir peningamagnið í formi vaxtagreiðslna. Vaxtagreiðslurnar leggjast þyngst á herðar þeirra sem bera hæstar skuldirnar og þær renna til fjármagnseigenda, bankanna og eigenda þeirra. Þannig ýtir peningakerfið undir efnahagslegan ójöfnuð. Í stað þess að brauðmolar hrjóti af borðum bankanna til efnaminni einstaklinga, í anda þess sem kallað hefur verið lekahagfræði (e. trickle down economics), soga bankarnir til sín auð frá efnaminni einstaklingum.

Í þessu myndbandi, sem við unnum að fyrirmynd Positive Money, er því lýst með skýrum hættihvernig þetta gerist. Njótið og deilið!